Skipulagsnefnd

Skipulagsnefnd, 24. fundur 06.03.2013

Skipulagsnefnd

Fundargerð
24. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, miðvikudaginn 6. mars 2013 kl. 17:00.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal formaður, Stefán H. Björgvinsson varaformaður, Sigurður Halldórsson 2. varamaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði:  Jón Hrói Finnsson, Sveitarstjóri.

Árni Ólafsson sat fundinn undir liðum 1 og 2 sem ráðgjafi skipulagsnefndar.

Dagskrá:

1.  1209003 - Breyting á Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 vegna Kotabyggðar
Áður á dagskrá á 23. fundi skipulagsnefndar þann 6. febrúar 2013.
Útbúinn hefur verið samanburður á texta kafla 4.4.2 í aðalskipulagi fyrir og eftir breytingar, skv. tilmælum Skipulagsstofnunar, sbr. bréf Birnu Bjarkar Árnadóttur frá 1. febrúar 2013. Í samanburðinum eru efnislegar breytingar feitletraðar en texti sem fluttur er til ekki auðkenndur sérstaklega. Útbúið verður breytingarblað með mynd af svæðinu úr gildandi aðalskipulagsuppdrætti, sem verður óbreyttur.
Skipulagsnefnd leggur til að breytingin verði auglýst samhliða nýju deiliskipulagi fyrir Kotabyggð þegar það hefur verið samþykkt til auglýsingar.
   
2.  1107010 - Þróunaráætlun Kotabyggðar
Lögð fram ný útgáfa af tillögu að nýju deiliskipulagi Kotabyggðar. Í henni hafa lóðir 1 og 1b verið sameinaðar.
Skipulagsnefnd samþykkir áorðnar breytingar á deiliskipulagstillögunni, að því frátöldu að ekki hefur verið orðið við kröfu nefndarinnar um ákvæði um sameiginlegt eignarhald eigenda lóða á sameiginlegum svæðum. Skipulagsnefnd samþykkir að bæta eftirfarandi setningu aftast í kafla 4.1 Almenn atriði:
"Allt land utan skilgreindra lóða á skipulagssvæðinu skal vera sameign lóðareigenda. Kveðið skal á um eignarhlut hvers lóðareiganda í sameiginlegum svæðum og skyldu til aðildar að eigendafélagi í sölusamningi eða sambærilegu skjali sem þinglýst er á viðkomandi lóð". Skipulagsnefnd leggur til að deiliskipulagið verði sett í auglýsingu, að því gefnu að landeigandi geti fallist á breytinguna.
   
3.  1302036 - Umsókn um byggingu svefnskála
Í bréfi frá 15. febrúar 2013 óskar Hjálmar Jóelsson eftir skipulagsheimild fyrir byggingu svefnskála á lóðinni Vaðlaborgir 13. Í gildandi deiliskipulagi er ekki ekki gert ráð fyrir að byggð séu fleiri en eitt hús á hverri lóð og að hámarksstærð byggingar sé 85 fm.
Í ljósi þess að lóðin að Vaðlaborgum 13 er stór og í jaðri skipulagssvæðisins, telur skipulagsnefnd að byggingin sé ásættanleg þrátt fyrir að hún feli í sér umtalsvert frávik frá skipulagsskilmálum. Landhalli á svæðinu er mikill og því ætti svefnskálinn ekki að trufla útsýni frá húsum sem byggð yrðu á lóðunum ofan vegarins nr. 20-22. Skipulagsnefnd leggur því til að framkvæmdin verði sett í grenndarkynningu. Nefndin leggur meðal annars til grundvallar að svefnskáli sá sem um ræðir er hannaður í góðu samræmi við einsleitt yfirbragð Vaðlaborga og verður byggður úr sömu eða svipuðum byggingarefnum.
Nefndin leggur til að þátttakendur í grenndarkynningunni verði allir aðrir eigendur lóða, lands og fasteigna á deiliskipulagssvæðinu, auk eigenda lóðar nr. 3 í Veigahvammi og lóða nr. 1 og 2 í Veigahalli.
   
