Nýjar sóttvarnaraðgerðir

Sóttvarnarlæknir skilaði í dag minnisblaði til heilbrigðisráðherra og í kjölfarið hefur verið ákveðið að ný reglugerð um sóttvarnaraðgerðir taki gildi sem fyrst og gildi í þrjár vikur.

Þetta er bakslag í baráttunni gegn COVID-19 en í ljósi fyrri reynslu og vísunar sóttvarnarlæknis, sérstaklega í þriðju bylgju faraldursins s.l. haust, þá er nauðsyn að bregðast við núverandi sýkingum hratt og af festu ef takast á að koma í veg fyrir fjórðu bylgju faraldursins.

Í þeirri fjölgun smita sem nú er að herja á okkur hafa börn og unglingar, ekki síður en fullorðnir veikst. Þessi breyting kallar á þau viðbrögð sem tilkynnt voru í dag, öllum skólum nema leikskólum verður lokað þar til páskafrí tekur við en þetta fyrirkomulag mun gilda í þrjár vikur. Starf leikskóla helst því óbreytt þar til annað verður tilkynnt en gengið er út frá því að skólastarf hefjist ekki fyrr en að þremur vikum liðnum. Skólastjórar munu tilkynna um breytingar á starfinu þegar við vitum betur hvernig fyrirkomulagið verður eftir páska. Að sama skapi er mikilvægt að foreldrar gæti að því að börn séu ekki að leika sér saman eða hittast að óþörfu. Við fullorðna fólkið þurfum að muna að öll viðmið og tilmæli sem gilt hafa um börn breytast nú þegar börn eru að smitast. Samvera og samskipti barna á milli á eftir að endurspegla þessa breytingu.

Skrifstofa Svalbarðsstrandarhrepps verður lokuð þessar vikur en starfsmenn fylgjast vel með og kom skilaboðum almannavarna áleiðis til íbúa. Svarað er í síma á venjulegum opnunartíma og alltaf hægt að senda tölvupóst postur@svalbardsstrond.is

Við vinnum saman og eigum alla möguleika á að snúa dæminu okkur í hag. Þetta verða erfiðar vikur, vorið er á næsta leiti, við erum öll orðin þreytt á samkomutakmörkunum en við höfum sýnt það áður að með samtakamætti getum við snúið á þennan óboðna gest.

Starfsfólk skrifstofu Svalbarðsstrandarhrepps og sveitarstjórn sendir ykkur páskakveðjur og við hvetjum ykkur til að fara varlega, fylgjast með upplýsingum fjölmiðla og hlýða Víði í einu og öllu.

 

Með kveðju

Björg Erlingsdóttir