Skipulagsnefnd

27. fundur 06. júní 2013

Fundargerð

27. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í Valsárskóla, fimmtudaginn 6. júní 2013 kl. 13:00.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal formaður, Bergþóra Aradóttir aðalmaður, Sigurður Halldórsson 2. varamaður, Stefán Einarsson 3. varamaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri.

Anna Fr. Blöndal vék af fundi og Stefán Einarsson tók sæti hennar undir liðum 1 og 2 í fundargerð.

Dagskrá:

1. 1306003 - Beiðni um tillögu að deiliskipulagi í Sveinbjarnargerði 2, 3 & 4.
Í yfirlýsingu sem skilað var á skrifstofu Svalbarðsstrandarhrepps 3. júní 2013 fara Guðbjörg Lárusdóttir og Anný P. Larsdóttir, fyrir hönd Sveitahótelsins ehf. og fyrir eigin hönd, og Jónas Halldórsson, eigendur Sveinbjarnargerðis IIB, IIC, IID og III þess á leit að sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps geri tillögu að deiliskipulagi fyrir Sveinbjarnargerði 2,3 og 4. Á yfirlýsingunni eru óútfylltir reitir fyrir undirskriftir annarra fasteignareigenda á svæðinu.
Anna Fr. Blöndal vék af fundi undir þessum lið. Stefán Einarsson sat fundinn í hennar stað.
Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010 getur landeigandi eða framkvæmdaraðili óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Skipulagsnefnd lítur það jákvæðum augum að gert verði deiliskipulag fyrir svæðið, að því gefnu að samþykki allra eigenda liggi fyrir. Nefndin telur það hlutverk hagsmunaaðila á svæðinu að koma sér saman um gerð deiliskipulags og hvetur erindisbeiðendur til að leita eftir samþykki annarra eigenda fasteigna á svæðinu, vilji þeir að gert verði deiliskipulag á kostnað þeirra.

2. 1212021 - Erindi varðandi Aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020
Lagt fram bréf Ólafs R. Ólafssonar, hrl. hjá Pacta lögmönnum, fyrir hönd aðstandenda Sveitahótelsins ehf. þar sem reifuð eru viðbrögð stjórnvalda við erindum varðandi starfsleyfisskyldu og heimildir fyrir rekstri eggjabús Græneggs ehf. í Sveinbjarnargerði. Í bréfinu kemur fram að þar sem rekstur eggjabúsins hafi ekki verið stöðvaður sé líklegt að höfðuð verði mál gegn hlutaðeigandi aðilum, þ.á.m. Svalbarðsstrandarhreppi.
Anna Fr. Blöndal vék af fundi undir þessum lið. Stefán Einarsson sat fundinn í hennar stað.
Skipulagsnefnd leggur til að leitað verði álits lögfræðings á stöðu Svalbarðsstrandarhrepps í umræddu máli.

3. 1306004 - Umsókn um skipulagsheimild fyrir spennistöð á lóð Kjarnafæðis.
Árni Grétar Árnason, fyrir hönd Rarik, óskar eftir skipulagsheimild fyrir spennistöðvarskýr við suð-vesturhorn húsnæðis Kjarnafæðis á Svalbarðseyri, sbr. meðfylgjandi teikningu og afstöðumynd. Spennistöði í húsnæði Marínar ehf. verður aflögð. Breytingin er til komin vegna aukinnar þarfar Kjarnafæðis fyrir rafmagn.
Ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu, en framkvæmdin er í samræmi við gildandi aðalskipulag og það byggðarmynstur sem fyrir er á Eyrinni. Framkvæmdin er jafnframt í samræmi við þær tillögur að deiliskipulagi sem unnið er að. Skipulagsnefnd fellst á að veita heimild fyrir mannvirkinu með vísan til 44. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 um grenndarkynningu framkvæmdar. Þar sem sýnt þykir að framkvæmdin varði ekki hagsmuni nágranna hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn samþykkir skipulagsnefnd að nýta heimild í 3. mgr. greinarinnar til að falla frá grenndarkynningu.

4. 1306007 - Framkvæmdir í fjörunni í landi Meyjarhóls
Heiðrún Guðmundsdóttir, fyrir hönd landeigenda í Meyjarhóli, hefur leitað til sveitarfélagsins vegna framkvæmda Stefáns Þengilssonar í fjörunni í landi Meyjarhóls. Framkvæmdirnar eru hafnar án tilskilinna leyfa og samþykkis landeigenda. Sveitarstjóri hefur rætt við framkvæmdaaðila um að fjaran verði færð aftur í fyrra horf að því marki sem það er mögulegt.
Skipulagsnefnd lýsir furðu sinni á framgöngu framkvæmdaaðila í málinu. Ákveðið að bíða átekta í ljósi samskipta sveitarstjóra við framkvæmdaaðila.

5. 1303016 - Stjórnsýslukæra vegna höfnunar á byggingaleyfi fyrir Kotabyggð 44
BB byggingum og lögmanni félagins var þann 13. maí tilkynnt að í ljósi þess að umsókn um byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð 44 í Kotabyggð hefði ekki fengið formlega afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa, yrði hún tekin til afgreiðslu. BB byggingum var gefinn frestur til að koma á framfæri andmælum við álitum sveitarstjórnar, skipulagsstofnunar og Landslaga á stöðu skipulags og heimildum til útgáfu byggingarleyfis fyrir slíku húsi. Fyrirhugað er að umsóknin verði afgreidd á næsta fundi byggingarnefndar.
Lögmaður BB bygginga hefur nú sent athugasemdir við umrædda niðurstöðu, þar sem jafnframt koma fram sjónarmið BB bygginga í málinu.
Sveitarstjóri fór yfir stöðu málsins.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:00.