Skipulagsnefnd

Skipulagsnefnd 024. fundur, 10.07.2008

Skipulagsnefnd

Skipulagsnefnd Svalbarðsstrandarhrepps.
24. fundur


Árið 2008, fimmtudag 10. júlí kl. 20:00 kom skipulagsnefnd saman til 24. fundar í Ráðhúsinu á Svalbarðseyri.

Mættir voru undirritaðir nefndarmenn: Gylfi Halldórsson, Hringur Hreinsson og Guðmundur Bjarnason í forföllum Önnu Fr. Blöndal. Einnig var mættur Árni K. Bjarnason, sveitarstjóri.

Gylfi Halldórsson, formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna.


 

  1. Tillaga að aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008 – 2020.Afgreiðsla athugasemda. Árni Ólafsson, arkitekt situr fundinn undir þessum lið.

Aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps var auglýst skv. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þann 15. maí 2008. Athugasemdarfrestur var til 26. júní 2008. Athugasemdir bárust frá fimm aðilum auk bréfs frá Skipulagsstofnun vegna umhverfisskýrslu skipulagsgreinargerðarinnar.

Skipulagsnefnd leggur til eftirfarandi afgreiðslu athugasemda:1Bréf dags. 25.6. 2008 frá Sveinberg Laxdal

1a) Ekki verði við það unað að landeigendum norðan eins konar „járntjalds” sem sett er sunnan Sigluvíkur, verði bannað að ráðstafa landi sínu til annarra nota en landbúnaðar nema í mjög takmrökuðum mæli. Bréfritari telur hugmyndina brjóta í bága við 72. og 65. grein stjórnarskrár Íslands um eignarétt, fái ekki staðist og geti bakað sveitarstjórn skaðabótaábyrgð. Spurt er hvað sveitarstjórn muni gera neiti bændur að nota land sitt til landbúnaðar.

Í ákvæðum aðalskipulagsins felast engin áform um eignaupptöku né takmörkun á nýtingu lands umfram það sem nú er.

Meginmarkmið með ákvæðum um landbúnaðarland L1 er að „tryggja svo sem kostur er að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði varðveitt til slíkra nota." Í kafla 4.3.2 er kveðið á um að ekki verði heimilt að byggja íbúðarþyrpingar eða frístundahúsahverfi á svæði L1 heldur einungis stakar byggingar í tengslum við núverandi lögbýli. Ennfremur eru settar skorður við skógrækt á góðu landbúnaðarlandi enda er ekki talið að skógræktaráætlanir á Norðurlandi séu í samkeppni við hefðbundinn landbúnað um ræktarland.

Með markmiði um varðveislu landbúnaðarlands til slíkra nota er ekki sett fram krafa eða kvöð um ræktun eða landbúnaðarnot heldur er stefnt að því að ráðstöfun og nýting landsins verði með þeim hætti að ekki verði skertir möguleikar á því að nýta landið til búvöruframleiðslu í framtíðinni.

Ekki fallist á sjónarmið bréfritara en athugasemdin gefur tilefni til orðalagsbreytingar í 1. mgr. í kafla 4.3.2 í greinargerð.

Í stað setninganna: „Ekki verður heimilt að byggja íbúðarþyrpingar eða frístundahúsahverfi á svæði L1. Einungis verður um að ræða stakar byggingar í tengslum við núverandi lögbýli.”

Komi:

Við umfjöllun og ákvörðun um breytta landnotkun á svæði L1 skal taka mið af meginmarkmiði um varðveislu góðs landbúnaðarlands þannig að ekki verði þar skertir möguleikar á nýtingu landsins til þeirra nota í framtíðinni.

1b) Mótmælt er ákvæðum um að ekki megi byggja nær sjó en 50 m og ekki nær vegum en 100 m. Landið verði enn verðminna og sum lönd ónýtanleg.

Í grein 4.15.2 í skipulagsreglugerð segir m.a.: „Almennt er ekki gert ráð fyrir deiliskipulagningu þessara svæða [þ.e. vatna, áa og sjávar] en í deiliskipulagi aðliggjandi svæða utan þéttbýlis skal þess gætt að ekki sé byggt nær vötnum, ám eða sjó en 50 m og að ekki verði hindruð leið fótgangandi meðfram þeim."

