Sveitarstjórn 2010-2014

Sveitarstjórn, 47, fundur 14. maí 2013

Sveitarstjórn 2010-2014

Fundargerð
47. fundur sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, þriðjudaginn 14. maí 2013 kl. 13:30.

Fundinn sátu: Guðmundur Bjarnason oddviti, Helga Kvam varaoddviti, Anna Fr. Blöndal ritari, Eiríkur H. Hauksson aðalmaður, Stefán H. Björgvinsson 1. varamaður, Sigurður Halldórsson 2. varamaður, Jakob Björnsson 3. varamaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði:  Anna Fr. Blöndal, ritari sveitarstjórnar.

Í upphafi fundar var samþykkt að taka á dagskrá mál nr. 1302026, 1212021, 1305008, 1106007 og 1305009. Sigurður Halldórsson sat fundinn undir liðum 1-3 í fundargerð. Jakob Björnsson sat fundinn undir liðum 1 og 2.

Dagskrá:

1.  1302026 - Erindi varðandi túlkun Aðalskipulags Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020
Svalbarðsstrandarhreppi hefur borist afrit af svari Umhverfis- og auðlindaráðuneytis við erindi Pacta lögmanna fyrir hönd Jónasar Halldórs Jónassonar, Jónasar Halldórssonar og Sveitahótelsins ehf. varðandi starfsemi og framkvæmdir við alífuglabú Græneggs ehf. í Sveinbjarnargerði.
Tekið á dagskrá með samþykki fundarmanna. Eiríkur H. Hauksson og Anna Fr. Blöndal viku af fundi undir þessum lið. Sigurður Halldórsson og Jakob Björnsson tóku sæti þeirra. Lagt fram til kynningar.

2.  1212021 - Erindi varðandi Aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020
Áður á dagskrá 42. fundar sveitarstjórnar þann 12. febrúar 2013.
Lögð fram drög að svari við erindi Pacta lögmanna fyrir hönd Jónasar H. Jónassonar, Jónasar Halldórssonar og Sveitahótelsins ehf. þar sem farið er fram á stöðvun á starfsemi Græneggs ehf. í Sveinbjarnargerði á grundvelli meintra brota gegn ákvæðum Aðalskipulags Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020.
Tekið á dagskrá með samþykki fundarmanna. Eiríkur H. Hauksson og Anna Fr. Blöndal viku af fundi undir þessum lið. Sigurður Halldórsson og Jakob Björnsson tóku sæti þeirra.
Farið yfir drög að svarbréfi og þau samþykkt. Í því er ósk um stöðvun á starfsemi hafnað.

3.  1106007 - Deiliskipulag Eyrarinnar á Svalbarðseyri
Áður á dagskrá 46. fundar sveitarstjórnar þann 30. apríl 2013.
Lögð fram uppfærð tillaga að deiliskipulagi Eyrarinnar á Svalbarðseyri sbr. bókun sveitarstjórnar á 45. fundi, ásamt breytingarblaði vegna nauðsynlegra breytinga á aðalskipulagi til samræmingar.
Tekið á dagskrá með samþykki fundarmanna. Guðmundur Bjarnason vék af fundi undir þessum lið og Sigurður Halldórsson tók sæti í hans stað. Farið var yfir fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi og tillögu að breytingu á aðalskipulagi til samræmis. Sveitarstjórn samþykkir tillögurnar til auglýsingar.

4.  1304005 - Ársreikningur Svalbarðsstrandarhrepps 2012
Ársreikningur Svalbarðsstrandarhrepps 2012 lagður fram til síðari umræðu.
Rekstrarniðurstaða samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var jákvæð um 30,9 mkr og eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 551,7 mkr. samkvæmt efnahagsreikningi. Þar af er handbært fé í árslok um 231 mkr. Langtímaskuldir sveitarfélagsins eru um 13 mkr.
Eiginfjárhlutfall 93,4% og veltufjárhlutfall er 15,1%.
Sveitarstjórn samþykkir framlagðan ársreikning.

5.  1205010 - Íbúakosning um sveitarfélagsmerki
Niðurstaða atkvæðagreiðslu um sveitarfélagsmerki.
Tillaga B fékk afgerandi flest atkvæði og eða 87, sú tillaga sem kom næst var tillaga E með 46 atkvæði, aðrar tillögur fengu færri atkvæði. Atkvæði greiddu 183. Sveitarstjórn þakkar íbúum sveitarfélagsins góða þátttöku.

