Almennt

Umhverfisvika 26. maí til 3. júní

Almennt
Dagana 26. maí til 3. júní stendur umhverfisnefnd Svalbarðsstrandarhrepps fyrir umhverfisviku til hvatningar fyrir íbúa sveitarfélagsins við vorverkin. Íbúar og sumarhúsaeigendur eru hvattir til að nota þetta tækifæri til að taka til í sínu nánasta umhverfi. Molta og trjákurl
Boðið verður upp á moltu frá Moltu ehf. til að nota í garða. Henni verður komið fyrir á „tippnum“ á Svalbarðseyri sem notaður hefur verið fyrir losun gróðurúrgangs undanfarin ár. Moltan er afar góð til að auka næringargildi jarðvegs og hana má því nota til áburðar með góðum árangri. Ekki er þó mælt með að moltan sé notuð í matjurtagarða. Einnig stendur til að kurla runna og tré sem safnast hafa upp í vor og leyfa íbúum að nýta kurlið í garðvinnuna. Kurlið er einnig gott í heimajarðgerðina fyrir þá sem eru með jarðgerðartunnur.

Gámur og kerrur fyrir garðaúrgang
Líkt og í fyrra verður kerrum sveitarfélagsins komið fyrir í Smáratúni og Laugartúni til afnota fyrir íbúa sem þurfa að losna við garðaúrgang. Starfsmenn sveitarfélagsins munu reyna að losa kerrurnar eftir þörfum, en þegar kerra er full mega þeir sem eru með krók á bílum sínum gjarnan losa hana á „tippnum“.

Á gámasvæðinu í Kotabyggð er gámur fyrir garðaúrgang sem íbúum í suðurhluta sveitarfélagsins er bent á að nýta sér.

Söfnun brotajárns 1. júní
Í tengslum við umhverfisvikuna verður boðið upp á að brotajárn verði sótt heim á hlað hjá þeim sem þess óska þann 1. júní. Lítil prýði er af bílflökum, gömlum girðingum og fleiru járnarusli sem leynist víða um sveitina okkar og eru íbúar því hvattir til að nota þetta tækifæri til að losa sig við slíkt af landareignum sínum.
Þeir sem vilja nýta sér þessa þjónustu þurfa að sjá til þess að hægt sé að ná til brotajárnsins með vörubílskrana frá heimreið eða hlaði, en ekki er rukkað fyrir þjónustuna. Íbúar sem vilja losna við brotajárn eru beðnir að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 30. maí n.k. í síma 462 4320 eða í tölvupósti á netfangið magnus@svalbardsstrond.is.

Hreinsun svæðisins meðfram þjóðveginum 2. júní
Eins og undanfarin ár er óskað eftir þátttöku sjálfboðaliða í hreinsun svæðisins meðfram þjóðvegi 1. Safnast verður saman við Valsárskóla kl. 10 laugardaginn 2. júní og hópnum skipt í lið. Þeir sem það geta eru beðnir að koma á bíl með dráttarkrók og kerru. Þátttakendur eru hvattir til að klæða sig eftir veðri og mæta með vinnuvettlinga.
Um kl. 14 verður haldin grillveisla í Reitnum, ef veður leyfir, og haldið upp á árangur vikunnar. Boðið verður upp á pylsur og hamborgara frá Kjarnafæði. Við vonumst eftir að sjá sem flesta, bæði í hreinsunarátakinu og í grillveislunni.

Aðgerðir gegn ágengum plöntum
Undanfarin ár hefur Svalbarðsstrandarhreppur lagt íbúum til eitur til að eitra fyrir njóla. Njólinn hefur stungið sér niður víða og hefur verið í  nokkurri sókn á undanförnum árum. Þessari þróun væri æskilegt að snúa við. Hægt er að fá eitur á skrifstofu sveitarfélagsins á opnunartíma hennar.
Baráttunni við kerfilinn verður haldið áfram og er stefnt að því að eitra fyrir henni meðfram þjóðveginum og í landi sveitarfélagins í tvígang í sumar. Landeigendur eru beðnir að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins í síma 462 4320 ef þeir óska eftir að taka þátt í samstarfi um eyðinguna.
Bjarnarkló hefur einnig stungið sér niður á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu. Bjarnarkló er hættuleg planta og veldur slæmum bruna á húð, þannig að þeir sem verða hennar varir eru beðnir að stinga hana upp eða láta vita af henni svo hægt sé að uppræta hana í sveitarfélaginu áður en hún nær óviðráðanlegri útbreiðslu.

Tökum höndum saman og gerum fallega sveit enn fallegri!

Svalbarđsstrandarhreppur  |  Ráđhúsinu  |  601 Akureyri  |  S. 464-5500  |  postur@svalbardsstrond.is