Skipulagsnefnd

Skipulagsnefnd, 8. fundur 11.07.2011

Skipulagsnefnd

Fundargerð
8. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, mánudaginn 11. júlí 2011 kl. 17:00.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal, Stefán Sveinbjörnsson, Stefán H. Björgvinsson og Jón Hrói Finnsson.

Fundargerð ritaði: Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri.

Fundurinn hófst á vettvangsferð um nokkra þeirra staða sem eru til umfjöllunar á fundinum.

Dagskrá:

1.  1107014 - Ósk um staðfestingu á túlkun á deiliskipulagsskilmálum fyrir Vaðlabrekku.
Í tölvupósti dagsettum 6. júlí óskar Helgi Vignir Bragason, byggingarfræðingur eftir staðfestingu á túlkun á skilmálum deiliskipulags Vaðlabrekku vegna vegg og þakhæðar húss sem rísa á á lóðinni við Vaðlabrekku 5. Þar stendur: "Mesta leyfilega vegghæð nýbygginga er 3.0 metrar mælt frá austurhlið húss og mesta leyfilega þakhæð er 6.0 metrar". Helgi telur að í báðum tilvikum sé átt við mælingu frá austurhlið húss og því sé í lagi að útfæra húsið eins og sýnt er á meðfylgjandi teikningum, þ.e. með kjallara og einhalla þaki sem lyftist til vesturs.
Skipulagsnefnd lýsir sig sammála túlkun Helga Vignis á skipulagsskilmálum, þ.e. að átt sé við hæð miðað við gólfplötu aðalhæðar  eða austurhlið hússins.

2.  1107012 - Ósk um tilfærslu byggingarreits á lóð nr. 34 í Kotabyggð.
Í bréfi dagsettu 5. júlí 2011 óskar Haukur Halldórsson eftir að byggingarreitur á lóð nr. 34 í Kotabyggð verði færður eins austarlega í lóðina og nálægt lóðarmörkum við lóð nr. 25 og hægt er.
Skipulagsnefnd hafnar erindinu. Þar sem deiliskipulag svæðisins er í endurskoðun telur nefndin rétt að ákvörðun um tilfærslu byggingarreitsins verði tekin í samhengi og samræmi við aðrar breytingar á deiliskipulaginu.

3.  1107010 - Þróunaráætlun Kotabyggðar.
Í bréfi dagsettu 5. júlí 2011, óskar Haukur Halldórsson, fyrir hönd Veigastaða ehf. eftir umsögn Skipulagsnefndar um hugmyndir um breytingar á deiliskipulagi Kotabyggðar, þar sem gert er ráð fyrir að lóðir 5, 6 og 34-48 verði skilgreindar sem íbúðarlóðir.
Þróun Kotabyggðar úr frístundabyggð í áföngum er í samræmi við yfirlýsta stefnu sveitarstórnar í aðalskipulagi. Núverandi vegakerfi í hverfinu er óviðunandi fyrir fasta búsetu og því þarf að huga sérstaklega að aðkomu að íbúðarhúsum í hönnun þess. Æskilegt er að við skiptingu í áfanga verði horft til samhengis byggðar og hagkvæmni við uppbyggingu grunngerðar. Skipulagsnefnd telur hagkvæmast að skilgreindar verði lóðir austast í hverfinu, næst Veigastaðavegi, gegn því að hámarkshraði lækki í 50 km á klst. Á móti verði óbyggðar lóðir á stöðum þar sem aðkoma yrði erfið felldar út, t.d. lóðir 27 og 31-33, enda er mælt fyrir um í aðalskipulagi að lóðafjöldi verði að hámarki sá sami og áður eftir breytinguna. Skipulagsnefnd vekur athygli á að ný skipulagslög hafa í för með sér breytingar á vinnulagi við gerð skipulags á landi í einkaeigu, sbr. 38. grein laganna. Sveitarstjóra falið að funda með fulltrúum Veigastaða ehf. um verkefnaskiptingu og greiðslu kostnaðar við gerð skipulags. Sveitarstjóra er jafnframt falið að kanna skyldur sveitarfélagsins varðandi gerð deiliskipulags og uppbyggingu grunngerðar í kjölfar breytingar í íbúðarbyggð.

