Sveitarstjórn 2010-2014

Sveitarstjórn, 54. fundur 17. september 2013

Sveitarstjórn 2010-2014

Fundargerð

54. fundur sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, þriðjudaginn 17. september 2013 kl. 14:00.

Fundinn sátu: Guðmundur Bjarnason oddviti, Helga Kvam varaoddviti, Eiríkur H. Hauksson aðalmaður, Stefán H. Björgvinsson aðalmaður, Sigurður Halldórsson 1. varamaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði:  Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1. 1304006 - Framkvæmdir og fjárfestingar 2013

Lagðar voru fram uppfærðar teikningar af skrifstofum og hönnun á umhverfisfrágangi við bílastæði í Laugartúni og Smáratúni, ásamt kostnaðaráætlunum.

Ákveðið að fela Form ehf. að útbúa útboðsgögn vegna skrifstofu og auglýsa útboð. Miðað skal við að verklok verði eigi síðar en 1. apríl 2014.
Oddvita var falið umboð til að ræða við hagsmunaaðila og verktaka vegna framkvæmda við frágang bílastæða og gangstétta í Laugartúni og Smáratúni. Ákveðið var að mjókka ekki stíginn vestan við Laugartún 25, en loka honum með sveifluhliðum. Jafnframt var ákveðið að fjölga bílastæðum við Laugartún 21-25 eins og sýnt er á teikningu frá Landslagi.
Farið var yfir stöðu annarra verkefna. Framkvæmdir eru hafnar við stígagerð í Elsubrekku.

2. 1308016 - Fjárveiting til tölvukaupa fyrir Valsárskóla

Skólastjóri Valsárskóla óskar eftir að kaup á sjö tölvum verði færð á fjárfestingarlið fjárhagsáætlunar og eignfærðar.

Sveitarstjórn samþykkir ósk skólastjóra.

3. 1308017 - Tilboð í uppfærslu vefumsjónarkerfis

Stefna ehf. hefur gert tilboð í uppfærslu vefumsjónarkerfis, ásamt útlitshönnun. Bent skal á að eyðublaðakerfi og snjalltækjaviðmót eru valkvæð.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tilboð og felur sveitarstjóra að ganga til samninga við Stefnu ehf. Kostnaði skal mætt með lækkun á eigin fé sveitarfélagsins. Bókun þessi skoðast sem viðauki við fjárhagsáætlun.

4. 1309006 - Tillaga að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030

Lögð fram tillaga Borgarstjórnar Reykjavíkur að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem auglýst var með athugasemdafresti til 20. september 2013. Í tillögunni er meðal annars gert ráð fyrir lokun flugvallarins í Vatnsmýri.

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps skorar á skipulagsyfirvöld höfuðborgarinnar að falla frá áformum um lokun flugbrauta á Reykjavíkurflugvelli þar sem ekki liggur fyrir hvar og hvernig veita á þá þjónustu sem núverandi flugvöllur veitir.
Sveitarstjórn mælist til þess að Borgarstjórn Reykjavíkur hafi í huga mikilvægi þess að flugsamgöngur höfuðborgarinnar verði ekki skertar með þeim hætti sem hugmyndir eru uppi um. Auk þess er mælst til þess að Ríkisvaldið, Reykjavíkurborg og landsbyggðin öll standi sameiginlega vörð um það að flugsamgöngur til höfuðborgarinnar verði síst verri hér eftir en hingað til.
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps telur að ákvörðun um framtíð flugvallarins eigi ekki að vera alfarið á ábyrgð borgarinnar heldur sameiginlegt verkefni Ríkisvaldsins, Reykjavíkurborgar, sveitarfélaga, heilbrigðisyfirvalda, flugmálayfirvalda, atvinnulífsins og etv. fleiri.
Að því borði þurfi allir aðilar, þar á meðal Reykjavíkurborg, að koma með opnum huga. Ef niðurstaða skoðunar er að ekki sé mögulegt með annari staðsetningu flugvallar að veita jafn góða, skilvirka og örugga þjónustu og veitt er í dag á Reykjavíkurflugvelli þurfi skipulagsyfirvöld borgarinnar að vera reiðubúin að falla frá áformum sem skerða möguleika til flugrekstrar í Vatnsmýri.
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps fagnar framtaki félagsins “Hjartað í Vatnsmýrinni”, sem vekur athygli á alvarleika þeirrar stöðu sem blasir við varðandi flugsamgöngur til og frá höfuðborginni.
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps skorar því á borgarstjórn að falla frá öllum áformum sem setja rekstur flugvallarins í uppnám á meðan ekki er fundinn annar staður jafngóður eða betri fyrir flugvöllinn og nýr völlur þá tilbúinn að taka við hlutverkinu. Það er alveg ljóst að tvö og hálft ár er alls ekki nægur tími jafnvel þó staðsetning lægi fyrir. Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps telur það gríðarlegt ábyrgðarleysi að eyðileggja notkunarmöguleika flugvallarins meðan svo er og sæmi ekki höfuðborg landsins.

5. 1308015 - Spennistöð við Svalbarðseyrarveg

Frágangur spennistöðvarinnar á milli Laugartúns og Svalbarðseyrarvegar er ekki eins og best verður á kosið. Íbúar í næsta nágrenni hennar verða fyrir ónæði af suði sem frá henni stafar og kvartað hefur verið undan því að óhreinindi frá óvarinni spennistöðinni komist í föt barna sem leika sér við hana.

