Skipulagsnefnd

18. fundur 05. september 2012

Fundargerð

18. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, miðvikudaginn 5. september 2012 kl. 17:00.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal formaður, Stefán H. Björgvinsson varaformaður, Sandra Einarsdóttir ritari og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Sandra Einarsdóttir, ritari skipulagsnefndar.

Boðaðri dagskrá fundarins var breytt þannig að liður nr. 1 skv. fundarboði var tekinn fyrir sem liður nr. 3. Árni Ólafsson sat fundinn undir liðum 1 og 2 á fundinum.

Dagskrá:

1. 1202016 - Deiliskipulag byggðar norðan Valsár
Lögð fram drög að verkefnislýsingu fyrir deiliskipulag íbúðarbyggðar norðan Valsár. Rætt var um tímasetningu og skipulag íbúafundar um deiliskipulagið og skipulagsráðgjafi kynnir skissur af skipulaginu byggðar á umræðum á síðustu fundum.
Farið var yfir helstu áherslur skipulagsnefndar við vinnslu deiliskipulags fyrir lýsingu á skipulagsverkefninu. Lýsing frágengin og samþykkt af skipulagsnefnd. Stefnt að því að halda íbúafund um verkefnið í október eða nóvember. Áætlað að auglýsa nýtt deiliskipulag vorið 2013. Árni skipulagsráðgjafi fór yfir skissur og var honum falið að vinna áfram með tillögur sem komu fram á fundinum.

2. 1209003 - Breyting á Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 vegna Kotabyggðar
Í ljósi niðurstöðu lögmannsstofunnar Landslaga um stöðu deiliskipulags Kotabyggðar eftir gildistöku Aðalskipulags Svalbarðsstrandarhrepps, þykir sýnt að gera þurfi breytingar á aðalskipulaginu til að skýra línur um stöðu frístundabyggðarinnar sem þar stendur. Skipulagsráðgjafi fór yfir þær leiðir sem færar eru að því marki, þ.e. breytingu á texta sem farið yrði með sem óverulega breytingu á aðalskipulagi eða breytingu á landnotkun frístundabyggðar og breytingu á uppdrætti til samræmis, sem farið yrði með sem almenna breytingu á aðalskipulagi.
Ákveðið var að gera breytingar á texta aðalskipulags sem farið yrði með sem óverulega breytinu á aðalskipulagi. Farið var yfir drög að breytingu á textanum og vinnu með hann verður haldið áfram til staðfestingar á næsta fundi.

3. 1209002 - Niðurfelling vega á Svalbarðseyri af vegaskrá
Borist hefur tilkynning frá Vegagerðinni um fyrirhugaða niðurfellingu vega á Svalbarðseyri af vegaskrá. Gefinn er frestur til 1. desember til að skila athugasemdum.
Skipulagsnefnd mótmælir harðlega ákvörðun Vegagerðarinnar um skerðingu á þjónustu. Að áliti Skipulagsmálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fram kemur í bókun fundargerðar 10. fundar hennar, eru sveitarfélög í fullum rétta að hafna erindum frá Vegagerðinni um breytingar um ábyrgð á veghaldi. Í ljósi þess að lögin tóku gildi í janúar 2008 sér skipulagsnefnd ekki tilefni til breytinga nú þar sem stjórnvöld hafa enn ekki ákvarðað sveitarfélögum tekjustofn til að mæta slíkum breytingum á veghaldi.

4. 1209005 - Minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga um gerð Landsskipulagsstefnu
Lagt fram til kynningar minnisblað Guðjóns Bragasonar um gerð landsskipulagsstefnu sem tekið var fyrir á 10. fundi Skipulagsmálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 17. ágúst 2012.
Skipulagsnefnd er ósátt við hversu mikið er þrengt að skipulagsvaldi sveitarfélaganna í drögum að landsskipulagsstefnu og það hversu sértæk hún virðist stefna í að verða. Skipulagsnefnd tekur heilshugar undir bókun Skipulagsmálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 10. fundi hennar þar sem fram kemur að Landsskipulagsstefnan eigi fyrst og fremst að fela í sér heildarsýn og almenn leiðarljós til að auka gæði skipulagsáætlana sveitarfélaga, en ekki boð og bönn.

5. 1209006 - Aðgerðir til að lækka umferðarhraða á Vaðlaheiðarvegi
Borist hefur ábending um hraða umferð á Vaðlaheiðarvegi næst Veigastaðavegi. Talað hefur verið við Vegagerðina um aðgerðir til að lækka umferðarhraða og nefna þeir tvær leiðir í þessu efni, annars vegar þéttbýlishlið og hins vegar hraðahindrun úr stáli. Skipulagsnefnd óskar eftir að 50 km/klst hámarkshraði verði á stærra svæði í kringum byggðina við Veigastaðaveig og Vaðlaheiðarveg og settar verði hraðahindranir úr stáli norðan við Værðarhvamm, sunnan gatnamóta Veigastaðavegar og Vaðlaheiðarvegar og fyrir neðan afleggjarann inn í Vaðlabyggð. Þéttbýlishlið eru dýr og ekki möguleiki á slíku í nánustu framtíð.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 20:00.