Almennt

Opnađ fyrir umsóknir um Eyrarrósina 2013

Almennt
Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar, verður veitt í níunda sinn í febrúar árið 2013. Umsóknarfrestur er til miðnættis þann 7. janúar 2013. Eyrarrósin 2012 kom í hlut Safnasafnsins á Svalbarðsströnd.

Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Umsækjendur  geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð.

Valnefnd tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina. Handhafi Eyrarrósarinnar hlýtur 1.650.000 krónur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Aðrir tilnefndir hljóta 300.000 krónur auk flugferða.  Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, afhendir verðlaunin.

Umsóknir skulu sendar rafrænt á eyrarros@artfest.is. Umsóknum skal fylgja:
 • Lýsing á verkefninu
  Lögð skal fram greinargóð lýsing á verkefninu, umfangi þess, sögu og markmiðum.
 • Tíma- og verkáætlun
  Gera skal grein fyrir stöðu og áætlaðri framvindu verkefnisins og áformum á árinu 2013. Skilyrði er að verkefninu hafi nú þegar verið hleypt af stokkunum.
 • Upplýsingar um aðstandendur
  Lagðar skulu fram ítarlegar upplýsingar um helstu aðila sem að verkefninu standa og grein gerð fyrir þeirra þætti í því.
 • Fjárhagsáætlun
  Tilgreina skal tekjur og gjöld verkefnisins á þessu ári. Uppgjör ársins 2011 fylgi umsókn.

Það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem staðið hafa að verðlaununum frá upphafi árið 2005.


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is