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps óskar eftir því við Rarik ohf. að möguleikar á flutningi spennistöðvarinnar verði kannaðir og/eða gerðar verði úrbætur á frágangi stöðvarinnar til að koma í veg fyrir ónæði og slysahættu hið fyrsta.

6. 1308012 - Afskriftarbeiðnir vegna opinberra gjalda

Í bréfi frá 9. ágúst óskar Lilja Ólafsdóttir, fyrir hönd Sýslumannsins á Akureyri, eftir heimild til að afskrifa kröfur á hendur tveggja einstaklinga vegna opinberra gjalda, samtals að fjárhæð kr. 272.605,- sem eru fyrndar.

Eiríkur H. Hauksson vék af fundi undir afgreiðslu þessa liðar.
Sveitarstjórn samþykkir beiðnina.

7. 1307008 - Gjaldskrá Byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsvæðis

Áður á dagskrá 50. fundar sveitarstjórnar þann 9. júlí 2013.
Tillaga formanns stjórnar Byggingarfulltrúaembættis Eyjafjarðar og byggingarfulltrúa að gjaldskrá fyrir byggingarleyfi lögð fram til síðari umræðu. Minniháttar breytingar hafa verið gerðar á orðalagi 4. greinar.

Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána fyrir sitt leyti.

8. 1308009 - Almenningssamgöngur á vegum EyÞing

Anna Fr. Blöndal hefur óskað eftir því að staða mála varðandi almenningssamgöngur á vegum Eyþings verði kynnt sveitarstjórnarmönnum og um hana rætt.

Sveitarstjóri fór yfir svör framkvæmdastjóra Eyþings við fyrirspurnum um verkefnið. Sveitarstjórn hvetur stjórn Eyþings til veita sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga Eyþings greinargóðar upplýsingar um stöðu verkefnisins, viðræðna við ríkisvaldið og fyrirhuguð viðbrögð við þeim hallarekstri sem reynst hefur á verkefninu.

9. 1309003 - Viðhald fjallsgirðingar

Rætt um hugmyndir landeigenda í Halllandi um að hefja framkvæmdir við nýja fjallsgirðingu áður en vetur gengur í garð.

Ákveðið að oddviti og sveitarstjóri afli afstöðu allra landeigenda og að gengið verði frá samningi við Vegagerðina áður en ráðist er í framkvæmdir.

10. 1309004 - Kartöflugeymslan á Eyrinni

Guðmundur Bjarnason og Anna Sólveig Jónsdóttir, eigendur kartöflugeymslu suð-vestan Bergs á Svalbarðseyri vilja kanna hug sveitarstjórnar til þess að eignast kartöflugeymsluna, til afnota fyrir þá íbúa sem ræktað hafa nytjagarða í sumar.

Guðmundur Bjarnason vék af fundi undir þessum lið.
Sveitarstjórn samþykkir að ganga að tilboðinu og felur sveitarstjóra að ganga frá kaupunum.

11. 1308014 - Menningarstefna Alþingis

Stefna um listir og menningararf sem Alþingi samþykkti þann 6. mars 2013, að fela mennta- og menningarmálaráðherra að starfa eftir, lögð fram til kynningar.

12. 1309007 - Aðalfundur Eyþings 2013

Í bréfi frá 12. september 2013 boðar Pétur Þór Jónasson, fyrir hönd stjórnar Eyþings, til aðalfundar Eyþings 2013 í grunnskólanum á Grenivík 27.-28. september. Meðal efnis á fundinum er tillaga að breytingu á lögum Eyþings. Samkvæmt henni fjölgar stjórnarmönnum úr fimm í sjö og stofnað er fulltrúaráð þar sem sitja fulltrúar allra aðildarsveitarfélaga Eyþings.

Sveitarstjórn lýsir sig hlynnta tillögum að breytingum á lögum Eyþings.

13. 1309001F - Skipulagsnefnd - 31

Fundargerð 31. fundar Skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps þann 12. september 2013 var tekin fyrir á 54. fundi Sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps þann 17. september 2013. Sjá afgreiðslu einstakra liða.

13.1. 1306027 - Breyting á Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 vegna Eyrarinnar á Svalbarðseyri

Afgreiðsla Skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps á 31. fundi hennar þann 12. september 2013 var staðfest á 54. fundi Sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps þann 17. september 2013. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að umrædd breyting verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar og staðfestingar, skv. 2. mgr. 32. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010. 

13.2. 1106007 - Deiliskipulag Eyrarinnar á Svalbarðseyri

Guðmundur Bjarnason vék af fundi á meðan umræður um þennan lið fóru fram.
Afgreiðsla Skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps á 31. fundi hennar þann 12. september 2013 var staðfest á 54. fundi Sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps þann 17. september 2013. Sveitarstjóra falið að auglýsa afgreiðslu athugasemdar og senda Skipulagsstofnun deiliskipulagið til yfirferðar og staðfestingar sbr. 41. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010. 

13.3. 1308005 - Beiðni um umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi að Vaðlabyggð 1

Afgreiðsla Skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps á 31. fundi hennar þann 12. september 2013 var staðfest á 54. fundi Sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps þann 17. september 2013.

13.4. 1309002 - Ósk um umsögn um möguleika á gistirekstri í Vaðlabyggð 10

Stefán H. Björgvinsson vék af fundi á meðan fjallað var um þennan lið.
Afgreiðsla Skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps á 31. fundi hennar þann 12. september 2013 var staðfest á 54. fundi Sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps þann 17. september 2013.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:30.


Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is