Ákvæði í kafla 4.12 um óbyggð svæði eru í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Í grein 4.16.2 í skipulagsreglugerð segir m.a.: „Við deiliskipulag svæða utan þéttbýlis skal þess gætt að ekki sé byggt nær stofn- og tengivegum en 100 m og ekki nær öðrum þjóðvegum og almennum vegum en 50 m."

Ákvæði í aðalskipulaginu taka mið af skipulagsreglugerð. Þar segir m.a.: „ Stefnt er að því að ný byggð verði almennt ekki nær miðlínu tengivega í dreifbýli en 100 m og 50 m frá öðrum vegum sbr. ákvæði skipulagsreglugerðar (gr. 4.16.2). Mörk landnotkunarreita og lóða geta þó verið nær. Frávik, þar sem aðstæður leyfa m.a. með tilliti til umferðaröryggis og hljóðvistar skulu einungis heimiluð í samráði við veghaldara."

Ekki verður séð að ákvæði skipulagsins séu íþyngjandi miðað við ákvæði skipulagsreglugerðar. Orðalag gefur kost á frávikum þar sem aðstæður leyfa og rökstuddar ástæður eru fyrir hendi.

1c) Gerð er athugasemd við „góðar bújarðir í mið- og norðurhluta hreppsins” þar sem engin þeirra sjö jarða í þeim hluta hreppsins, sem enginn eða lítill búskapur er nú á, er nægilega stór til nútíma búskapar.

Orðalagið „góðar bújarðir" kemur einungis fyrir í einu af meginmarkmiðum sveitarstjórnar í kafla 2.2 í greinargerð í samhenginu „góðar bújarðir og gott landbúnaðarland". Í 4. kafla sem fjallar um landnotkun og landnotkunarákvæði er einungis rætt um gott landbúnaðarland enda er litið á landið í heild óháð núverandi eignaskiptingu og landamerkjum. Aðalskipulagið tekur ekki til eignamarka eða stærða bújarða.

Orðalagi meginmarkmiðs í kafla 2.2 verður breytt og orðin „góðar bújarðir" strikuð út.

1d) Gerð er athugasemd við undirbúningsfundi þar sem „pikkaðir” voru út þóknanlegir aðilar til þess að ræða við.

Í 17. gr. skipulags- og byggingarlaga segir m.a.: „Áður en tillaga að aðalskipulagi eða verulegum breytingum á því er tekin til formlegrar afgreiðslu í sveitarstjórn skal tillagan, markmið hennar og forsendur kynnt íbúum sveitarfélagsins á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt. Skal kynningin auglýst með áberandi hætti.”

Í grein 3.2. í skipulagsreglugerð segir m.a.: „Leitast skal við að marka stefnu og áherslur skipulagstillögu í sem mestri samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila og kynna áform um skipulagsgerð með áberandi hætti s.s. með auglýsingum, dreifibréfum eða fundum, og leita eftir skoðunum þeirra varðandi helstu áherslur. Eftir því sem líður á mótun skipulagstillögu skal áfram leitað eftir virkri samvinnu við hagsmunaaðila um endanlega mótun tillögunnar.”

Sveitarstjórn vann að stefnumótun og drögum að aðalskipulagi frá haustinu 2004. Áður hafði verið unnið að undirbúningi verksins m.a. með fyrirspurnarblaði til landeigenda um áform og hugmyndir þeirra um landnotkun og nýtingu. Í upphafi verks var haldinn fundur með átta fulltrúum atvinnulífs, menningarlífs og íbúa. Til fundarins var boðað með það að markmiði að fá fram sem fjölbreyttust sjónarmið og sjónarhorn. Í framhaldi af fundinum vann sveitarstjórn drög að stefnu fyrir nýtt aðalskipulag. Auk þess var litið til nýrrar Staðardagskrár 21 sem unnið var að á sama tíma. Almennur kynningarfundur var haldinn 30. mars 2006. Þar var kynnt stefnumótun sveitarstjórnar, helstu forsendur skipulagsins og drög að aðalskipulagi, sem þá voru enn í vinnslu og mótun. Leitað var eftir athugasemdum, ábendingum og hugmyndum á fundinum og auk þess gefinn kostur á að senda athugasemdir til sveitarstjórnar eftir fundinn.

Gagnrýni á það hvernig staðið var að samráði við íbúa og hagsmunaaðila í upphafi er réttmæt að vissu marki. Auk ofangreinds fundar hefði mátt boða til almenns umræðufundar eða opins húss um stefnumótun og meginatriði. Hins vegar hefur samráð með þessum hætti gefið af sér ágætar forsendur fyrir áframhaldandi vinnu.

Skipulagsnefnd bendir á að kynning og málsmeðferð er í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar um gerð aðalskipulags.

1e) Bréfritari telur líkur „á að tveir sveitarstjórnarmanna séu og hafi verið vanhæfir til þess að fjalla um þetta mál, þar eð þeir eiga mikilla hagsmuna að gæta að hafa næg og ódýr leigulönd fyrir ofurbú sín.”

Þar sem ekki er um að ræða efnislega athugasemd við skipulagstillöguna er athugasemdin ekki talin gefa tilefni til ályktunar.

1f) Óskað er eftir því „að allt land Túnsbergs, ofan bæjar og að efstu fjallgirðingu, verði skilgreint á skipulagi sem skógræktar og sumarhúsasvæði.”

Land ofan bæjarhúsa Túnsbergs eru á landbúnaðarsvæði L3 og L4. Þar eru rúmar heimildir til nýtingar t.d. til skógræktar. Þar sem aðstæður leyfa kemur til greina að byggja frístundabyggð á L3 en slíkt krefst þó formlegar breytingar á aðalskipulagi. Fallist er á að breyta mörkum milli landbúnaðarsvæða L3 og L4 þannig að rýmri möguleikar verði fyrir frístundabyggð á svæðinu. Breytingin nær til lands frá Breiðabóli í suðri til Gautsstaða í norðri.

Lagfæra þarf orðalag í lið 1) í kafla um skógrækt í kafla 4.3.2 í greinargerð þannig að þar verði getið bæði L3 og L4 í stað L4 eingöngu.

1g) Því er mótmælt að svokölluð hverfisvernd sé látin ná yfir eignarland Túnsbergs í fjöru og þess krafist að það verið strikað út.

Hverfisverndarákvæði eru sett á hluta Svalbarðseyrar vegna útivistargildis. Í þeim felst takmörkun á jarðraski og efnistöku. Að öðru leyti verða áfram heimil öll hefðbundin nýting landsins.

Bæta þarf í kafla 5.1.2 í greinargerð ákvæðum um að allar hefðbundnar nytjar verði áfram heimilar.

Ekki verður fallist á að fella út hverfisverndarákvæði þar sem þau geta ekki talist íþyngjandi fyrir landeiganda. Sjá einnig athugasemdi 3c).

1h) Bréfritari telur viðhorf og vinnubrögð sveitarstjórnar vonda stjórnsýslu og ekki heiðarleg gagnvart jarðeigendum í mið- og norðurhluta hreppsins. Hann skorar á sveitarstjórn að draga tillöguna til baka og vinna málið upp að nýju með öðrum og lýðræðislegri hætti.

Sjá umfjöllun um lið 1a) og 1d).

Sveitarstjórn telur ekki ástæðu til þess að endurskoða skipulagstillöguna.2 Bréf dags. 25.6. 2008 frá Stefáni Tryggvasyni

Bréfritari mótmælir veigamiklum atriðum í skipulaginu sem hann telur ganga á skjön við eingarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sem og jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnvalda.

2a) Bréfritari telur að sveitarstjórn sé „með engu móti heimilt að mismuna landeigendum nýtingu eigna sinna vegna þess að um meint gott landbúnaðarland sé að ræða. Enda má ljóst vera að ef sá ásetningur sveitarstjórnar að nýta landbúnaðarland til búvöruframleiðslu á að ná fram að ganga þyrfti sveitarstjórn að hafa úrræði til að framfylgja slíku í óþökk landeigenda. Þyrfti þá að koma til leigu- eða eingarnám.” Farið er fram á að sveitarstjórn felli út alla mismunun eftir landgæðum milli landeigenda.