4.  1107003 - Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna Vaðlaheiðarganga.
Borist hefur erindi frá Vegagerðinni, fyrir hönd Vaðlaheiðarganga hf., dagsett 4. júlí 2011 þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi vegna gerðar Vaðlaheiðarganga.
Málið var áður á dagskrá á 7. fundi nefndarinnar þann 7, júlí s.l. Farið var yfir þær upplýsingar sem borist hafa frá síðasta fundi varðandi haugsetningu efnis, staðsetningu vinnubúða og stöðu mála gagnvart landeigendum.  Nefndin óskar eftir frekari upplýsingum um frárennsli frá settjörnum, þar sem staðsetning þeirra skv. uppdrætti virðist óheppileg m.t.t. frárennslis. Sveitarstjóra falið að gera drög að framkvæmdaleyfi samkvæmt umræðum á fundinum.

5.  1105032 - Umsókn um leyfi fyrir plastdúkahúsi við vinnsluhús Kjarnafæðis.
Í bréfi dags. 24. maí 2011 óskar Ólafur R. Ólafsson fh. Kjarnafæðis eftir stöðuleyfi fyrir geymsluhúsnæði (plastdúkahús). Stærð húss yrði 10m x 15m x 3m. Málið var kynnt nefndarmönnum á 6. fundi skipulagsnefndar en afgreiðslu frestað til næsta fundar. Þar sem um beðnar upplýsingar lágu ekki fyrir á 7. fundi var afgreiðslu málsins aftur frestað til 8. fundar.
Skipulagsnefnd hafnar erindinu. Nefnin hefur komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að veita tímabundið stöðuleyfi fyrir skemmu af því tagi sem um er að ræða sbr. 71 gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem skilgreint er hverju má veita tímabundið stöðuleyfi fyrir (gámar, hjólhýsi, bátar og torgsöluhús). Nefndin telur lagalegar heimildir sveitarstjórna til að krefjast þess að hús sem byggt er á sömu forsendum og varanlegar byggingar verði fjarlægð séu ekki fyrir hendi.

6.  1106022 - Framkvæmdir í landi Tungu.
Í bréfi dagsettu 15. júní lýsa íbúar í Túnsbergi áhyggjum af því að til standi að útbúa geymslusvæði á hlaðinu í Tungu. Búið er að keyra perlumöl í planið. Eigandi Tungujarðarinnar segir að hann hafi einungis látið laga hlaðið og nánasta nágrenni þess til að bæta eigin aðstöðu.
Nefndin fór í vettvangsferð að Tungu og skoðaði aðstæður. Það sem þar er búið að gera, þ.e. grófjöfnun á hlaði, og fyrirætlanir um að setja fínefni yfir, getur ekki talist brjóta gegn skipulagi eða grenndarrétti nágranna. Nefndin telur þó ástæðu til að koma því á framfæri við landeiganda að notkun svæðisins til annarar starfsemi en eðlileg getur talist á lögbýli krefst leyfis sveitarstjórnar og breytingar á skipulagi.

7.  1107027 - Umsókn um leyfi til byggingar svefnskála í Silfurtunglinu í landi Halllands.
Haraldur E. Jónsson, fyrir hönd eigenda Silfurtunglsins í landi Halllands, óskar eftir byggingarleyfi fyrir 6 fm svefnskála á landareigninni skv. meðfylgjandi afstöðumynd.
Skipulagsnefnd samþykkir erindið fyrir sitt leiti. Ekkert deiliskipulag er fyrir hendi á svæðinu. Nefndin telur að ekki þurfi að fara fram grenndarkynning skv. niðurlagi 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem framkvæmdin varðar augljóslega ekki hagsmuni annarra en umsækjanda.  

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 23:15.


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is