Á nýju ári – með sterkan grunn

Við höfum kvatt árið 2025 og tökum nú fagnandi á móti 2026.

Árið sem er að baki var Svalbarðsstrandarhreppi og íbúum hans farsælt. Rekstur sveitarfélagsins var góður og afkoma samstæðunnar jákvæð. Áætlanir fyrir árið 2026 gera ráð fyrir tekjuafgangi upp á 47,2 m.kr. af rekstri A-hluta og 91,7 m.kr. af samstæðu sveitarfélagsins (A+B). Efnahagur sveitarfélagsins er áfram sterkur. Fjárfestingar fyrir árin 2026–2029 eru áætlaðar alls 665 m.kr.

Á liðnu ári var ráðist í mikilvægar fjárfestingar, meðal annars gatnagerð í öðrum og þriðja áfanga Valsárhverfis og kaup á nýju iðnaðarhúsi í Borgartúni. Húsið mun nýtast sveitarfélaginu vel á næstu árum, ekki síst í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu leik- og grunnskóla. Hafin var uppbygging á gróðurreit með byggingu á grillhúsi og munum við halda áfram að byggja þar upp útivistarsvæði fyrir íbúa og gesti sveitarfélagsins, endurnýjun á heitum potti og viðhald á útisvæði sundlaugar sveitarfélagsins.

Á árinu 2026 verður boðin út nýbygging á húsnæði fyrir leikskólann Álfaborg, með þeirri uppbyggingu verður leikskólinn orðinn 60 barna leikskóli með bættri aðstöðu fyrir bæði börn og starfsfólk.

Íbúar Svalbarðsstrandarhrepps búa yfir miklum krafti og þrautseigju. Það er sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með þeirri öflugu þróun sem orðið hefur hjá Ungmennafélaginu Æskunni og Björgunarsveitinni Tý, þar sem barna- og unglingastarf hefur verið eflt til muna.

Skautasamband Íslands útnefndi Sædísi Hebu Guðmundsdóttur skautakonu ársins 2025. Sædís Heba er íbúi í Svalbarðsstrandarhreppi og sendi ég henni hamingjuóskir með þennan frábæra árangur.

Árið 2026 verða sveitarstjórnarkosningar og því fer núverandi kjörtímabil senn að ljúka. Það hefur einkennst af samstöðu, vinnusemi og óeigingjörnu starfi sveitarstjórnarfulltrúa og starfsfólks sveitarfélagsins. Næsta sveitarstjórn mun taka við sterku og góðu búi, þar sem fjárhagur er traustur og öflugt fólk skipar allar lykilstöður.

Þorrablót Svalbarðsstrandarhrepps verður haldið 7. febrúar nk. og nokkuð víst að þar verði mikið um dýrðir og gleði.

Að lokum vil ég þakka íbúum Svalbarðsstrandarhrepps og öllu því góða samstarfsfólki sem starfar fyrir sveitarfélagið fyrir gott samstarf á liðnum árum. Megi árið 2026 færa ykkur öllum gæfu, hamingju og samstöðu í vaxandi samfélagi.

Þórunn Sif Harðardóttir sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps