Skipulagsnefnd

Skipulagsnefnd, 13. fundur 02.11.2011

Skipulagsnefnd

Fundargerð
13. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, miðvikudaginn 2. nóvember 2011 kl. 17:00.
Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal, Stefán Sveinbjörnsson, Sandra Einarsdóttir og Jón Hrói Finnsson.
Fundargerð ritaði:  Sandra Einarsdóttir, ritari skipulagsnefndar.

Dagskrá:

1.  1107010 - Þróunaráætlun Kotabyggðar
Áður á dagskrá 10. fundar skipulagsnefndar þann 4. ágúst s.l. Kristinn Magnússon, byggingaverkfræðingur hefur gert mælingar á vegarstæði m.t.t. halla o.fl. Lögð fram planmynd og sniðmynd af vegum.
Lögð var fram tillaga frá Verkfræðistofu Norðurlands ehf. að breytingum sem þarf að gera á gatnahönnun í Kotabyggð svo hægt verði að breyta hverfinu í íbúðabyggð. Skipulagsnefnd er að mestu leyti sammála tillögunni en mögulegt væri að hafa veg C mjórri. Skipulagsnefnd leggur því til að gert verði ráð fyrir að vegir A og B verði a.m.k. 8 m. breiðir auk gagnstéttar öðru megin og vegur C verði a.m.k. 4 m. breiður. Gert verði ráð fyrir leiksvæði í hverfinu og svæðum fyrir snjósöfnun vegna snjómoksturs. Ökufær stígur sem þegar liggur að rotþróarsvæði verði látinn halda sér. Gert er ráð fyrir að lóðir nr. 27 og 31-33 verði felldar út og að lóð nr. 26 geti ekki orðið hluti af íbúðarhúsahverfi.
Með þessu er kominn grófur rammi að þróun hverfisins sem Skipulagsnefnd leggur fyrir landeigendur.
Skipulagsnefnd fellst á að fyrsti áfangi verði eins og hann er skilgreindur á teikningu frá landeigendum sbr. fundargerð 8. fundar að viðbættum lóðum nr. 1 og 1b. Skipulagsnefnd óskar eftir upplýsingum og hönnun að aðkomu að lóð nr. 34.

2.  1103025 - Deiliskipulag Frístundabyggðar í landi Sólbergs
Framhald umræðna um tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Sólbergs. Fyrir liggur tillaga heilbrigðisfulltrúa og sveitarstjóra að lausn á rotþróarmálum hverfisins, þar sem gert er ráð fyrir fjórum rotþróm fyrir hverfið. Uppfærð greinargerð verður lögð fram á fundinum.
Skipulagsnefnd samþykkir tillögu heilbrigðisfulltrúa og sveitarstjóra um lausn að rotþróarmálum þar sem rotþrær eru færðar austar á svæðið miðað við upphaflega hugmynd og gert ráð fyrir 4 rotþróm.
Farið var yfir uppfærða greinargerð með deiliskipulagi svæðiðsins. Greinargerð lagfærð og samþykkt, fylgir með fundargerð.

3.  1106007 - Deiliskipulag Svalbarðseyrar
Umræða um markmið og forsendur deiliskipulags á Svalbarðseyri. Þar sem fyrir liggur að Kjarnafæði hyggur á frekari uppbyggingu, þarf að huga að deiliskipulagi Svalbarðseyrar og gera verkefnislýsingu fyrir verkefnið.
Skipulagsnefnd leggur áherslu á að hafist verði handa við deiliskipulag Svalbarðseyrar. Sveitarstjóra falið koma skipulagsferlinu af stað.

4.  1110024 - Svæðisskipulag Eyjafjarðar - verkefnislýsing
Samstarfsnefnd um svæðisskipulag Eyjafjarðar hefur lagt fram lýsingu á verkefninu um gerð svæðisskipulags skv. 23. grein skipulagslaga nr. 123/2010.
Verkefnislýsing kynnt.

5.  1104006 - Deiliskipulag lóða í landi Halllands
Í tölvupósti dagsettum 1. nóvember 2011 óskar Máni Guðmundsson eftir að gerð verði breyting á aðalskipulagi vegna lóða í landi Halllands sbr. 3. lið í fundargerð frá 5. fundi skipulagsnefndar 7. apríl 2011. Fyrir liggur umsögn Guðmundar Heiðrekssonar fyrir hönd Vegagerðarinnar.
Skipulagsnefnd fellst á að notkunarskilgreiningu svæðisins verði breytt úr landbúnaðarlandi í svæði fyrir íbúðarbyggð. Skipulagsnefnd mælist til að farið verði með breytinguna sem óverulega breytingu á aðalskipulagi. Landeigendum verði veitt heimild til að hefja deiliskipulagsvinnu.
   
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 20:20.


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is