Skipulagsnefnd

40. fundur 02. desember 2009

Skipulagsnefnd Svalbarðsstrandarhrepps.

 

40. fundur

 

Árið 2009, miðvikudagur 2. desember kl. 20:00 kom skipulagsnefnd saman til 40. fundar í Valsárskóla á Svalbarðseyri.

Mættir voru undirritaðir nefndarmenn: Gylfi Halldórsson, Hringur Hreinsson og Anna Fr. Blöndal. Einnig var mættur Árni K. Bjarnason, sveitarstjóri, Árni Ólafsson arkitekt og Guðmundur Bjarnason oddviti. Einnig voru mættir hagsmunaaðilar í Kotabyggð, enda fundurinn haldinn til að kynna þeim um drög að þróunaráætlun og fá þeirra viðhorf og athugasemdir. Nafnalisti fylgir fundargerð. Fundargerð ritar Anna Fr. Blöndal.

ÁrniK. Bjarnason setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

 

 

  1. Kotabyggð og Vaðlaborgir B. Stefnumörkun (drög að þróunaráætlun dags.2.des. 2009). Fundur með hagsmunaaðilum.

 

ÁrniK. Bjarnason fór yfir stöðu svæðisins nú t.d. frárennslis mál o.fl. ásamt helstu áhersluatriðum aðalskipulagsins, sem snúa að svæðinu. Hann gerði síðan grein fyrir vinnu nefndarinnar og stiklaði hann á stóru varðandi aðdraganda þessa fundar.

ÁKB fór síðan yfir drögin, grunnkort og forsendur. Árni Ólafsson arkitekt tók síðan við og fór ítarlegar yfir hluta forsenda og skipulagssögu svæðisins.

ÁKB lagði síðan til að Gylfi Halldórsson yrði fundarstjóri að lokinni kynningu á drögunum og var það samþykkt einróma.

Gylfi tók þá við fundarstjórn og gaf hann orðið laust um drögin.

Fyrstur tók til máls Leó Fossberg og spurði um hvort leigulóðarhafi á íbúðarhúsalóð gæti átt á hættu að verða sagt upp samningnum. ÁKB svaraði því til að leigusamningar v. lóða væru alfarið mál á milli landeigenda og leigutaka, en væntanlega þyrftir að endurskoða þá samninga.

Hannes Garðarsson, Kotabyggð 9, spurði um framkvæmdaskyldu og hverjar væru kröfur til íbúðarhúsa – þ.e. hvað þyrftu sumahúsaeigendur að gera til að uppfylla reglugerð. ÁKB svaraði og upplýsti að engin framkvæmdaskylda hvíldi á þeim sem nú þegar eiga frístundahús á svæðinu, það væri alfarið ákvörðun hvers og eins hvað hann gerði og hvenær. Það væri gert ráð fyrir að umbreytingin tæki einhvern tíma, jafnvel langan. ÁÓ svaraði síðan að húsin þurfa að uppfylla kröfur byggingarreglugerðar s.s. varðandi herb. stærðir o.þ.h. til að vera skráð sem íbúðarhús.

Árni Jónsson Kotabyggð 1 og 1b. Spurði hvert væri næsta skref og hvort verður opnað á að menn geti keypt lóðirnar. ÁKB svaraði að það væri samningaatriði milli lóðarhafa og landeiganda.

Leó Árnason, Vaðlaborgum, spurði hvort skyldur sveitarfélagsins hvað varðar þjónustu myndu aukast um leið og svæðið breyttist í íbúðabyggð þ.e. vegir, snjómokstur og sorphirða. Árni svaraði að þjónustan yrði sambærileg og á Svalbarðseyri varðandi sorphirðu. Önnur þjónusta s.s. snjómokstur og viðhald vega/gatna hefði sveitarfélagið ekki sé um utan þéttbýlisins á Svalbarðseyri, þetta væri á könnu íbúafélags eða sambærilegra aðila. Hann gerði ekki ráð fyrir breytingum, þar sem lóðarhafar á þessu svæði greiða ekki lóðarleigu til sveitarfélagsins.

Árni Jónsson spurði einnig hvort þetta væri ekki þróun sem skipulagsnefnd og sveitarstjórn væru áfram um aðfylgja. ÁKB benti á að í gildandi aðalskipulagi væri gert ráð fyrir að þessi breyting yrði, hún kæmi einungis fyrr og hraðar en menn óraði fyrir. ÁÓ kom inn á þetta og benti á reynslan sýndi að þetta væri þróunin þar sem frístundabyggð er nærri stóru þéttbýli.

Leó Fossberg, Veigahalli 3 spurði um hvort skylda væri að stofna hússjóð á svæðinu til að mæta t.d. kostnaði við snjómokstur. ÁKB svaraði að samkv. deiliskipulaginu væri gert ráð fyrir því. Í framhaldinu kom svo fyrirspurn um hvort sveitafélagið gæti hlutast til um að það væri gert. ÁKB taldi það vel koma til greina (Tekið skal fram að þessi fyrirspurn snéri að Vaðlaborgum/Veigahalli, þar sem félag sumarhúsaleiganda er í Kotabyggð).

KjartanKolbeinsson, Kotabyggð 13 spyr hvort hann þarf að bíða í tíu ár eftir að breyta sínu húsi í íbúðarhús og hvort sá sem á lóð númer 14 þurfi að bíða í tíu ár eftir að fá að byggja. ÁKB og ÁÓ svöruðu að þessi fundur væri einmitt haldinn til að fá áherslur og ábendingar ef aðrar eru en þær sem eru í drögunum, til þess að fá þær fram snemma í ferlinu.

