Skipulagsnefnd

Skipulagsnefnd, 7. fundur 07.07.2011

Skipulagsnefnd

Fundargerð
7. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, fimmtudaginn 7. júlí 2011 kl. 17:00.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal, Stefán Sveinbjörnsson, Stefán H. Björgvinsson og Jón Hrói Finnsson.

Fundargerð ritaði:  Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri

Dagskrá:

1.  1107002 - Beiðni um frávik frá deiliskipulagi í Sunnuhlíð
Í bréfi dagsettu 26. júní 2011 óska Haukur Ingólfsson og Ingibjörg Hreinsdóttir eftir samþykki skipulagsnefndar fyrir því að vikið verði frá skilmálum deiliskipulags Sunnuhlíðar þannig að fyrirhugað frístundahús á lóðinni Háamel verði byggt 23,3m frá landamerkjum Sunnuhlíðar og Tungu í stað 30m eins og gert er ráð fyrir í deiliskipulagi. Fyrir liggur yfirlýsing um samþykki eiganda Tungu.
Þar sem engin undanþága er veitt frá 30 metra reglunni í aðalskipulagi sveitarfélagins getur skipulagsnefnd ekki fallist á erindið að svo stöddu. Skipulagsnefnd mælist til að sveitarstjórn beiti sér fyrir að setningin 'Þó er heimilt að byggja nær mörkum lögbýla, ef fyrir liggur samþykki eigenda aðliggjandi lands' þar sem það á við. Skipulagsnefnd telur að um óverulega breytingu á aðalskipulagi sé að ræða og að fara megi með hana samkvæmt 2. mgr. 36. greinar skipulagslaga nr. 123/2010. Meginrök nefndarinnar fyrir breytingunni eru þau nefndin telur að til hafi staðið að hafa slíkt undnaþáguákvæði í aðalskipulaginu, en að ákvæðið hafi fallið út fyrir mistök.

2.  1105027 - Hjólreiðastígur meðfram þjóðvegi 1
 Umræða hefur lengi verið í sveitarfélaginu um gerð hjólastígs meðfram þjóðvegi 1 þar sem hann liggur um sveitarfélagið. Ákveða þarf hvar stígurinn á að liggja ef af gerð hans verður. Á aðalskipulagsuppdrætti er stígurinn sýndur vestan þjóðvegarins.
Skipulagsnefnd metur það svo að hjólreiðastígur þurfi að liggja austan þjóðvegarins í syðsta hluta sveitarfélagsins þar sem mjög bratt er vestan hans. Nefndin telur ekki raunhæft að stígurinn fari austur fyrir fyrirhugaðan gangnamunna, þar sem sú leið yrði brött og óárennileg til hjólreiða. Það er því ljóst að þvera þarf þjóðveginn og Veigastaðaveg. Skipulagsnefnd telur að gera þurfi ráð fyrir undirgöngum fyrir hjólastíg á framkvæmdasvæði jarðganganna. Sveitarstjóra er falið að koma sjónarmiðum Skipulagsnefndar á framfæri við Vegagerðina.

3.  1107001 - Ósk um breytingu á staðsetningu rotþróar
Gunnar Tryggvason, Vignir Sveinsson og Veigastaðir ehf. óska sameiginlega eftir heimild til að breyta fyrihugaðri staðsetningu rotþróar fyrir Vaðlabrekku 10 og 12, frá því sem merkt er á deiliskipulag. Heilbrigðiseftirlitið gerir ekki athugasemd við nýja staðsetningu en vill fá að taka út fráganginn áður en fyllt er að rotþróm og siturlögnum.
Skipulagsnefnd fellst á að rotþróin verði færð, að því tilskildu að tryggt verði að frágangur hennar verði unnin í samráði við heilbrigðissfulltrúa. Nefndin bendir sérstaklega á að huga þurfi að því að lengd siturlagna séu nægileg fyrir þá stærð rotþróar sem teiknuð er. Þar sem um svo óverulegt frávik frá deiliskipulagi er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, ákveður skipulagsnefnd að falla frá ákvæðum 2. mgr. 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2011 með tilvísun til 3. mgr. sömu greinar.

