Almennt

Gróđrarreiturinn 100 ára - Sýningarlok

Almennt
Þann 22. október kl. 14.00 verður haldin hlutavelta í Safnasafninu. Á hlutaveltunni verða verk nemenda Valsárskóla og Leikskólans Álfaborgar sem sýnd voru á afmælissýningunni sem haldin var í tilefni af 100 ára afmæli gróðurreitsins. Safnað er fyrir  ávaxtasjóð Gróðrarreitsins.  

Gengið verður í hús seinnipart vikunnar og miðar seldir. Miðaverð er 1000 kr. en öllum er frjáls að láta meira af hendi rakna í söfnunina. Fjöldi miða er takmarkaður við fjölda verka þ.e. 77 og engin núll. Laugardaginn 22. október kl. 14.00 verður móttaka í Safnasafninu og afhending á listaverkunum eftir númeri seldra miða. Allir eru hjartanlega velkomir.

Í tilefni 100 ára afmælis Gróðrarreitsins var opnuð afmælissýning 7. maí s.l. í Svalbarðsstrandarstofu Safnasafnsins. Eplapari var plantað í garðinn við opnun sýningarinnar en það var hvatafélagið Ávöxtur sem gaf trén. Myndlistakonan Elsa D. Gísladóttir skipulagði sýninguna með þátttöku barna og fullorðinna frá leikskólanum Álfaborg, Valsárskóla og Kvenfélagi Svalbarðsstrandar. Stefnt var að hlutaveltu í sýningarlok til að  safna fé í ávaxtasjóð til kaupa á fleiri ávaxtatrjám. Lagt var upp með þá hugmynd að nemendur skólanna leggðu til myndlistaverk ásamt þeim sem eldri eru í byggðarlaginu og viljugir voru til að leggja söfnuninni lið með framlagi sínu. Það eru eigendur Gróðrarrreitsins, Kvenfélag Svalbarðsstrandar og Ungmennafélagið Æskan sem taka við ágóðanum.

Af eplatrjánum sem gróðursett voru við opnunina er það að frétta að ekki blés byrlega fyrir þeim í fyrstu, frost og snjór settust að út maí en staðarhaldarar Safnasafnsins dúðuðu þau í ull og flókateppi í versta hretinu. Í sumar blómstruðu þau bæði, reyndar nokkuð seint en það gerðu þau þó þrátt fyrir ungan aldur, 2ja ára. Það má búast við uppskeru ekki seinna en eftir 4 ár, jafnvel fyrr ef allt fer á besta veg. Tækifærin eru ótrúlega mörg til að koma upp tjám sem gefa af sér vel þroskaða ávexti eins og dæmin hafa sýnt hér á Íslandi síðustu árin. Nú er um að gera að taka höndum saman, styrkja söfunina og fá að launum einlægt listaverk til minja um aldarafmæli Reitsins. Stærsti ávinningurinn er svo uppbygging ávaxtalundar til framtíðar fyrir íbúa Svalbarðsstrandar.

Ávaxtasjóðurinn.


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is