Leó Árnason spurði af hverju væri verið að áfangaskipta þessu, af hverju er ekki svæðið ekki tekið í heild. ÁKB svaraði að það yrði etv. niðurstaðan og það væri ekkert endilega þannig að númer reitanna segðu til um hvenær í ferliinu þeim væri breytt.

Eiríkur Hauksson, fulltrúi landeigenda, kom því á framfæri að óskin um skipulagsbreytinguna væri ekki frá landeigendum komin heldur lóðarhöfum þó þeir hefðu tekið að sér að koma henni á framfæri. Hann tók líka fram að landeigendur eru opnir fyrir öllum hugmyndum.

KjartanKolbeinsson spurði um hámarks fjölda lóða. ÁÓ svaraði að aðalskipulag gerði ráð fyrir að meðaltali þremur húsum á hektara í íbúðabyggð. Spurt var um lóðir sem til greina getur komið að fella niður og þá upplýst að engar lóðir verða felldar niður án samráðs og samþykkis.

Leó Árnason spurði aftur um þjónustu og hvort ekki væri eðlilegt að sveitarfélagið kæmi að snjómokstri í þessu byggð líka, þessir íbúar borga sama fasteignaskatt og íbúar eyrarinnar. ÁKB taldi svo ekki vera. Gylfi tók undir með sveitarstjóra og sagði að það þyrfti þá að finna einhvern flöt á því að koma til móts við það m.t.t. þess að á Svalbarðseyri borgað lóðarleigu til sveitarfélagsins, sem aðrir greiða ekki, þar sem lóðirnar eru ekki á eignarlandi sveitarfélagsins.

Gunnar Lórenzon, Kotbyggð 24, spurði um gjöld og einnig um hvort lóðareigandinn hafi kaupskyldu á sumarhúsi sem á lóðinni stendur. ÁKB og ÁÓ svöruðu að fasteignaskattur lóðar mun hækka eitthvað við að breytast úr frístundalóð í íbúðarlóð, að öllum líkindum, en það gerist þó ekki fyrr en viðkomandi lóð verður þinglýst sem slíkri. Þeir töldu ekki að það gerðist sjálfkrafa við deiliskipulagsbreytinguna. Varðandi kaupskyldu er vísað á samninga milli landeiganda og lóðarhafa og skilmála svæðisins eins og þeir eru núna.

ÁKB spurði hvort einhverjir af fundarmönnum væri alfarið á móti þessari fyrirhuguðu breytingu eða því að svæðum I, II og IV væri breytt í einu lagi. Gunnar Lórenzson upplýsti að hann væri ekki fylgjandi þessum áætlunum, aðrir tóku ekki til máls um þetta.

Ábending kom fram um að gjald f. inntök a.m.k. síma væri töluvert lægra.

Leó Árnason lagði til að þetta yrði allt gert í einu lagi.

Hringur Hreinsson, skipulagsnefnd, tók þá til máls benti á að það yrði að gæta þess að valta ekki yfir þá sem þarna eru fyrir og hugsanlega vilja þetta ekki. Spurt var um hversu langt er eftir af samningum á svæðinu. Upplýst að það væri mismunandi.

 

Haukur Trampe spurði út í breytingar sem búið er að gera varðandi stærðir og þakhalla o.fl. ÁKB upplýsti að allar breytingar sem búið er að gera hefðu farið í gegnum lögformlegt ferli þ.e. deiliskipulagsbreytingu.

KristjánJúlíusson, Kotabyggð 7 er hræddur um að ef vegurinn verður hækkaður verði nokkrar lóðir svo neðarlega í landinu að þær fari hugsanlega á kaf, þarna er mikill hæðarmunur. Nokkrar umræður urðu um vegina almennt.

Helga Haraldsdóttir, Kotabyggð 13, benti á að það gæti verið kostur fyrir sumarhúsaeigendur að hafa íbúa í fastri búsetu á svæðinu því að gæti virkað sem nágrannavarsla. Þar með var mælendaskrá lokað.

ÁKB þakkaði mönnum fyrir fundarsetuna og málefnalegar og góðar umræður.

Gestir véku af fundi kl. 22.10 og skipulagsnefnd fundaði áfram.

 

Niðurstaða skipulagsnefndar eftir fundinn er eftirfarandi:

 

Skipulagsnefnd leggur til að þróunaráætlunin fyrir Kotabyggð og Vaðlaborgir B verði samþykkt með þeirri breytingu að svæðinu verði breytt í einu lagi í íbúðarbyggð, þ.e. fallið frá áfangaskiptingu. Fjöldi lóða á Kotabyggðarsvæði verði að hámarki 41 og á svæði Vaðlaborga B 10. Þá mælist nefndin til að unnið verði sameiginlegt deiliskipulag fyrir Kotabyggð og Vaðlaborgir B.

Þá var Árna Ólafssyni, arkitekt falið að breyta þróunaráætlunni í samræmi við ofangreint fyrir næsta fund sveitarstjórnar.

 

 

  1. Fundargerð 6. fundar framkvæmdastjórnar byggingarfulltrúaembættis Eyjafjarðar dags. 26. nóvember s.l..

Lagt fram til kynningar.

 

  1. Fundargerð 6. fundar samvinnunefndar um svæðisskipulag Eyjafjarðar frá 23. nóvember s.l.

Lagt fram til kynningar.

 

 

Fleira ekki fært til bókar.

Fundi slitið kl.22.30