4.  1107006 - Ósk um heimild til að steypa plötu með frávikum frá gildandi byggingarleyfi
Með bréfi dagsettu 6. júní s.l. óskaði Þröstur Sigurðsson, hönnuður hússins að Halllandsnesi, fyrir hönd Bravo ehf, eftir leyfi til að steypa plötu sem tekur mið af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á ósamþykktum teikningum. Platan yrði þá steypt án þakglugga og með svölum, eða með járnabindingum fyrir svalir, þannig að steypa mætti svalir á húsið eftirá. Fyrir liggur yfirlýsing húsbyggjanda um að hann taki á sig kostnað af því að færa húsið til þess horfs sem það ætti að vera samkvæmt upprunnalegu byggingarleyfi, verði umsókn um byggingu efri hæðar hafnað.
Skipulagsnefnd getur ekki fallist á að unnið sé eftir ósamþykktum teikningum, en telur að sú heimild sem gildandi byggingarleyfi byggist á leyfi að húsinu verði breytt þannig að svalir verði settar á það. Umsækjanda er því bent á að breyta hönnun hússins að þessu leiti og sækja um byggingarleyfi til byggingarnefndar. Unnið er að breytingu á aðalskipulagi og gerð deiliskipulags vegna fyrirliggjandi umsókna frá húsbyggjanda þar sem gert er ráð fyrir að lóðin verði svæði fyrir verslun og þjónustu og gert ráð fyrir auknu byggingarmagni, sbr. afgreiðslu í lið 5 í þessari fundargerð.

5.  1106009 - Breyting á aðalskipulagi í Halllandsnesi
Lögð er til breyting á aðalskipulagi vegna lóðar nr. 193029 að Halllandsnesi, sem er á skilgreindu landbúnaðarsvæði L2. Breytingin felur í sér að landnotkun lóðarinnar er breytt í verslunar og þjónustusvæði.
Skipulagsnefnd fellst á framlögð drög að breytingu á aðalskipulagi í Halllandsnesi og mælist til að sveitarstjóra verði falið að sjá til þess að gengið verði frá endanlegum gögnum og auglýsa tillöguna.

6.  1107005 - Umsókn um byggingarleyfi vegna byggingar geymsluskúrs að Vaðlaborgum 16
Steinar Sigurðsson, fyrir hönd Múlan ehf, hefur lagt inn umsókn um byggingarleyfi fyrir geymsluskúr að Vaðlaborgum 16, sbr. meðfylgjandi teikningar. í skipulagsskilmálum er ekki gert ráð fyrir skúr á þessum stað.
Skipulagsnefnd samþykkir fyrir sitt leiti að byggingarleyfið verði veitt. Þar Þar sem um svo óverulegt frávik frá deiliskipulagi er að ræða að hagsmunir nágranna skerðast í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, ákveður skipulagsnefnd að falla frá ákvæðum 2. mgr. 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2011 með tilvísun til 3. mgr. sömu greinar. Nefndin leggur meðal annars til grundvallar að geymsluskúr sá sem um ræðir er hannaður í góðu samræmi við einsleitt yfirbragð Vaðlaborga og verður byggður úr sömu eða svipuðum byggingarefnum.

7.  1107003 - Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna Vaðlaheiðarganga
Borist hefur erindi frá Vegagerðinni, fyrir hönd Vaðlaheiðarganga hf., dagsett 4. júlí 2011 þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi vegna gerðar Vaðlaheiðarganga. Jafnframt hefur borist erindi frá landeigendum í Halllandi þar sem þess er farið á leit að framkvæmdaleyfi verði ekki gefið út fyrr en samningar hafa náðst milli framkvæmdaaðila og landeigenda um greiðslur fyrir land og afnot af landi, eða leyfið bundið skilyrðum þar að lútandi.
Farið yfir umsókn Vegagerðarinnar fyrir hönd Vaðlaheiðarganga hf. og innsendar teikningar. Á teikningunum kemur ekki fram hvar fyrirhugað er að haugsetja efni, hversu mikið magn haugsett er á hverjum tíma, né heldur hversu lengi búast má við að efnið sé haugsett. Hið sama gildir um staðsetningu vinnubúða. Skipulagsnefnd felur sveitarstjóra að afla upplýsinga um þessi atriði. Nefndin óskar jafnframt eftir upplýsingum um stöðu mála gagnvart landeigendum og um ferli eignarnáms. Afgreiðslu frestað til næsta fundar, sem haldinn verður mánudaginn 11. júlí.

8.  1105032 - Umsókn um leyfi fyrir plastdúkahúsi við vinnsluhús Kjarnafæðis
Í bréfi dags. 24. maí 2011 óskar Ólafur R. Ólafsson fh. Kjarnafæðis eftir stöðuleyfi fyrir geymsluhúsnæði (plastdúkahús). Stærð húss yrði 10m x 15m x 3m. Málið var kynnt nefndarmönnum á 6. fundi skipulagsnefndar en afgreiðslu frestað til næsta fundar.
Skipulagsnefnd ítrekar óskir sínar um að fá upplýsingar um hvað gert verði við þá gáma sem nú standa þar sem fyrirhugað er að staðsetja dúkaskemmuna. Afgreiðslu frestað til næsta fundar sem haldinn verður 11. júlí 2011.

Ákveðið að nefndin komi aftur saman til fundar þann 11. júlí kl. 17. Fundurinn hefst á vettvangsferð að Vaðlabrekku 5.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 21:15


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is