Útivist og gönguleiðir

Gönguleiðir í Svalbalbarðsstrandarhreppi

 

Hrossadalur - Þórisstaðaskarð - Svalbarðseyri

Gengið er frá bílastæði efst í Víkurskarði. Fyrst er gengið að austan inn dalinn og eftir stutta göngu má sjá gamla hlaðna rétt á mel vestan megin lækjarins, þar er farið yfir og gengið að vestan eftir það. Leiðin er stikuð inn í dalnum en farið er að vanta stikur hér og þar eða þær liggja í stað þess að vera uppréttar. Innst í dalnum er gengið upp úr honum og upp í Þórisstaðaskarð, þar er gengið í vesturátt til að komast vestan megin við Gautsstaðahnjúkinn. Síðan er gengið norðan í heiðinni, í suður og niður. Hægt er að velja um nokkrar leiðir til að koma niður, hjá bæjum, gömlu Dálksstaðarréttinni eða alveg norður að gamla Vaðlaheiðarveginum og niður hann að Svalbarðseyri.

Þægileg ganga við flestra hæfi, frekar blautt framan í heiðinni.

Lengd: Rúmir 11 km að Svalbarðseyri

Hækkun: 230 m

 

Miðvíkurhnjúkur

Lagt er af stað frá malarnámu við Hrossagil efst í Víkurskarði. Gengið í suðvesturátt og yfir læk sem rennur úr Mjóadal. Þar er farið upp og áfram til suðvesturs. Þegar komið er upp mesta brattann má sjá Miðvíkurhnjúk og stefnan tekin á hann. Auðveldast að fara fyrst upp á lægri stallinn og þaðan upp á hnjúkinn sjálfan.

Þægileg ganga við flestra hæfi

Lengd: 4 km

Hækkun: 290 m

 

Raninn

Lagt er af stað frá gamalli rétt við Túnsberg og gengið upp gamlan veg sem liggur upp að gamla Vaðlaheiðarveginum.

Þægileg ganga við flestra hæfi

Lengd: 7,4 km

Hækkun: 230 m

Svalbarðseyri - fjaran

Lagt er af stað frá vitanum niður við fjöru. Þaðan er gengið í norður, norður fyrir Tungutjörn og Tjarnartún og Borgartún til baka eða sömu leið til baka meðfram fjörunni.

Mjög þægileg ganga sem hentar öllum aldri, gangandi, hjólandi og í barnavögnum/kerru

Lengd: Tæpir 3 km

 

Svalbarðseyri - hringur

Lagt af stað við flotbryggju og gengið í norður meðfram fjörunni, norður fyrir Tungutjörn og Tjarnartún til baka. Gengið suður fyrir Valsá og bátaskýli, þar er beygt upp brekkuna og inn á stíg sem liggur yfir Valsá og upp túnið upp að Valsárskóla. Gengið niður Laugartún og niður á eyri eftir göngustíg og aftur niður að flotbryggju.

Mjög þægileg ganga sem hentar öllum aldri, gangandi, hjólandi og í barnavögnum/kerru, nokkur brekka að skóla

Lengd: 3 km

Hækkun: 100 m

Mógilshringur

Lagt af stað frá vitanum og fjaran gengin alveg í norður eftir göngustíg og upp gamla afleggjarann í átt að Helgafelli. Þar er farið út af vegi og gengið neðst í túni, í átt að Dálksstöðum, framhjá sumarbústað og upp slóða upp að fjósi. Þar er gengið eftir afleggjara upp að þjóðvegi, hann genginn í suður og niður Svalbarðseyrarveg að vita.

Þægileg ganga en nokkur brekka upp Dálksstaðarafleggjara og varasamt að ganga á þjóðveginum.

Lengd: 5 km

Hækkun: 160 m

 

Mógilshringur

Lagt af stað við flotbryggju og gengið upp veg sem liggur bak við áhaldageymslu og upp að Mógili. Þaðan er þjóðvegurinn genginn í norður og svo niður Svalbarðseyrarveg og aftur niður að flotbryggju.

Þægileg ganga en nokkur brekka upp Mógilsafleggjara og varasamt að ganga á þjóðveginum.

Lengd: um 4 km

Hækkun: 160 m

Skólavarða

Lagt er af stað á túni rétt norðan við Værðarhvamm, þar er slóði upp á tún og hlið yfir rafmagnsgirðingu. Þar fyrir ofan er stikuð slóð sem liggur fyrst aðeins suður fyrir klettana og svo upp fyrir þá og í norður og síðan upp á við upp að Skólavörðu.

Þægileg leið en nokkuð brött og blaut á köflum

Lengd: Rétt rúmir 5 km

Hækkun: 490 m