Gámasvæði á Svalbarðseyri

Aðgangskerfi hefur verið sett upp á Gámasvæðinu á Svalbarðseyri. Aðgang fá einstaklingar með lögheimili í Svalbarðsstrandarhreppi og þjónustuaðilar. Aðgangur er í gegnum síma og sótt er um aðgang á heimasíðu Svalbarðsstrandarhrepps svalbardsstrond.is.

Með notkun aðgangsskilríkja verður allt utanumhald mun einfaldara og tryggja skilríkin rekjanleika ef á þarf að halda. Öll umgengni er skráð í gagnagrunn og eftirfylgni með slæmri umgengni auðvelduð.

Það er mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélagið að vel sé staðið að flokkun og frágangi sorps. Við þurfum að vinna saman að því að ganga vel um gámasvæðið, tryggja að rétt sé flokkað og kostnaði vegna reksturs gámasvæðisins og sorphirðu þannig haldið í lágmarki.

Í raun snýst þetta um fjármuni - um að við stofnum til aukins kostnaðar þegar illa er flokkað og umgengni eftir því, eða við lækkum kostnað þegar vel er flokkað og hægt að endurnýta sorpið okkar. Við viljum minnka það sorp sem fer í urðun og spara okkar þannig mikinn kostnað, fjármuni sem við höfum þörf fyrir í önnur verkefni.

Góðar upplýsingar verða á Gámasvæðinu um þá flokka sem flokkað er eftir, sett hefur verið upp grenndarstöð þar sem tekið er á móti t.d. fatnaði, vaxi og rafhlöðum en með þessari viðbót flokkum við í 16 flokka. Upplýsingar um flokkun og umgengni á Gámasvæðinu verður að finna á heimasíðu sveitarfélagsins og þegar færi gefst og fjöldatakmarkanir setja okkur ekki skorður, verður haldið námskeið fyrir þá sem vilja verða afburða flokkarar.

Gert er ráð fyrir að aðgangsstýring hefjist um miðjan október og þeir sem vilja verða sér út um aðgang fara á heimasíðu sveitarfélagsins og fylla út umsóknareyðublað.

Beiðni um aðgang að gámasvæðinu á Svalbarðseyri