Ekki fallist á sjónarmið bréfritara sbr. 1a) en athugasemdin gefur tilefni til orðalagsbreytingar í 1. mgr. í kafla 4.3.2 í greinargerð

2b) Bent er á mismunun milli gras- og kornræktar annars vegar og skógræktar og annarrar landnýtingar hins vegar þar sem settar eru skorður við skógrækt og stærð annarra bygginga en landbúnaðarbygginga en nýrækt krefjist ekki breytingar á aðalskipulagi. Einnig er bent á ákvæði um lágmarksfjarlægðir bygginga frá vegum og strönd og að ekki komi fram hvort þau fjarlægðarmörk eigi stoð í lögum. Það eru því tilmæli bréfritara að mismunun eftir atvinnugreinum verði felld út og í stað óraunhæfra krafna um fjarlægðar- og stærðarkröfur „standi sveitarstjórn að baki því byggðamynstri sem myndast hefur í sveitarfélaginu síðustu ár og áratugi og tekur mið af aðstæðum íbúanna.”

Um lágmarksfjarlægðir mannvirkja frá strönd og vegum vísast til athugasemdar 1b).

Samkvæmt gildandi skipulagi er mest allt land sveitarfélagsins landbúnaðarland en þar „skal fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri á jörðinni” (skipulagsreglugerð, gr. 4.14.1). Mannvirki fyrir aðra starfsemi verða ekki reist á landbúnaðarsvæðum né settur þar á fót annar rekstur nema að breyttu aðalskipulagi.

Með ákvæðum um aðra atvinnustarfsemi í tillögu að nýju aðalskipulagi er hins vegar verið að ákvarða svigrúm fyrir aðra atvinnustarfsemi og byggingar aðrar en land­búnaðarbyggingar án þess að breyta þurfi aðalskipulagi. Breytingin frá gildandi aðal­skipulagi felst því í rýmri og opnari heimildum til byggingar og rekstrar á öllum bú­jörðum í sveitarfélaginu en nú er. Sveitarstjórn lítur svo á að með rúmum ákvæðum um aðra atvinnustarfsemi en búrekstur á bújörðum sé stuðlað að fjölbreyttu umhverfi og styrkingu þess byggðamynsturs, sem þróast hefur í hreppnum.

Ekki verður annað séð en að athugasemdin byggist á misskilningi og er því ekki fallist á sjónarmið bréfritara.

2c) Sveitarstjórn verði að láta af sértækum sjónarmiðum um ívilnun til handa einni tegund atvinnustarfsemi. „Hvort landeigendur rækta gras á landi sínu, planta þar skógi, starfrækja golfvelli, taka land undir íbúðarbyggð eða aðra þá starfsemi sem lög leyfa er fyrst og fremst háð eftirspurn eftir tiltekinni landnotkun hverju sinni og er og verður að miklu leyti ófyrirséð.” Benda megi á fjölmörg dæmi um frjálsræði við veitingu leyfa til bygginga og atvinnureksturs í sveitarfélaginu, sem myndað hafa fjölbreytt og litskrúðugt samfélag. Skorður sem settar eru í aðalskipulaginu eru til þess fallnar að auka á óeiningu íbúanna og hamla eðlilegri þróun byggðar og atvinnulífs. Farið er fram á að aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 verði endurskoðað og auglýst að nýju „svo tryggja megi sátt og samheldni meðal íbúa sveitarfélagsins.”

Sjá umfjöllun um 2b) og 1a).

Bent er á að íbúðarbyggð verður ekki byggð nema samkvæmt skipulagi, sem gerir ráð fyrir þeirri landnotkun. Sveitarfélög annast gerð aðal- og deiliskipulagsáætlana. Íbúðarbyggð utan þéttbýlis verður því ekki reist eftir hentugleikum landeigenda.

Nýting landbúnaðarlands til annarra nota, sem ekki skerðir möguleika á að nýta landið til búvöruframleiðslu í framtíðinni (t.d. undir golfvöll, aðra sérhæfða útivist eða jafnvel þótt landið falli í órækt) stríðir ekki gegn meginmarkmiði aðalskipulagsins um varðveislu góðs landbúnaðarlands. Hins vegar eru settar skorður við mannvirkjum og framkvæmdum sem koma í veg fyrir slíka framtíðarnýtingu. Sérhæfð útivistarsvæði s.s. golfvellir, tjaldsvæði o.þ.h. eru skilgreind í aðalskipulagi sem opin svæði til sérstakra nota. Við breytingu á landnoktun í aðalskipulagi þarf að taka mið af meginmarkmiðum um varðveislu landbúnaðarlands og taka mið af möguleikum á endurheimt landgæða í því tilliti.

