Skipulagsnefnd

Skipulagsnefnd, 21. fundur 05.12.2012

Skipulagsnefnd

Fundargerð
21. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, miðvikudaginn 5. desember 2012 kl. 17:00.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal formaður, Sandra Einarsdóttir ritari, Stefán H. Björgvinsson varaformaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði:  Sandra Einarsdóttir, ritari skipulagsnefndar.

Dagskrá:

1.  1106007 - Deiliskipulag Eyrarinnar á Svalbarðseyri
Ágúst Hafsteinsson skipulagsráðgjafi mætti á fund nefndarinnar. Sandra Einarsdóttir sat ekki fundinn undir umræðu um þennan lið. Jón Hrói ritaði bókun. Lögð fram uppfærð tillaga að skipulagi Eyrarinnar á Svalbarðseyri, uppdráttur og greinargerð ásamt minnispunktum skipulagsráðgjafa.
Farið yfir tillöguna og þær breytingar sem orðið hafa frá síðustu umfjöllun nefndarinnar. Skipulagsnefnd mælist til þess að deiliskipulagstillagan verði auglýst eins og hún liggur fyrir.

2. 1107010 - Þróunaráætlun Kotabyggðar
Áður á dagskrá á 17. fundi skipulagsnefndar þann 30. maí 2012.
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi íbúðar- og frístundabyggðar í Kotabyggð, unnin af Arkitektastofunni Form og Búnaðarsambandi Eyjafjarðar í október 2012, skv. heimild sveitarstjórnar frá 12. júní 2012.
 Ágúst kynnti deiliskipulagstillöguna sem nær til 43 lóða og lagt er til að 22 af lóðunum verði skilgreindar sem íbúðarhúsalóðir en hinar 21 verði áfram skilgreindar frístundalóðir. Ágúst vék að því loknu af fundi nefndarinnar.
Skipulagsnefnd óskar eftir að skipulagsuppdrátturinn verði gerður skýrari. Skipulagsnefnd óskar jafnframt eftir að breytingar verði gerðar þannig að lóðir 39, 40, 41 og 44 verði sameinaðar í 3 lóðir þannig að lóðirnar séu í samræmi við viðmið um lágmarkslóðastærð, sbr. kafla 4.4.2. í aðalskipulagi. Lóð 39 er það langt undir mörkunum að ekki þykir ásættanlegt að samþykkja hana óbreytta og aðliggjandi lóðir eru einnig undir mörkum. Uppfæra þarf tilvitnun í kafla 4.4.2. í aðalskipulagi, á bls. 5 í greinargerðinni, til samræmis við breytingu á aðalskipulagi sem unnin er samhliða deiliskipulagstillögunni. Í kafla 4.6 í greinargerðinni þarf jafnframt að bæta inn ákvæði um að ný frístundahús sem kunna að verða byggð skv. deiliskipulaginu skuli þannig hönnuð að þau uppfylli eða geti með breytingum auðveldlega uppfyllt ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhús, til samræmis við aðalskipulagsbreytinguna. Skipulagsnefnd vill að kannað verði hvort hægt sé að skýra kvaðir um húseigendafélag um ábyrgð og rekstur á sameiginlegum svæðum, snjómokstur o.fl. Nefndin óskar eftir að kafli 4.11. um gatnagerð í greinargerðinni verði endurskoðaður þannig að fram komi þau viðmið sem vísað hefur verið til í skipulagsvinnunni. Nefndin vill einnig að teknar verði út vísanir í drög að þróunaráætlun í deiliskipulagstillögunni.

3. 1209018 - Fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps 2013
Drög að fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps 2013 lögð fram til umsagnar.
Mikilvægt er að gert verði ráð fyrir kostnaði vegna skipulagsfulltrúa við fjárhagsáætlunargerð. Skipulagsnefnd óskar eftir að ekki verði gert ráð fyrir minni fjármunum til skipulagsmála en nýttir hafa verið á yfirstandandi ári.

4. 1211022 - Áríðandi tilkynning varðandi gildi deiliskipulags sem birt hefur verið í Stjórnartíðindum árin 2011 og 2012
Í bréfi frá 9. nóvember 2012 vekja Stefán Thors og Málfríður K. Kristiansen, fyrir hönd Skipulagsstofnunar, athygli á úrskurði Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 30/2012 frá 25. október 2012 varðandi tímafresti til að auglýsa deiliskipulag skv. Skipulagslögum nr. 123/2010.
Lögð voru fram drög að svari við erindi Skipulagsstofnunar. Skipulagsnefnd samþykkir að bréfið verði sent.

5. 1209003 - Breyting á Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 vegna Kotabyggðar
Áður á dagskrá 18. fundar skipulagsnefndar þann 5. september 2012.
Lögð fram tillaga að breytingu á orðalagi kafla 4.4.2 í aðalskipulagi þar sem fjallað er um Kotabyggð.
Tekið á dagskrá með samþykki allra fundarmanna. 
Tillagan rædd og ákveðið að fresta afgreiðslu til næsta fundar.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 20:00.


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is