Við erum öll almannavarnir

Í vikunni höfum við verið rækilega minnt á það að baráttu okkar við COVID-19 er langt frá því að vera lokið. Við þekkjum öll þau verkfæri sem við höfum hvert og eitt til þess að hefta útbreiðslu og tryggja eigin heilsu og annarra. Næstu daga og vikur þurfum við öll sem eitt að vinna samhent að því að hefta útbreiðslu veirunnar - við höfum slakað á síðustu vikur en þurfum að draga fram sprittbrúsana aftur, virða nándarmörk, sinna hreinlæti og hreinsa hendur. Við þurfum að huga að heilsu þeirra sem við vitum að eru viðkvæmir fyrir og aðstoða eins og hægt er.

Fundum Almannavarna á eftir að fjölga næstu daga og ég vil hvetja ykkur til þess að fylgjast vel með fréttum og leiðbeiningum sem finna má á heimasíðu Almannavarna almannavarnir.is.

Við viljum ekki misstíga okkur og missa stjórn eftir alla þessa miklu vinnu sem við höfum í sameiningu unnið. Ekkert okkar ætlar sér að bera smit manna á milli eða valda öðrum skaða og þess vegna er mikilvægt að við sýnum þá samstöðu sem þarf til þess að vinna bug á veirunni. Eina ráðið er að hlýða þeim fyrirmælum sem Almannavarnir gefa okkur og bera virðingu fyrir þeim viðvörunum sem okkur eru sendar.

Vonandi náum við að hefta útbreiðslu þeirra smita sem upp hafa komið síðustu daga. Enn eru þau bundin við suðvesturhluta landsins en flest erum við á ferð og flugi og ástæða til þess að fara varlega.

Skrifstofa sveitarstjórnar er lokuð og starfsmenn sveitarfélagsins flestir í sumarfríi. Við sitjum alla fundi almannavarna og tryggjum að upplýsingar um stöðu mála séu birtar á heimasíðu sveitarfélagsins, leikskólinn tekur aftur til starfa eftir verslunarmannahelgi og gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi. Sveitarfélögin funda reglulega með lögreglu og viðbragðsaðilum og sumarleyfi hafa engin áhrif hér á. Viðbragðsáætlanir eru aðgengilegar á heimasíðunni en hafa ekki verið virkjaðar aftur og vonandi kemur ekki til þess.

Við vinnum saman og sofnum ekki á verðinum. Við höfum sýnt það áður að með samtakamætti getum við snúið á þennan óboðna gest.

Með kærri kveðju

Björg Erlingsdóttir
Sveitarstjóri