Sveitarstjórn 2010-2014

Sveitarsjtórn, 62. fundur 11.03.2014

Sveitarstjórn 2010-2014

Fundargerð

62. fundur sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, þriðjudaginn 11. mars 2014 kl. 13:30.

Fundinn sátu: Guðmundur Bjarnason oddviti, Helga Kvam varaoddviti, Anna Fr. Blöndal ritari, Eiríkur H. Hauksson aðalmaður, Stefán H. Björgvinsson aðalmaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði:  Anna Fr. Blöndal, ritari skipulagsnefndar.

Dagskrá:

1.  1401008 - Ósk um styrk til nýsköpunar
Áður á dagskrá 61. fundar sveitarstjórnar þann 11. febrúar 2014.
Eftir skoðun á möguleikum sveitarfélagsins til að styðja við nýsköpun HD hljóðkerfaleigu ehf. á sviði hátalarasmíði er það niðurstaða sveitarstjóra að vænlegasta leiðin væri að kaupa hlutafé í fyrirtækinu.
Samþykkt að kaupa hlutafé í HD Hljóðkerfaleigu fyrir kr 550.000- með þeim skilyrðum að Hljóðkerfaleigan eða aðrir hluthafar kaupi hlutabréfin til baka innan þriggja ára gangi áætlanir eftir.
Útgjöldunum skal mætt með lækkun á eigin fé um kr. 550.000,-.

2.  1403005 - Boð í kynnisferð um Kjarnafæði
Í samtali við sveitarstjóra þann 6. febrúar 2014 bauð Eiður Gunnlaugsson, forstjóri Kjarnafæðis ehf. Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps í kynnisferð um húsakynni fyrirtækisins, í tilefni af því að öll starfsemi fyrirtækisins hefur verið flutt á Svalbarðseyri. Finna þarf hentugan tíma fyrir heimsóknina.
Ákveðið að óska eftir að kynnisferðin verði þriðjudaginn 18 mars.

3.  1209016 - Breytingar á húsnæði Svalbarðsstrandarhrepps
Sveitarstjóri fer yfir breytingar sem orðið hafa á verkinu frá því að það hófst.
Sveitarstjóri upplýsti að við frárif kom í ljós að ástand nokkurra glugga í húsinu er verra en talið var. Sveitarstjórn samþykkir að láta endurnýja fleiri glugga en boðnir voru út í samræmi við tillögur frá arkitekt. Sveitarstjóra er falið að semja við verktakann um verkefnið í samráði við arkitektinn.

4.  1403006 - Stjórnsýsluendurskoðun 2014
Lokaskýrsla vegna stjórnsýsluendurskoðunar 2014 unnin af KPMG.
Lögð fram til kynningar. Ábendingar um það sem betur mætti fara eru settar fram í skýrslunni. Sveitarstjórn mun halda vinnufund og legga drög að siðareglum þeim fram á næsta reglulegum fundi sveitarstjórnar. Unnið er að nýrri samþykkt um stjórn, stjórnsýslu og fundarsköp skv. 9. gr. Sveitarstjórnarlaga nr.138/2011. 