Sveitarstjórn telur fullgild rök fyrir markmiðum um varðveislu góðs landbúnaðarlands auk þess sem þau eru í samræmi við markmið laga og stefnumótun stjórnvalda. Talsvert svigrúm er til fjölbreyttrar nýtingar landsins innan þeirra takmarkana, sem í ákvæðunum felast. Það svigrúm felur í sé mun fjölbreytari nýtingarmöguleika en heimilir eru skv. gildandi aðalskipulagsákvæðum.3 Bréf dags. 25.6. 2008 frá Bent Hanssyni

3a) Bréfritari mótmælir þeim takmörkunum sem settar eru fram um nýtingu og ráðstöfun eingarlands hans í aðalskipulagi. Hann telur þessar hugmyndir brjóta í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrár Íslands og fái ekki staðist enda brot á jafnréttisákvæði laga.

Sjá svar við 1a) og 2a).

3b) „Séu upp hugmyndir um varðveislu og/eða friðun á gamla íbúðarhúsinu í Garðsvík skal það áréttað að það er falt, annars eru áform um að rífa það.”

Ekki eru nein áform um friðun neinna 20. aldar húsa í hreppnum. Hins vegar er í kafla 5.2.3 í greinargerð bent á sérstæð steinsteypt íbúðarhús í Garðsvík og Leifshúsum en einungis mælst til þess að þeim verði sómi sýndur. Athugasemdin gefur ekki tilefni til breytinga á skipulaginu.

3c) Minnt er á að Knarrarnes sé í einkaeigu og hafi eigandi ekki samþykkt neina hverfisvernd þar enda ekki eftir því leitað. Bréfritari áskilur sér allan rétt til þess að endurbyggja þar sjóbúð.

Knarrarnes í landi Garðsvíkur er einn þeirra minjastaða, sem merktur er sérstaklega á aðalskipulagsuppdrætti. Auk þeirrar verndar sem fornminjar njóta skv. þjóðminjalögum er Knarrarnes skilgreint sem hverfisverndarsvæði í aðalskipulagi enda er staðurinn sérstakur og áhugaverður.

Bæta þarf við kafla 5.1.2 ákvæðum um hverfisverndina á Knarrarnesi um að jarðrask og spilling fornminja sé óheimil en öll hefðbundin not áfram heimiluð.

Hverfisverndarákvæði eiga ekki að koma í veg fyrir áframhaldandi hefðbundnar nytjar svæðisins og eiga því ekki að vera íþyngjandi fyrir landeiganda. Bent er á að endurbyggingu sjóbúðar verður að undirbúa og vinna í samráði við Fornleifavernd ríkisins.4 Bréf dags. 26.6. 2008 frá Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun telur að aðalskipulagstillagan sé að mörgu leyti vel unnin en gerir eftirfarandi athugasemdir við hana.

Náttúruverndarsvæði:

4a) Bent er á að gildistími Náttúruverndaráætlunar, sem vísað er til í greinargerð sé 2004-2008 en ekki 2003-2008.

Leiðrétt í greinargerð.

4b) Stofnunin telur að gera eigi betur grein fyrir þeim votlendissvæðum, sem falla undir 37. grein náttúruverndarlaga. Bent er á mikilvægi votlendis fyrir vistkerfið og að lítið sé eftir af ósnortnu votlendi. Einnig er bent á stefnu íslenskra stjórnvalda um vernd votlendis og aukna áherslu á endurheimt þess sbr. stefnumörkun um sjálfbæra þróun. „Umhverfisstofnun hvetur því til þess að í aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps verði mörkuð stefna um vernd þeirra votlendissvæðia sem eru innan sveitarfélagsins.”

Ekki hefur verið unnin sérstök greining á jarðmyndunum og vistkerfum í sveitarfélaginu, sem falla undir ákvæði 37. greinar náttúruverndarlaga. Mest allt votlendi á láglendi hefur verið ræst fram og þær mýrar og votlendi, sem eftir eru, eru ofan byggðar og ræktarlanda. Þeim stafar engin bein hætta af framkvæmdum eða nýrækt. Ákvæði um ræktun túna og skóga miðast við að votlendi verði ekki skert.

