Velferð & fjölskylda

Í Svalbarðsstrandarhreppi er fjölþætt félagsleg þjónusta í boði fyrir íbúa sveitarfélagsins. Lögð er áhersla á að aðgangur sé á hverjum tíma að ráðgjafarþjónustu í fremstu röð á sviði félagsmála og er meðal annars höfð náin samvinna um ýmis málefni sem þetta varðar við nágrannasveitarfélög við Eyjafjörð. Þá hefur Svalbarðsstrandarhreppur einnig gert sérstaka samninga við Akureyrarbæ um þjónustukaup, sem og um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, svo dæmi séu nefnd.

Almenn ráðgjöf um réttindi
Velferðarsvið Akureyrarkaupstaðar veitir alla almenna ráðgjöf um réttindi og möguleika einstaklinga með lögheimili í Svalbarðsstrandarhreppi á sviði félagsmála. Síminn þar er 460-1400.

Heimilisþjónusta
Elli- og örorkulífeyrisþegum stendur til boða aðstoð við heimilisstörf sem þeir geta ekki eða illa sinnt sjálfir. Sótt skal um þjónustuna til Velferðarsviðs Akureyrarkaupstaðar, sem sér um að meta þjónustuþörfina. Sími Velferðarsviðs er 460-1400 en einnig má senda erindi og fyrirspurnir á velferdarsvid@akureyri.is.
Þegar mat Velferðarsviðs liggur fyrir er verkefnum úthlutað til starfsmanna Svalbarðsstrandarhrepps sem sjá um að veita þjónustuna.

Ferliþjónusta
Svalbarðsstrandarhreppur veitir þeim elli- og örorkulífeyrisþegum ferliþjónustu sem ekki geta ekið sjálfir til að komast til læknis, í endurhæfingu, dagvist o.þ.h. Einnig getur ferliþjónusta átt við um innkaupaferðir og aðrar ferðir sem nauðsynlegar geta verið til að viðkomandi geti búið í heimahúsi. Sótt skal um ferliþjónustu til félagsmálanefndar.

Frístundastyrkur eldri borgara
Sótt er um frístundastyrk eldri borgara hér á heimasíðunni. Gegn framvísun kvittunar um greiðslu þátttökugjalds fyrir einstaklinga 67 ára og eldri, leggur sveitarfélagið samþykkta niðurgreiðslu inn á reikning viðkomandi. Ákvörðun um fjárhæð niðurgreiðslu er ákveðin í lok árs fyrir komandi ár.
Niðurgreiðslan nær ekki til greiðslu fyrir aðbúnað, ferðalög eða annan tilfallandi kostnað vegna keppni eða þjálfunar. Þá getur niðurgreiðslan aldrei orðið hærri en þátttökugjald viðkomandi einstaklings. 

Ákveðið hefur verið að greitt verði allt að kr. 20.000,- [Samþykkt á sveitarstjórnarfundi 124. fundi sveitastjórnar þann 28.11.2023].

Umsókn um frístundastyrk

Fjárhagsaðstoð
Tekjulágum einstaklingum er tryggð lágmarksframfærsla með fjárhagsaðstoð. Jafnframt geta tekjulágir einstaklingar sótt um fjárhagsaðstoð ef óvæntur kostnaður leiðir til bágrar fjárhagsstöðu tímabundið. Sótt skal um fjárhagsaðstoð til Velferðarsviðs Akureyrarkaupstaðar, sem sér um að meta þörf viðkomandi fyrir aðstoð. Velferðarsvið getur jafnframt leiðbeint um rétt fólks til annarrar aðstoðar og veitt almenna ráðgjöf í fjármálum fjölskyldna. Sími velferðarsviðs er 460-1400

Félagslegt húsnæði

Starfsmenn sveitarfélagsins að aðstoða við lausn húsnæðisvanda með öðrum hætti. Hægt er að óska eftir aðstoð í húsnæðismálum á skrifstofu sveitarfélagsins eða fyrir milligöngu Velferðarsviðs Akureyrarkaupstaðar.

Sérstakur húsnæðisstuðningur 15-17 ára barna

Veita skal sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum hér á landi vegna náms fjarri lögheimili. Sérstakur húsnæðisstuðningur skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjáraðila og nemur 60% af leigufjárhæð. Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram húsaleigusamning og staðfestingu á námi barns. Fjárhæð styrks skal þó aldrei nema hærri upphæð en 20.000 kr. á mánuði. Lágmarksgreiðsla foreldra eða forsjáraðila skal vera 10.000 kr. á mánuði. Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram húsaleigusamning og staðfestingu á námi barns. Ákvæði 3.-4. gr. reglna þessara gilda ekki um sérstakan húsnæðisstuðning vegna 15-17 ára barna.

Umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning.

Samvinna eftir skilnað - SES.  Skilnaðarráðgjöf 

Akureyrarbær býður foreldrum 0-18 ára barna upp á sérhæfða skilnaðarráðgjöf.

Um er að ræða ráðgjöf, til að koma í veg fyrir og/eða til að draga úr ágreiningi foreldra sem standa í skilnaði eða hafa gengið í gegnum skilnað og vilja stuðla að betri foreldrasamvinnu með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Nánari upplýsingar um ráðgjöfina eru á heimasíðu Velferðarsviðs.


Efni yfirfarið 29.02.24