Velferð & fjölskylda

Í Svalbarðsstrandarhreppi er fjölþætt félagsleg þjónusta í boði fyrir íbúa sveitarfélagsins. Lögð er áhersla á að aðgangur sé á hverjum tíma að ráðgjafarþjónustu í fremstu röð á sviði félagsmála og er meðal annars höfð náin samvinna um ýmis málefni sem þetta varðar við nágrannasveitarfélög við Eyjafjörð. Þá hefur Svalbarðsstrandarhreppur einnig gert sérstaka samninga við Akureyrarbæ um þjónustukaup, sem og um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, svo dæmi séu nefnd.

Almenn ráðgjöf um réttindi
Velferðarsvið Akureyrarkaupstaðar veitir alla almenna ráðgjöf um réttindi og möguleika einstaklinga með lögheimili í Svalbarðsstrandarhreppi á sviði félagsmála. Síminn þar er 460-1400.

Heimilisþjónusta
Elli- og örorkulífeyrisþegum stendur til boða aðstoð við heimilisstörf sem þeir geta ekki eða illa sinnt sjálfir. Sótt skal um þjónustuna til Velferðarsviðs Akureyrarkaupstaðar, sem sér um að meta þjónustuþörfina. Sími Velferðarsviðs er 460-1400 en einnig má senda erindi og fyrirspurnir á velferdarsvid@akureyri.is.
Þegar mat Velferðarsviðs liggur fyrir er verkefnum úthlutað til starfsmanna Svalbarðsstrandarhrepps sem sjá um að veita þjónustuna.

Ferliþjónusta
Svalbarðsstrandarhreppur veitir þeim elli- og örorkulífeyrisþegum ferliþjónustu sem ekki geta ekið sjálfir til að komast til læknis, í endurhæfingu, dagvist o.þ.h. Einnig getur ferliþjónusta átt við um innkaupaferðir og aðrar ferðir sem nauðsynlegar geta verið til að viðkomandi geti búið í heimahúsi. Sótt skal um ferliþjónustu til félagsmálanefndar.

Fjárhagsaðstoð
Tekjulágum einstaklingum er tryggð lágmarksframfærsla með fjárhagsaðstoð. Jafnframt geta tekjulágir einstaklingar sótt um fjárhagsaðstoð ef óvæntur kostnaður leiðir til bágrar fjárhagsstöðu tímabundið. Sótt skal um fjárhagsaðstoð til Velferðarsviðs Akureyrarkaupstaðar, sem sér um að meta þörf viðkomandi fyrir aðstoð. Velferðarsvið getur jafnframt leiðbeint um rétt fólks til annarrar aðstoðar og veitt almenna ráðgjöf í fjármálum fjölskyldna. Sími velferðarsviðs er 460-1400

Félagslegt húsnæði
Svalbarðsstrandarhreppur á félagslega leiguíbúð sem ætluð er til að leysa bráðan húsnæðisvanda íbúa með lögheimili í sveitarfélaginu. Ef íbúðin er í útleigu reyna starfsmenn sveitarfélagsins að aðstoða við lausn húsnæðisvanda með öðrum hætti. Hægt er að óska eftir aðstoð í húsnæðismálum á skrifstofu sveitarfélagsins eða fyrir milligöngu Velferðarsviðs Akureyrarkaupstaðar.


Efni yfirfarið 1.5.2021