Í kafla 5.1.1 verði bætt ákvæðum um að ekki verði gengið frekar á votlendi eða mýrar.

Skilgreining vatnsgæða og flokkun vatns.

4c) Bent er á misræmi þar sem í greinargerð segi að stefnt sé að því að sveitarstjórn í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit og Umhverfisstofnun flokki vatnasvæði í sveitarfélaginu og setji viðmiðunarmörk vegna gerlamengunar og áburðarefna en í kafla 5.3.1 er gerð grein fyrir flokkun strandar og vatnasvæða skv. skilgreiningu 9. og 10. greinar reglugerðar um varnir gegn mengun vatns. Umhverfisstofnun leggur til að stefna skipulagsins verði því fremur að „sveitarstjórn (heilbrigðisnefnd), í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit og Umhverfisstofnun, meti ástand vatnasvæða í sveitarfélaginu og setji viðmiðunarmörk vegna gerlamengunar og áburðarefna.”

Réttmæt ábending.

Lið c í kafla 5.3.1 verði breytt og hljóði svo:

Stefnt er að því að sveitarstjórn (heilbrigðisnefnd) í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit og Umhverfisstofnun meti ástand vatnasvæða í sveitarfélaginu og setji viðmiðunarmörk vegna gerlamengunar og áburðarefna.

4d) Bent er á rangt heiti reglugerðar í kafla 5.3.2.

Leiðrétt í greinargerð.

Efnistökusvæði

4e) Stofnunin vekur athygli á því að ný efnistökusvæði geti fallið undir ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum en það komi ekki fram í greinargerðinni.

Texta bætt í greinargerð.

Veitur

4f) Bent er á misræmi og villur í heitum reglugerða, sem vitnað er til í kafla 6.2.

Leiðrétt í greinargerð.5 Bréf dags. 26.6. 2008 frá Akureyrarbæ

Fráveita

5a) „Það er mat skipulagsnefndar Akureyrar að fráveitumál verði að taka inn í aðalskipulag með markvissari og skilvirkari hætti en gert er í tillögum þeim sem fyrir liggja. Ekki liggur fyrir fagleg úttekt á því að rotþrær dugi fyrir jafn umfangsmikla frístundabyggð og gert er ráð fyrir í aðalskipulagstillögunni .... Það að auki er gert ráð fyrir 65-70 einbýlishúsum ofan Vaðlareitar og þjóðvegar, sem einnig á að tengja við rotþrær sem er óásættanlegt m.a. vegna nálægðar við Pollinn.” Akureyringum er mjög umhugað um að þeim árangri, sem náðst hefur við hreinsun sjávar í innanverðum Eyjafirði og Pollinum verði ekki stefnt í hættu og „er því óskað eftir markvissari skilgreiningum á því í aðalskipulaginu hvernig leysa skuli þau mál til framtíðar.”

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps tekur undir sjónarmið Akureyrarbæjar um gæði sjávar við innanverðan Eyjafjörð enda er um sameiginlegt hagsmunamál að ræða.

Í stefnu aðalskipulagsins, kafla 2.2.1 Veitur verði bætt eftirfarandi meginmarkmiði:

Unnin verði áætlun um framtíðarfyrirkomulag fráveitumála í suðurhluta sveitarfélagsins með það að markmiði að fráveita frá byggð hafi ekki neikvæð áhrif á gæði sjávar við innanverðan Eyjafjörð og í Pollinum.

Við 3. mgr. kafla 6.2.2 bætist setningin:. Stefnt er að því að fráveita frá byggð hafi engin neikvæð áhrif á gæði sjávar við innanverðan Eyjafjörð og skal útfærsla fráveitukerfa miðast við það.

Efnistaka

5b) „Engin efnistökusvæði eru skilgreind í aðalskipulagstillögunni og því gert ráð fyrir að efni til framkvæmda verði skaffað úr öðrum sveitarfélögum á svæðinu. Mikilvægt er að tekið verði á efnistökumálum í Eyjafirði til framtíðar s.s. í fyrirhugðu svæðisskipulagi.”