4.  1303001 - Umsókn um skipulagsheimild fyrir viðbyggingu
Í bréfi frá 4. mars 2013 óskar Margrét Jóhanna Heinreksdóttir eftir skipulagsheimild fyrir 88-96 fm viðbyggingu við hús hennar Árholt sem stendur á 5.400 fermetra eignarlóð úr landi Geldingsár. Viðbyggingin yrði á einni hæð til norðurs frá norðvestur horni núverandi íbúðarhúss.
Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið en óskar eftir að lögð verði fram gögn sem hægt væri að nota í grenndarkynningu, þ.m.t. afstöðumynd sem sýnir afstöðu fyrirhugaðrar viðbyggingar til lóðarmarka og annarra lóða á svæðinu og útlitsteikning unnin af löggiltum hönnuði.
   
5.  1303002 - Landskipti út úr jörð Þórisstaða
Í bréfi frá 4. mars 2013 óska Inga Margrét Árnadóttir og Stefán Tryggvason eftir staðfestingu skipulagsnefndar á uppdrætti varðandi landskipti 11,6 ha spildu úr landi Þórisstaða og umsögn sveitarstjórnar um landskiptin, sbr. IV. kafla jarðalaga.
Skipulagsnefnd staðfestir uppdrátt þann sem fylgir erindinu. Skipulagsnefnd lýsir sig meðmælta landskiptunum að því gefnu að hugsanlegir forkaupsrétthafar afsali sér rétti sínum.
   
6.  1303003 - Landskipti út úr jörð Leifsstaða
Í bréfi frá 4. mars 2013 óskar Þóranna S. Björgvinsdóttir eftir staðfestingu skipulagsnefndar á uppdrætti varðandi landskipti 17,5 ha spildu úr landi Leifshúsa og umsögn sveitarstjórnar um landskiptin, sbr. IV. kafla jarðalaga.
Skipulagsnefnd staðfestir uppdrátt þann sem fylgir erindinu. Skipulagsnefnd lýsir sig meðmælta landskiptunum að því gefnu að hugsanlegir forkaupsrétthafar afsali sér rétti sínum.
   
7.  1303007 - Umsókn um stöðuleyfi vegna vinnubúða
Tekið á dagskrá með samþykki allra fundarmanna.
Í bréfi frá 6. mars óskar Hjalti Jón Kjartansson, fyrir hönd Ósafls sf. eftir stöðuleyfi fyrir tímabundnum mannvirkjum í tengslum við framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Annars vegar er um að ræða skrifstofur, verkstæði og lagertjöld eða -gáma innan athafnasvæðis framkvæmdarinnar og hins vegar starfsmannabúðir sem staðsettar yrðu í landi Halllands, á íbúðarsvæði ÍB 21 sbr. breytingu á aðalskipulagi sem samþykkt var af Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps þann 13. júlí 2012 og staðfest af Skipulagsstofnun þann 15. október 2012.
Skipulagsnefnd leggur til að óskað verði eftir meðmælum skipulagsstofnunar með því að leyfi verði gefið út fyrir svefnskála og eldhúsi í landi Halllands með tilvísun til 1. tl. ákvæða til bráðabirgða í Skipulagslögum nr. 123/2010. Skipulagsnefnd telur að hagsmunir annarra en umsækjanda og landeigenda séu óverulegir. Þar sem samningur við landeigendur liggur fyrir telur skipulagsnefnd að þeir hafi haft tækifæri til að gæta hagsmuna sinna. Byggingarleyfi verði veitt með kvöðum um að umræddar byggingar verði fjarlægðar að framkvæmdatíma loknum.
Jafnframt leggur skipulagsnefnd til að umsækjanda verði falið að skila tillögu að deiliskipulagi athafnasvæðisins þar sem þar er um að ræða fleiri mannvirki og gæta þarf hagsmuna eigenda aðliggjandi lands og nærliggjandi lóða.
   
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:40.


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is