Lestraraðstaða á bókasafni fyrir framhaldsskólanema

Nemendum framhaldsskóla, með lögheimili í Svalbarðsstrandarhreppi býðst að nýta sér lestraraðstöðu á Bókasafni á meðan COVID-19 faraldurinn hefur áhrif að skólasókn þeirra. Skrifstofa hreppsins er opin alla virka daga og geta nemendur komið kl. 8:00 og nýtt sér aðstöðuna til klukkan 16:00. Þeir nemendur sem búa utan Svalbarðseyrar geta nýtt sér þjónustu skólabílsins og þá er haft samband við okkur á skrifstofunni postur@svalbardsstrond.is og við komum skilaboðum til bílstjóra.

Almennar reglur um fjarlægð milli manna og sótthreinsun gilda hér eins og annars staðar og vinnureglur á Bókasafninu eru eins og á öðrum bókasöfnum þar sem gestir sýna tillitssemi, slökkt er á farsímum og umgengni snyrtileg.

Sóttvarnarreglur hafa sett svip á skólabyrjun þessa önn og með þessu vill sveitarstjórn og Bóksafnið tryggja að nemendur hafi góða aðstöðu til náms, góða tölvutengingu og að við vinnum öll saman að því að aðstoða unga fólkið okkar á þessum undarlegu tímum. Félagsleg einangrun og brottfall úr skóla er eitthvað sem við viljum vinna gegn og vonandi nýtist þessi fína aðstaða sem hér er nemendum á framhalds og háskólastigi.