Skipulagsnefnd

Skipulagsnefnd, 35. fundur 31. janúar 2014

Skipulagsnefnd
Fundargerð
35. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, fimmtudaginn 30. janúar 2014 kl. 07:00.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal formaður, Stefán H. Björgvinsson varaformaður, Bergþóra Aradóttir ritari og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði:  Bergþóra Aradóttir, Ritari skipulagsnefndar.

Dagskrá:

1.     1401018 - Boð um þáttöku í samráðsvettvangi vegna mótunar landsskipulagsstefnu 2015-2026
    Í bréfi frá 20. janúar 2014 býður Einar Jónsson, fyrir hönd Skipulagsstofnunar, að tilnefna fulltrúa í samráðsvettvang vegna vinnu við mótun landsskipulagsstefnu. Í bréfinu er gefinn frestur til 10. febrúar til að tilnefna fulltrúa, en fresturinn fékkst framlengdur þar til sveitarstjórn hefur tekið afstöðu á fundi sínum þann 11. febrúar.
    Skipulagsnefnd leggur til að Anna Blöndal verði fulltrúi Svalbarðsstrandarhrepps.
        
2.     1401020 - Áskorun varðandi útsýnispall í Vaðlaheiði
    Í tölvupósti frá 26. janúar 2014 skorar Jóhannes Árnason á Svalbarðsstrandarhrepp og fleiri aðila, að beita sér fyrir gerð útsýnispalls austan þjóðvegar 1, gegnt Akureyri og stækkun þess palls sem fyrir er, vestan þjóðvegarins. Jafnframt bendir Jóhannes á mikilvægi þess að gerður verður stígur meðfram þjóðveginum.
    Skipulagsnefnd þakkar Jóhannesi Árnasyni erindið og góðar ábendingar. Hann hefur nú þegar verið upplýstur af sveitarstjóra í tölvupósti um fyrirhugaðar áætlanir um lagningu stígs meðfram þjóðveginum. Á þessu stigi liggja ekki fyrir neinar áætlanir varðandi útsýnispall en þegar að því kemur geta ábendingar Jóhannesar komið til góða. Í framhaldinu ræddi skipulagsnefnd um núverandi útsýnispall gegnt Akureyri og mikið álag við hann. Komu m.a. upp þær hugmyndir hvort núverandi efnislosun vegna Vaðlaheiðarganga geti nýst í tengslum við úrbætur á aðstöðu þar. Gæti afrein af Grenivíkurvegi við hringtorg legið útaf því til vesturs og áfram inn á útsýnispallinn. Leggur skipulagsnefnd til að hugmyndinni sé komi á framfæri við Vegagerðina.
        
3.     1401006 - Íbúafundur
    Ákveðið hefur verið að halda íbúafund laugardaginn 15. febrúar 2014, þar sem meðal annars á að kynna skipulagsmál. Rætt um fyrirkomulag og efni skipulagskynningar.
    Skipulagsnefnd leggur til að íbúafundurinn verði með eftirfarandi hætti:
Kynntar verði þrjár hugmyndir að deiliskipulagi Svalbarðseyrar norðan Valsárskóla sem búið er að vinna af Árna Ólafssyni og að hann sjái um þá kynningu. Þá var ákveðið að hengja upp til kynningar og skoðunar deilskipulagstillögur sem búið er að vinna nú þegar af Kotabyggð og af Eyrinni. Einnig myndi skipulagsnefnd vilja kynna hugmyndir að stíg sem leggja á eftir sveitarfélaginu endilöngu ásamt fyrirhuguðum hugmyndum að skipulagi fyrir athafnasvæði norðan Svalbarðseyrarvegar, skipulagning á núverandi íbúðabyggð á Svalbarðseyri og skólasvæðinu. Einnig var ákveðið að koma upp skipulagskassa þar sem íbúar geta komið á framfæri skriflega hugmyndum sínum varðandi skipulagsmál. Þá myndi nefndin vilja kynna fyrirhugaðar breytingar varðandi sorphirðu og breytingar varðandi staðsetningu sveitastjórnarskrifstofu. Í lok fundar verði boðið upp á fyrirspurnir og almennar umræður. Nefndin leggur til að fundurinn hefjist kl. 11 og að boðið verði upp á á súpu í hádeginu.
        
