VIÐ ERUM ÖLL ALMANNAVARNIR

Hertar sóttvarnarráðstafanir tóku gildi laugardaginn 31. október og gilda sömu reglur um allt land. Hertar sóttvarnarráðstafanir hafa ýmis konar áhrif á þjónustu Svalbarðsstrandarhrepps. Ný reglugerð um skólastarf tók svo gildi í dag, þriðjudaginn 3. nóvember og gildir hún um allt skólastarf á landinu, en nær einnig til frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþrótta- og tómstundastarfs barna og ungmenna. Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leikskólaaldri og barna á grunnskólaaldri, þar með talið félagsmiðstöðva, er óheimilt á meðan reglugerðin er í gildi.

Hér á Svalbarðsströnd hafa starfsmenn bæði Álfaborgar og Valsárskóla skipulagt starf leik- og grunnskóla eftir reglugerðinni.

Við viljum benda foreldrum á að yfirvöld hvetja foreldra til að takmarka samskipti milli barna utan skóla nema barna sem eru í sama sóttvarnarhólfi. Upplýsingar um hólfa-skiptingu innan skólans er að finna á heimasíðu Valsárskóla.

Skrifstofa Svalbarðsstrandarhrepps verður lokuð á meðan hertar sóttvarnarráðstafanir eru í gildi og sinna starfsmenn vinnu sinni ýmist að heiman eða í Ráðhúsi. Hægt er að hringja í síma 464 5500 eða senda tölvupóst á postur@svalbardsstrond.is

Fólk er hvatt til þess að forðast bein samskipti við aðra og nýta þess i stað síma eða tölvupóst. Félagsstarf eldri borgara hefur legið niðri síðustu vikur og svo verður áfram. Verið er að athuga hvort hægt sé að fá heimsendingarþjónustu frá matvöruverslunum á Akureyri fyrir eldra fólk og viðkvæma hópa. Auglýst verður á heimasíðu sveitarfélagsins hvernig fyrirkomulag verður á heimsendingarþjónustu.

Rétt er að hvetja íbúa til að huga vel að ættingjum og vinum sem gætu verið í þörf fyrir aðstoð á þessum tímum. Sumir geta þurft bílfar, aðstoð við að fara í búðir eða bara spjalla um daginn og veginn.

Hjálpumst að og sýnum hvert öðru kærleika og hjálpsemi, þolinmæði og skilning. Við erum öll almannavarnir og saman komumst við í gegnum þær áskoranir sem COVID-19 setja á leið okkar