5.  1403003 - Athugasemdir við álagningu fasteignagjalda 2014
Farið yfir fram komnar athugasemdir við álögð fasteignagjöld.
Farið var yfir athugasemdirnar og þær afgreiddar. 
Kjartan Lárusson gerir athugasemdir við álagningu sorpgjalds á eignina Helgafell (fnr. 225-7212).
Húsið er skráð sem „Einbýli“ í fasteignaskrá en sorphirðuþjónusta hefur ekki verið nýtt þar sem ekki er föst búseta í húsinu. Sveitarstjórn sér sér ekki fært að verða við erindinu þar sem húsið er skráð einbýlishús í fasteignaskrá.
Hannes Garðarsson, kt. 010762-5379, eigandi Kotabyggðar 9 (Heiðarkots) gerir athugasemd við álagningu sorpgjalds.
Á lóðinni standa tvö hús sem skráð eru sem sumarhús (51m2) og sumarbústaður (16m2). Sorpgjald frístundahúss er lagt á hvort hús fyrir sig. Hannes óskar eftir að annað sorpgjaldið verði fellt niður. Sveitarstjórn samþykkir að fella niður annað gjaldið en fer fram á að skráningu verði breytt í gjaldaskrá.
Birgir Stefánsson gerir athugasemdir við álagningu rotþróargjalds á „aðstöðuhús“ á lóðinni Heiðarbyggð 16, Geldingsá, fnr. 232-1443. Hann segir húsið tengt sameiginlegri rotþró en í álagningunni er gert ráð fyrir sérstakri þró við húsið. Sveitarstjórn fellst á að álagningin verði leiðrétt.
Heiðrún Guðmundsdóttir óskar eftir tímabundinni niðurfellingu þjónustugjalda vegna sumarbústaðar í landi Halllands (fastanr. 216-0221) sem stendur nálægt gangnamunna Vaðlaheiðarganga, á þeirri forsendu að bústaðurinn sé ónothæfur á meðan á framkvæmdum við göngin stendur vegna rykmengunar, hávaða og annars ónæðis. Afgreiðslu frestað og sveitarstjóra falið að ræða við framkvæmdaraðilan sem ónæðinu veldur.

6.  1302021 - Endurnýjun fjallsgirðingar
Lögð fram drög að erindi sveitarstjórnar til Vegagerðarinnar þar sem óskað er formlega eftir samningi um friðun lands neðan fjallsgirðingar og flutning á skyldum Vegagerðarinnar til uppsetningu og viðhalds girðinga til varnar þjóðvegum sbr. 3. mgr. 52. greinar Vegalaga nr. 80/2007.
Guðmundur Bjarnason gerði grein fyrir stöðu mála. Sveitarstjórn samþykkir drög að bréfi til Vegagerðarinnar sem lá fyrir fundinum.

7.  1105027 - Hjólreiðastígur meðfram þjóðvegi 1
Lögð fram drög að erindi sveitarstjórnar til Vegagerðarinnar þar sem óskað er eftir samstarfi um uppbyggingu göngu- og hjólreiðastígs meðfram þjóðvegi 1 í Svalbarðsstrandarhreppi.
Sveitarstjórn samþykkir drög að bréfi til Vegagerðarinnar varðandi ósk um kostnaðarþátttöku í hjólreiða og göngustíg meðfram þjóðvegi 1. Sveitarstjóra falið að senda erindið.

8.  1304017 - Ráðning sameiginlegs skipulagsfulltrúa sveitarfélaga við Eyjafjörð
Í tölvupósti frá 7. mars 2014 tilkynnir Guðmundur Sigvaldaso, fyrir hönd sveitarstjórnar Hörgársveitar, um samþykkt hennar frá 15. janúar 2014. Samþykktin var svohljóðandi: „Sveitarstjórn telur mikilvægt að stofnsett verði embætti skipulagsfulltrúa fyrir sveitarfélagið og hvetur aðildarsveitarfélög byggingafulltrúaembættis Eyjafjarðarsvæðis til að sameinast um það“
Með vísan til þessarar samþykktar óskar Guðmundur eftir að haldinn verði fundur miðvikudaginn 2. apríl nk. þar sem fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að byggingarfulltrúaembætti Eyjafjarðarsvæðis ræði möguleika á samvinnu þeirra um rekstur skipulagsfultrúaembættis og e.t.v. hugsanlega útfærslu á slíkum rekstri.
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps samþykkir að taka þátt í slíkum fundi og ítrekar vilja sinn varðandi sameiginlegt embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélaganna á svæðinu.

9.  1403008 - Aðalfundur Gásakaupstaðar ses. 2014
Í bréfi frá 6. mars 2014 boðar Haraldur Þór Egilsson, fyrir hönd stjórnar, til aðalfundar Gásakaupstaðar ses þann 27. mars 2014.
Lagt fram til kynningar. Sveitarstjóra falið að sækja fundinn fyrir hönd Svalbarðsstrandarhrepps.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:45.


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is