Verkefnið TÍMAHYLKIÐ hlaut veglegan styrk frá barnamenningarsjóði

Föstudaginn 28. maí voru afhentir styrkir Barnamenningarsjóðs og verkefnið TÍMAHYLKIÐ hlaut veglegan styrk frá sjóðnum. Barnamenningarsjóði er ætlað að skjóta styrkum stoðum undir fjölbreytt menningarstarf í þágu barna og ungmenna. Styrkir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Hörpu og Anna Heiður Oddsdóttir var fulltrúi verkefnisins

Verkefnið hefur einnig hlotið styrk frá Barnavinafélaginu Sumargjöf en félagið hefur starfað frá árinu 1924 og lagt áherslu á að styrkja málefni sem varða heill barna. Áður hafði verkefnið hlotið styrk úr uppbyggingarsjóði SSNE.

Við þökkum stuðninginn og ánægjulegt að sjá þann áhuga og góðvild sem verkefnið hlýtur.

TÍMAHYLKIÐ er samstarfsverkefni Valsárskóla: leikskólans Álfaborgar, grunnskóla og Safnasafnsins. Nemendur Valsárskóla eru að skoða hvernig COVID er að hafa áhrif á daglegt líf þeirra, hvernig sjúkdómar hafa, í gegnum söguna, haft mikil áhrif á tilveru mannsins og velta fyrir sér hvaða áhrif þessir umbrotatímar geta haft á framtíðina.

 

Á sýningunni TÍMAHYLKIÐ sem opnar í Safnasafninu í september verður hægt að skoða hvernig krakkarnir sjá veiruna fyrir sér um leið og hægt er að sjá hvernig þau skrásetja samtíma sinn og geyma frásögnina fyrir komandi kynslóðir að skoða. Það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig verkefni sagnfræðinga framtíðarinnar eiga eftir að þróast nú þegar við erum hætt að skrifa bréf á pappír, geymum ljósmyndir ekki lengur á pappír og treystum á geymslur sem eru öðrum lokaðar. Hvernig verður þessi saga ef við leggjum ekki okkar af mörkum við að segja frá?

Styrkirnir sem verkefnið hefur hlotið gera okkur kleift að leita liðsinnis listamanna og hönnuða, vanda framsetningu efnis og uppsetningu, efla kynningu og bjóða til veglegrar opnunarhátíðar. Nemendur Valsárskóla eru langt komnir með undirbúning sýningarinnar, í sumar munu nemendur Vinnuskóla takast á við það stóra verkefni að ljósmynda alla íbúa Svalbarðsstrandarhrepps og lokaeintak tímaritsins TÍMAHYLKIÐ verður sýningaskrá með upplýsingum um þátttakendur og tilurð sýningarinnar.

Við þökkum kærlega fyrir þann stuðning sem verkefnið hefur hlotið og höldum ótrauð áfram undirbúningi sýningarinnar.

Fyrir hönd undirbúningshóps
Björg Erlingsdóttir
Sveitarstóri Svalbarðsstrandarhrepps