Göngu- og hjólastígur í gegnum Vaðlareit

Þriðjudaginn 14. september voru undirritaðir samningar við landeigendur Halllands, Veigastaða og Ytri Varðgjár um kaup Svalbarðsstrandarhrepps á landi vegna göngu- og hjólastígs í gegnum Vaðlareit. Áður hafði verið gengið frá undirritun samninga við Skógræktarfélag Eyfirðinga en félagið mun sjá um fellingu trjáa og fjarlægja tré sem víkja fyrir göngu- og hjólastíg.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi frá áramótum og Svalbarðsstrandarhreppur, sem framkvæmdaaðili, hefur átt í miklu og nánu samstarfi við Norðurorku, Vegagerð, Akureyrarbæ, Eyjafjarðarsveit, VERKÍS, Landslag, landeigendur og Skógræktarfélag Eyfirðinga. Það er samstillt átak allra þessara aðila sem gerir göngu- og hjólastíginn að veruleika. Stíg sem mun tryggja örugga umferð gangandi og hjólandi um fallega leið þar sem fólki gefst tækifæri til að njóta náttúrunnar og útsýnis úr brekkunni fyrir ofan þjóðveginn.

Svalbarðsstrandarhreppur hyggst með þessu verkefni nýta sér þær framkvæmdir sem Norðurorka er að ráðast í vegna lagningar vatnslagna frá Vaðlaheiðargöngum og að Skógarböðum sem verið er að byggja upp í landi Ytri-Varðgjár. Lagnir verða og lagðar til Akureyrar fyrir kalt vatn en mikið magn vatns fannst við gerð Vaðlaheiðarganga, bæði heitt og kalt.

Fjármögnun verkefnisins skiptist milli Norðurorku, Vegagerðar og Svalbarðsstrandarhrepps. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki haustið 2022 og þá verði hafist handa við að skipuleggja lagningu göngu- og hjólastígs norður Svalbarðsströnd, fyrst að Svalbarðseyri og sem þriðja áfanga að hreppsmörkum í Víkurskarði.

Mikil aukning hefur orðið á hjólandi umferð um Svalbarðsstrandarhrepp og við sem hér búum höfum fullan skilning á því að svæðið laði til sín gesti. Stígurinn á eftir að gera öllum kleift að njóta umhverfisins, gangandi, hjólandi, þeirra sem búa við fötlun eða skert þrek. Áningastaðir verða byggðir upp á leiðinni þar sem hægt verður að stoppa og njóta umhverfis, fræðast um skóginn og starf Skógræktarfélagsins.

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps vill þakka öllum þeim aðilum sem hafa komið að undirbúningi þessarar vinnu. Um leið vill sveitarstjórn þakka fyrri sveitarstjórnum fyrir þá vinnu sem áður hafði verið unnin við að velja leið fyrir göngu og hjólastíg, setja á aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps og auðvelda okkur skrefin sem stigin hafa verið síðustu mánuði.

Ljóst er að Svalbarðsstrandarhreppur gæti ekki staðið undir þessari framkvæmd án liðsinnis Norðurorku, Vegagerðar og góðs skilnings landeigenda.

Verkefnið er litlu sveitarfélagi ofvaxið en með góðu samstarfi allra aðila og kraftmikið fólk á öllum vígstöðvum tekst okkur þetta. Um leið og sveitarstjórn Svalbarðstrandarhrepps vill þakka öllum samstarfsaðilum fyrir gott samstarf vill sveitarstjórn óska öllum íbúum við Eyjafjörð til hamingju með nýjan möguleika til útivistar og vistvæna tengingu milli sveitarfélaga og bjóða gesti svæðisins velkomin til okkar.