GRÍMUR, SPRITT OG FJARLÆGÐ MILLI MANNA

Eins og okkur hefur orðið ljóst undanfarna daga hafa fyrirmæli og reglur vegna útbreiðslu COVID-19 verið hert. Ástandið er alvarlegt og nú reynir á að við fylgjum leiðbeiningum sem aldrei fyrr og nálgumst þær skorður sem daglegu lífi okkar eru settar, af þolinmæði og æðruleysi. Við þurfum öll að standa saman sem einn maður í þessari baráttu, huga vel að sóttvörnum og sýna skilning á starfsreglum stofnana sveitarfélagsins.

Starfsmenn sveitarfélagsins eru allir í framvarðarsveit og mikilvægt að grunnskóli og leikskóli séu opnir og taki á móti nemendum sínum. Þess vegna er mikilvægt að aðgangur utanaðkomandi sé bannaður. Aðgangur að skólahúsnæði einskorðast við starfsmenn og þeir sem eiga erindi við starfsmenn skrifstofu sveitarfélagsins eru beðnir um að hringja í síma 464 5500 eða senda tölvupóst á postur@svalbardsstrond.is

Íþróttaiðkun í húsnæði sveitarfélagsins hefur verið frestað næstu tvær vikurnar, starf eldri borgara liggur niðri á sama tíma og eftir sem áður er aðgangur að skólahúsnæði takmarkaður við nemendur og starfsmenn. Viðburðum og veislum sem halda átti í húsnæði skólans hefur verið frestað. Sveitarstjórn fundaði í gær, þriðjudaginn 6. október og næsti fundur verður að öllu óbreyttu mánudaginn 19. október.

Á þessum erfiðu tímum þurfum við að huga vel að heilbrigði okkar, og við búum svo vel hér á Svalbarðsströnd að fjöldi gönguleiða er á svæðinu og auðvelt að komast í tengingu við náttúruna. Mikilvægt er að við hugum að okkar nánustu ættingjum og vinum, hringjumst á og veitum hvert öðru stuðning á þessum erfiðu tímum. Þolinmæði er sannanlega dyggð en flest finnum við á eigin skinni að við erum orðin þreytt og slökum þá kannski á en nú skiptir miklu að við séum vel vakandi og fylgjum þeim ráðleggingum sem Landlæknir og hennar teymi gefa okkur. Lítil samfélög eins og okkar eru viðkvæm fyrir hópasmiti og það þurfum við að hafa hugfast, halda okkur heima ef við finnum fyrir veikindum og huga sérstaklega vel að sóttvörnum.

Með kveðju
Björg Erlingsdóttir