Hafin er vinna við gerð nýs svæðisskipulags Eyjafjarðarsvæðisins. Líklegt er að þar verði fjallað sérstaklega um efnistökusvæði á skipulagssvæðinu. Í kafla 4.13 verði bætt eftirfarandi texta:

Stefnt er að því að heildarumfang og skipulag efnistökusvæða verði unnið í svæðisskipulagi Eyjafjarðar.6 Bréf dags. 3. júní 2008 frá Skipulagsstofnun um umhverfisskýrslu í auglýstri tillögu að aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020

Í bréfi dags. 13. desember 2006 benti Skipulagsstofnun á að aðalskipulagstillagan félli undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og að hafa þyrfti samráð við stofnunina um umfang og nákvæmni upplýsinga í umhverfisskýrslu skipulagsins. Jafnframt benti stofnunin á að fjalla þyrfti um þrjá þætti tillögunnar í samræmi við 6. og 7. gr. laganna, þ.e. Vaðlaheiðargöng, blandaða landnotkun frístundabyggðar og landbúnaðar og blandaða landnotkun íbúðarbyggðar og landbúnaðar í suðurhluta sveitarfélagsins.

Við lokafrágang aðalskipulagstillögunnar eftir að athugasemdir Skipulagsstofnunar bárust var framsetningu hennar breytt þannig að ekki var lengur gert ráð fyrir blandaðri landnotkun landbúnaðar/íbúðarsvæða og landbúnaðar/frístundasvæða.

Í bréfi Skipulagstofnunar 9. apríl 2008 gerði stofnunin töluverðar athugasemdir við framsetningu umhverfisskýrslu sem henni hafði verið send vegna samráðs um umfang og áherslur.

Athugasemdir stofnunarinnar gáfu tilefni til heildarendurskoðunar umhverfisskýrslu aðalskipulagsins. Uppbyggingu skýrslunnar og efnistökum var breytt í grundvallaratriðum.

6a) „Vegna orðalags í kafla 7.1 í greinargerð aðalskipulagsins vill Skipulagsstofnun ítreka að endurskoðun aðalskipulags fyrir heilt sveitarfélag fellur að mati stofnunarinnar alltaf undir lög um umhverfimat áætlana enda er þar mörkuð stefna er varðar leyfisveitingar til framkvæmda, sbr. 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og greinargerð, sem fylgdi frumvarpi að lögum.”

Í 3. grein laga um umhverfismat áætlana segir m.a.:

„Ákvæði laga þessara gilda um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.”

Enn fremur segir í leiðbeiningarriti Skipulagsstofnunar um umhverfismat áætlana:

„Í upphafi umhverfismats þarf að taka afstöðu til þess hvort umhverfismatið eigi að beinast að tilteknum hlutum (stefnumiðum) áætlunarinnar öðrum fremur eða hvort áhrif allra stefnumiða áætlunarinnar skuli metin.”

Álit Skipulagsstofnunar að endurskoðun aðalskipulags fyrir heilt sveitarfélag falli alltaf undir lög um umhverfismat áætlana er ekki í samræmi við 3. grein laganna. Túlkunin er því íþyngjandi fyrir sveitarfélögin þar sem stofnunin krefst mun umfangsmeiri vinnu en lög kveða á um.

Eini þáttur aðalskipulags Svalbarðsstrandarhrepps sem fellur undir ákvæði laganna eru áformuð Vaðlaheiðargöng, sem eru á samgönguáætlun 2008-2010. Skipulagsstofnun úrskurðaði 20. september 2006 að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í greinargerð aðalskipulagsins eru tilgreind helstu áhrif gangagerðarinnar á samfélag og umhverfi og vísað í skýrslu um verkið, sem gerð var vegna tilkynningar framkvæmdarinnar til Skipulagsstofnunar 2006. Samantekt þessara áhrifa er í s.k. umhverfisskýrslu í kafla 7.2 í greinargerð. Ekki verður séð að þörf sé á ítarlegri greiningu á áhrifum ganganna í aðalskipulagi.

Sveitarstjórn telur að gerð sé fullnægjandi grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunarinnar í greinargerð.