4.     1401021 - Hönnunarviðmið fyrir götur í íbúðarbyggðum í Svalbarðsstrandarhreppi.
    Lögð fram drög að hönnunarviðmiðum og verklagsreglum fyrir frágang gatna/grunngerðar í íbúðarhverfum í Svalbarðsstrandarhreppi.
Í deiliskipulagi Kotabyggðar sem er til umsagnar hjá Skipulagsstofnun er vísað til slíkra viðmiða og verklagsreglna, en engin slík gögn hafa hlotið formlegt samþykki sveitarstjórnar.
    Þau viðmið og verklagsreglur sem Svalbarðsstrandarhreppur hefur verið tekið mið af fram til þessa koma fram í skjali um íbúðarhús í dreifbýli unnið af Verkfræðistofu Norðurlands ehf og Teiknistofu Arkitekta-Gylfi Guðjónsson og félagar. Skipulagsnefnd leggur til að þær tillögur sem þar koma fram í kafla 2 verði samþykkt eins og þær liggja fyrir og að bætt verði við tillögurnar að í íbúðagötum í þéttbýli verði krafa á að hafa bundið slitlag og að lögð verði gangstétt amk öðru megin. Einnig að það verði hófsöm og stefnuvirk raflýsing. Þá verði einnig útfærð viðmið fyrir götur í frístundahúsabyggð. Leggur skipulagsnefnd til að viðmiðin fyrir þannig byggð séu þau sömu og fyrir íbúðahúsagötur þegar kemur að langhalla og beygjum en að götubreidd skuli vera að lágmarki 4 m (útskot). Einnig þykir skipulagsnefnd rétt að fram komi ákvæði um burðarþol vegar og undirbyggingu. Sveitarstjóra falið að útfæra tillögurnar miðað við umræður og leggi fyrir næsta fund til samþykktar.
        
5.     1401022 - Staðfesting á Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024
    Í bréfi frá 21. janúar 2014 tilkynnir Birna Björk Árnadóttir, fyrir hönd Skipulagsstofnunar, um staðfestingu stofnunarinnar á Svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024. Svæðisskipulagið tekur gildi við birtingu í B-deild stjórnartíðinda.
    Lagt fram til kynningar. Skipulagsnefnd er nú bundin af Svæðisskipulagi Eyjafjarðar í sinni skipulagsvinnu.
        
6.     1401023 - Umsókn um leyfi fyrir tímabundinni efnislosun
    Í bréfi frá 29. janúar 2014 óskar Valgeir Bergmann, fyrir hönd Vaðlaheiðarganga ehf., eftir framkvæmdaleyfi fyrir tímabundinni efnislosun á túninu í Hallandsnesi norðan við núverandi vinnusvæði Vaðlaheiðarganga og vestan þjóðvegar 1.
    Tekið á dagskrá með samþykki allra fundarmanna. Fram kom að eigendur ferðaþjónustunnar í Halllandsnesi og eigandi sumarbústaðarins Strandar, norðan við umrætt svæði hafa lýst áhyggjum sínum af hugmyndum um efnislosun á þessum stað í samtölum við sveitarstjóra.
Erindið er umfangsmikið og óskar skipulagsnefnd eftir fundi með framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga ehf. til að fara betur yfir það. Jafnframt óskar skipulagsnefnd eftir því að fá myndræna útfærslu á því hvernig fyrirhugað losunarsvæði líti út innan svetarfélagsins þ.e. þegar ekið er úr norðri eða suðri eftir þjóðvegi og frá Hallandsnesi.      

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15.Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is