6.  1304006 - Framkvæmdir og fjárfestingar 2013
Sveitarstjóri fór yfir stöðu mála.
Samþykkt að kaupa göngubrú yfir Valsána frá Límtré / Vírneti á Flúðum. Einnig samþykkt að óska eftir heldur sterkara efni í brúardekkið en gert er ráð fyrir í tilboði þeirra. Sveitarstjóra falið að leita upplýsinga um festingar og frágang fyrir brúna og fá verktaka í framkvæmdina þannig að sá frágangur verði búin þegar brúin er tilbúin til afhendingar.
Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála varðandi kaup á sendibíl fyrir vinnuskóla, flutninga o.fl. fyrir sveitarfélagið. Verið er að skoða Toyota Hiace og sveitarsjóra falið að láta setja bílinn í söluskoðun áður en gengið er frá kaupunum.
Verið er að skoða í samráði við RARIK að sökkva strengjum dýpra þegar gengið verður frá stíg við Laugatún/Smáratún.
Sveitarstjóri gerði einnig grein fyrir stöðu mála varðandi hönnun bílastæða og snúningshausa í Laugatúni / Smáratúni og einnig varðandi hönnun fyrir skrifstofur sveitarfélagsins. Ákveðið að láta meta ástand glugganna í íbúðinni.
Sveitarstjóra er falið að skoða lykla- og aðgangsmál fyrir fasteignir sveitarfélagsins.
Rætt um fjallgirðinguna og hugsanlega samninga við Vegagerðina.

7.  1305004 - Ársfundur AFE 2013
Í tölvupósti frá 10. maí 2013 boðar Elva Gunnlaugsdóttir, fyrir hönd stjórnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, til ársfundar félagsins, sem haldinn verður í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík þann 15. maí 2013 kl. 13.30. Yfirskrift fundarins er "Sameining sveitarfélaga í Eyjafirði: Hverju gæti aukin samvinna / sameining breytt?"
Kynnt. Eiríkur H. Hauksson er fulltrúi Svalbarðsstrandarhrepps á aðalfundi AFE.

8.  1304018 - Ósk um styrk fyrir blakliðið Bjarkir
Í bréfi frá 17. apríl 2013 óskar Elísabet Ásgrímsdóttir, fyrir hönd blakliðsins Bjarka, eftir styrk vegna þátttöku í blakmótum og reksturs liðsins.
Sveitarstjórn samþykkir að styrkja félagið um kr. 20.000,- upp í mótsgjaldið en bendir jafnframt á að almennur styrkur til íþróttaiðkunar frá sveitarfélaginu er að leggja félögum til húsnæði til æfinga án endurgjalds.

9.  1305005 - Samningur um söfnun brotajárns og hjólbarða
Í tölvupósti frá 7. maí 2013 vekur Ágústa Þóra Jónsdóttir, fyrir hönd Hringrásar ehf. athygli á samningi sem í gildi er á milli Flokkunar Eyjafjörður ehf. og Hringrásar varðandi söfnun brotamálma og hjólbarða á starfssvæði Flokkunar Eyjafjörður ehf.
Rætt um samninginn. Sveitarstjóra falið að ræða við Hringrás.

10.  1305006 - Tilboð í flutning bókhaldskerfis í kerfisleigu
Óskað hefur verið eftir tilboði í flutning og vistun bókhaldskerfis sveitarfélagsins í kerfisleigu. Kostir þess að reka kerfið í kerfisleigu eru aukið rekstraröryggi, samhæfing við launakerfi, og bætt afritunartaka.Tilboð hefur borist frá þjónustuaðila.
Sveitarstjórn samþykkir tilboðið og felur sveitarstjóra að ganga til samninga við Hýsingu.

11.  1305008 - Beiðni um umsögn um heimagistingu í Kotabyggð 37
Í tölvupósti frá 8. maí 2013 óskar Sigurður Eiríksson, fyrir hönd Sýslumannsins á Akureyri, eftir umsögn sveitarstjórnar um umsókn Jórunnar Viggósdóttur um rekstrarleyfi fyrir heimagistingu í gististaðaflokki II í Kotabyggð 37 í Svalbarðsstrandarhreppi undir nafninu 37.
Málið tekið á dagskrá með samþykki fundarmanna. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við veitingu leyfisins.

12. 1305009 - Fundargerð 87. fundar Byggingarnefndar Eyjafjarðar
Fundargerð 87. fundar Byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 7. maí 2013.
Kynnt.
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:30.


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is