Heimsókn forseta Íslands

Heimsókn forseta Íslands

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson heimsótti sýningu leik- og grunnskólabarna Tímahylkið í tíð kórónaveirunnar í Safnasafninu á Svalbarðsströnd miðvikudaginn 29. september. Nemendur nýttu góða veðrið og fengu sér göngutúr í Safnasafnið og biðu með eftirvæntingu eftir komu forsetans.

Móttökunefnd tók á móti forsetanum og að baki móttökunefndinni biðu nemendur beggja skóla, starfsmenn og foreldrar. Nemendur skiptust á að segja frá sýningunni og forseti færði þeim kveðju frá þeim Elizu með ljósmynd af þeim hjónum og var það efni þegar sett í Tímahylkið fyrir framtíðina að skoða og njóta. Tímahylkinu verður lokað í næstu viku og það geymt næstu 50 árin á Minjasafninu á Akureyri. Nemendur hafa tínt til áhugaverða hluti sem koma til með að rata í tímahylkið góða auk þeirra verka sem nemendur unnu fyrir sýninguna og verkefna sem unnin hafa verið í tengslum við sýninguna.

Fyrir hönd nemenda og starfsmanna í Valsárskóla og leikskólanum Álfaborg vil ég þakka forsetanum kærlega fyrir góða heimsókn og áhugann sem hann sýndi verkum nemenda. Nemendum vil ég þakka fyrir góða stund, þau voru dugleg að segja frá og vildu auðvitað fá mynd af sér með forsetanum okkar.

Blaðamaður frá Akureyri.net heimsótti sýninguna og gerði heimsókn forsetans góð skil. Hægt er að skoða umfjöllun og myndir hér.

 

Með kveðju

Björg Erlingsdóttir

Sveitarstjóri