6b) Stofnunin telur að ekki hafi verið brugðist nægilega við eftirtöldum athugasemdum og þurfi við endanlega afgreiðslu tillögunnar að gera grein fyrir hvernig sveitarstjórn begðist við þeim:

  • Aðferðir við umhverfismatið: Hvernig staðið var að umhverfismatinu, hvaða aðferðum var beitt og hverjir komu að matsvinnunni.

Í lið h) í umhverfisskýrslu (kafla 7.2) er greint frá vinnuaðferð við umhverfismat skipulagsins.

Í lögum um umhverfismat áætlana er þess ekki krafist að taldir séu upp þeir er komið hafa að umhverfismati áætlunar.

Mat á áhrifum skipulagsins var unnið af skipulagsnefnd, sveitarstjóra og skipulagsráðgjöfum. Þeim upplýsingum verður bætt við lið h) í kafla 7.2.

  • Öflun upplýsinga: Hvaða grunnupplýsingum var safnað til að spá fyrir um umhverfisáhrif tillögunnar.

Sjá lið h) í umhverfisskýrslu (kafla 7.2) og athugasemd 6a).

Skipulagsnefnd og skipulagráðgjafar töldu ekki ástæðu til þess að setja fram sýndarmat til þess að uppfylla formkröfur Skipulagsstofnunar um umhverfisskýrslu byggðar á umdeildri túlkun stofnunarinnar á lögum um umhverfismat áætlana sbr. 6a).

6c) Heimildaskrá þarf að vera í greinargerðinni.

Ábending tekin til greina.

6d) Minnt er á ákvæði 9. greinar laga um umhverfismat áætlana þar sem kveðið er á um greinargerð um hvernig umhverfissjónarmið hafi verið felld inn í áætlunina og hverfnig höfð hefur verið hliðsjón af umhverfisskýrslu og athugasemdum, sem bárust á kynningartímanum. Stofnunin mælir með að greinargerð skv. 9. grein laganna verði hluti af greinargerð aðalskipulagsins.

Samantekt sbr. 9. grein laga um umhverfismat áætlana verður bætt inn í greinargerð.

Skipulagsstofnun hefur ekki yfirfarið auglýsta aðalskipulagstillögu m.t.t. breytinga eða lagfæringa sem kunna að hafa verið gerðar á efni eða framsetningu hennar.


Skipulagsnefnd leggur til að tillögunni verði breytt í samræmi við afgreiðslu ofangreindra athugasemda. Nefndin telur að um minniháttar breytingar sé að ræða og leggur til að sveitarstjórn samþykki tillöguna svo breytta og sendi hana áfram til afgreiðslu og staðfestingar.


  1. Bréf frá Skipulagsstofnun dags. 3. júlí s.l. varðandi það að ekki sé heimilt að gera deiliskipulag fyrir einstaka lóðir.

Lagt fram til kynningar, ásamt úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 67/2006 sem bréf Skipulagsstofnunar byggir á.


  1. Deiliskipulagstillaga vegna íbúðarbyggðar Veigahvammsog frístundabyggðar Veigahalls í landi Veigastaða. – Umsögn Vegagerðarinnar.

Lögð fram umsögn Vegagerðarinnar dags. 3. júlí s.l., þar sem kemur fram að Vegagerðin gerir ekki athugasemdir við vegtengingu á Veigahvammi við Vaðlaheiðarveg eins og hann er teiknaður skv. teikningu VN dags. júní 2008.

Skipulagsnefnd leggur til að deiliskipulagstillagan verði auglýst.


  1. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Heiðarbyggðar í landi Geldingsár.

Lögð fram deiliskipulagstillaga dags. 9. júlí s.l. ásamt greinargerð unnin af Ágústi Hafsteinssyni hjá arkitektastofunni Form og Guðmundi Gunnarssyni hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar.

Einnig var lagt fram skjal dags. 29. júní s.l., þar sem Elías Hákonarson eigandi landspildu sem liggur sunnan og austan við sumarhúsasvæðið Heiðarbyggð samþykkir að byggingarreitur lóðar 12a í Heiðarbyggð sé 20 m frá landamerkjum.

Skipulagsnefnd leggur til að tillagan verði auglýst.

 

 

Fleira ekki fært til bókar. Fundi slitið kl. 21:40

 


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is