Sveitarfélagið Svalbarðsstrandarhreppur er á Svalbarðsströnd, undir hlíðum Vaðlaheiðar við austanverðan Eyjafjörð. Sveitin er um 14 km frá norðri til suðurs. Undirlendi er lítið syðst og þar setja hjallar sterkan svip á landslagið. Er undirlendi talsvert þegar utar dregur.
Landnámsjörð sveitarinnar er Sigluvík þar sem Norðmaðurinn Skagi Skoptason nam land að ráði Helga magra. Ströndin hefur ætíð tilheyrt S-Þingeyjarsýslu. Mörg undanfarin ár hefur íbúum fjölgað og þann 1. janúar 2018 voru þeir 468 (bráðab.tala). Um helmingur íbúa eða 198 býr í þéttbýlinu á miðri ströndinni, Svalbarðseyri. Þar hafa oft á tíðum verið töluverð umsvif og ýmsir aðilar verið þar með rekstur eins og verslun og síldarsöltun að ógleymdum umsvifum Kaupfélags Svalbarðseyrar, KSÞ.
Í dag er Kjarnafæði með mikla starfsemi þar. Í þéttbýlinu er grunn- og leikskóli, íþróttaaðstaða, sundlaug og skrifstofa hreppsins. Á síðustu árum hefur verið ásókn í búsetu syðst í sveitarfélaginu. Bæði er um að ræða frístundahús og íbúðarhús til fastrar búsetu. Nábýlið við Akureyri gerir það að verkum að íbúar sækja mikið í þjónustu þangað en samstarf er mikið á milli sveitarfélaganna, báðum til hagsbóta.
Efni yfirfarið 29.11.20