Sveitarstjórn 2010-2014

Sveitarstjórn, 39. fundur 13.11.2012

Sveitarstjórn 2010-2014

Fundargerð

39. fundur sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, þriðjudaginn 13. nóvember 2012 kl. 13:30.
Fundinn sátu: Guðmundur Bjarnason oddviti, Helga Kvam varaoddviti, Eiríkur H. Hauksson aðalmaður, Sandra Einarsdóttir aðalmaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.
Fundargerð ritaði:  Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri.
Anna Fr. Blöndal boðaði forföll. Vegna misskilnings við boðun varamanns var ekki staðgengill fyrir hana á fundinum.

Dagskrá:

1.     1211015 - Snjómokstur í Vaðlabyggð og nágrenni
    Fulltrúar Hálandafélagsins í Vaðlabyggð, Elías Hákonarson og Anna María Jóhannsdóttir, mættu á fund sveitarstjórnar til að ræða fyrirkomulag snjómoksturs á Veigastaðavegi og Vaðlaheiðarvegi að Hrafnabjörgum.
    Þau lýstu megnri óánægju með það sem þau telja vera mismunun gagnvart íbúum svæðisins. Nefndu þau sérstaklega Vaðlaheiðarveg sem ekki er mokaður. Einnig fjölluðu þau um að tíðni moksturs væri ófullnægjandi á Veigastaðavegi. Þau krefjast þess að þjónustan verði bætt.
Sveitarstjórn ítrekar vilja sinn til að láta moka Veigastaðaveg oftar og betur en nú er gert. Sveitarstjóra falið að leita lausna með Vegagerðinni, kanna kostnað af mokstri á Vaðlaheiðarvegi að Hrafnabjörgum og hvort svipaðar aðstæður eru í nágrannasveitarfélögunum.
         
2.     1209018 - Fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps 2013
    Drög að fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps lögð fram til umræðu.
    Farið var yfir fyrirliggjandi drög. Ákveðið að halda vinnufund um fjárhagsáætlun á milli umræðna þar sem farið verður yfir upplýsingar um álagning gjalda o.fl.
         
3.     1211012 - Samþykkt fyrir Héraðsskjalasafnið á Akureyri
    Héraðsskjalavörður óskar eftir að sveitarstjórn taki afstöðu til samþykktar um Héraðsskjalasafnið á Akureyri sem samþykkt var í stjórn Akureyrarstofu þann 10. maí 2012.
    Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við samþykktina og samþykkir hana fyrir sitt leyti.
         
4.     1211005 - Erindi varðandi dýrbít
    Í tölvupósti frá 8. nóvember 2012 fara Páll Heiðar Hartmannsson og Ársæll Kristjánsson, með tilvísun til þess að hundur lagðist á fé aðfararnótt 6. nóvember í Mógili og Ásgarði, fram á að sveitarstjórn geri ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Jafnframt lýsa þeir áhyggjum sínum af því að algengt sé að hundaeigendur frá Akureyri sleppi hundum sínum lausum í Vaðlaheiði á sumrin.
    Sveitarstjórn telur að mál eins og það sem kom upp aðfararnótt 6. nóvember sé lögreglumál og að hvorki hún né starfsmenn hennar hafi boðvald til að aðhafast í slíkum málum. Sveitarstjórn bendir því bréfriturum á að kæra málið til lögreglu.
Að því marki sem atburðir umræddrar nætur snúa að samþykktum sveitarfélagsins um hundahald mun sveitarstjórn beita þeim úrræðum sem hún hefur. Jafnframt munu samþykktir sveitarfélagsins verða endurskoðaðar sbr. næsta lið í fundargerðinni.
         
5.     1211014 - Samþykkt um hunda- og kattahald í Svalbarðsstrandarhreppi
    Rætt um samþykktir sveitarfélagsins um hunda- og kattahald.
    Sveitarstjórn samþykkir að endurskoða reglur um hunda- og kattahald í sveitarfélaginu. Sveitarstjóra falið að gera tillögu að breyttri samþykkt í samræmi við umræður á fundinum.
         
6.     1211004 - Umsjón AFE með minnkaveiðiátaki sveitarfélaga við Eyjafjörð
    Í bréfi frá 29. október 2012 óskar Elín Aradóttir, fyrir hönd Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, eftir afstöðu sveitarstjórnar til valkosta varðandi fyrirkomulag utanumhalds um minnkaveiðiátak Svalbarðsstrandarhrepps, Grýtubakkahrepps, Dalvíkurbyggðar, Hörgársveitar og Eyjafjarðarsveitar. Svar óskast fyrir 20. nóvember n.k.
    Sveitarstjórn telur að sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaganna við Eyjafjörð sé best borgið með samvinnu um áframhald minnkaveiðiátaksins. Sveitarstjórn telur þó ekki að þær forsendur sem kynntar eru í erindi AFE séu ásættanlegar. Sveitarstjórn óskar eftir að haldinn verði fundur um framhald minnkaveiðiátaksins með þátttöku fulltrúa allra sveitarfélaga við Eyjafjörð, auk fulltrúa AFE.
         
7.     1211019 - Grenndarkynning framkvæmda við stíga á Svalbarðseyri
    Skilafrestur fyrir athugasemdir í grenndarkynningu vegna stígagerðar á milli Laugartúns og Smáratúns á Svalbarðseyri er liðinn. Athugasemdir bárust frá eigendum Laugartúns 19c, ásamt tillögum að breytingum á fyrirhugaðri framkvæmd.
    Farið var yfir athugasemdir og ábendingar settar fram í bréfi frá Anja Müller og Helga Viðari Tryggvasyni dagsettu 28. október 2012.
Sveitarstjórn telur að neikvæð áhrif stíganna á umhverfi sitt verði í lágmarki. Sveitarstjórn deilir því ekki áhyggjum bréfritara. Breidd stígsins um Elsubrekku tekur mið af því að auðvelt sé að moka hann á veturna og því er ekki æskilegt að hann verði mjókkaður. Sveitarstjórn mælist til þess að gerðar verði ráðstafanir til að halda tré því sem nefnt er í bréfinu ef þess er kostur. Jafnframt tekur sveitarstjórn fram að ekki er fyrirhugað að heimila akstur á umræddum stígum nema vegna neyðarflutninga og flutninga að og frá Smáratúni 16a og 16b. Sett verða skilti til að árétta þetta. Verði akstur um stígana meiri en fyrirhugað er, verða gerðar frekari ráðstafanir til að hindra slíkt.
Sveitarstjórn samþykkir því framkvæmdaleyfi fyrir umræddri framkvæmd.
         
8.     1209030 - Stígagerð á Svalbarðseyri 2012-13
    Leitað hefur verið eftir áætlun kostnaðar við smíði á göngubrú yfir Valsá frá tveimur aðilum.
    Sveitarstjórn óskar eftir að leitað verði eftir fleiri tilboðum í brúarsmíði og að flutningskostnaður verði kannaður.
         

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:00.


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is