Göngu- og hjólastígur

Fimmtudaginn 17. febrúar urðu þau tímamót, í lagningu lagna frá Vaðlaheiðargöngum og að Skógarböðum, að vatni var hleypt á leiðslur og rennur nú til Skógarbaða í gegnum Vaðlareit.

Þetta er mikill áfangi og ánægjulegt hvað verkið hefur gengið vel. Tíðin hefur verið góð, snjólétt og milt veður. Þetta eru vatnaskil í lagningu göngu- og hjólastígs. Með haustinu er gert ráð fyrir að stígurinn verði malbikaður og gengið frá áningarstöðum meðfram stígnum. Þetta er stórt og mikið verkefni sem vinnst í góðri samvinnu Svalbarðsstrandarhrepps, Norðurorku, Vegagerðar, Eyjafjarðarsveitar og Akureyrarbæjar. Verkís og Landslag hafa haldið utan um hönnun og áætlanagerð og eftirlit. Stígurinn á eftir að auka lífsgæði íbúa og gesta um leið og öryggi gangandi og hjólandi er aukið.

Ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem að málinu hafa komið, landeigendum, starfsmönnum Svalbarðsstrandarhrepps, sveitarstjórn og nágranna sveitarfélögum, starfsmönnum Norðurorku, SET og Nesbræðra, Skógrætarfélags Eyfirðinga og eftirlitsmanni Verkís, fyrir einstaklega gott og gjöfult samstarf. Og auðvitað vil ég sérstaklega þakka þeim sem komu verkefninu af stað, eigendum Skógarbaða og sérstaklega þeim heiðurs hjónum Finni og Síu. Þessi hugmynd þeirra um að byggja upp Skógarböðin hefur verið okkur hinum óþrjótandi uppspretta áhugaverðra viðfangsefna.

Þetta verkefni sýnir það og sannar að þar sem menn eru samhentir og tilbúnir til að finna lausnir á öllum áskorunum getum við áorkað miklu.

Hér má sjá nokkrar myndir af framkvæmdum við lagningu lagna og á þeim má glöggt sjá hversu umfangsmikið verkið er.

Með kærri kveðju,

Björg Erlingsdóttir
Sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps