TÍMAHYLKIÐ - jól og áramót á tímum COVID-19

Nú liggur á að kalla eftir hríð á Svalbarðsströnd allri, - ekki þó orrahríð og þaðan af síður kúlnahríð, ekki kafaldshríð með fimbulkulda og fannfergi, - heldur svokallaðri þankahríð í þágu heimildasöfnunar um annars konar kóf, COVID-19, og áhrif þess á Ströndunga. Jól og áramót fara í hönd og Tímahylkið vill gjarnan fá að vita hvernig gengur að halda uppi hátíðarbrag og gleðskap við núverandi aðstæður. Verða komandi vikur mjög frábrugðnar því sem menn eiga að venjast og vildu íbúar vera svo góðir að senda inn frásagnir og myndir þar um, fyrir hátíðarútgáfu blaðsins, sem ætlað er að komi út í janúar?

Hvernig orkar "Ástandið" á geðið nú í aðdraganda jólanna? Verða jólaboðin óvenju fámenn? Komast fjölskyldumeðlimir ekki til heimahaganna? Fylgir þessu vansæld og einmanaleiki? Reynist erfiðara að sjá um gjafakaup eða mataraðdrætti, laufabrauðsbakstur og aðrar hefðir? Gengur illa að komast í jólaskap eða finna fyrir stemningu? Tekur afstaða fólks til helgihalds hugsanlega stakkaskiptum um þessar mundir? Breytist forgangsröðin, hugmyndin um hvað er mikilvægast?

Undirbúningur fyrir Covid-sýninguna er að hefjast, hún verður haldin í Safnasafninu næsta haust. Þá ætti vonandi allt að vera fallið í ljúfa löð og Kórónuveiran kaldlynda að hafa verið lögð til hinstu hvílu, ef að líkum lætur. Kannski er þó langsótt að tala um að veirur séu kaldlyndar, þær þurfa víst að heyja sína lífsbaráttu rétt eins og við hin.

Á sýningunni verður pakkað ofan í hið eiginlega Tímahylki við hátíðlega athöfn, með hjálp krakkanna og annarra góðborgara. Lumið þið á einhverju sem ykkur finnst að eigi erindi á sýninguna eða í Tímahylkið sjálft? Hlut eða mynd sem tengist tímabilinu? Svo vantar líka verðugt Tímahylki og við lýsum hér með eftir hugmyndum um hvernig það gæti litið út. Íðilfagur kistill eða gjörvilegt koffort, stærðar glerkrukka eða málmtunna, myndar mjólkurbrúsi?

Vinsamlegast sendið framlög ykkar og hugmyndir á netfangið anna.heidur@svalbardsstrond.is eða annahoddsdottir12@gmail.com.

 

Með jólakveðu, ritstjóri Tímahylkisins og fylgdarlið