Skipulagsnefnd

40. fundur 10. júní 2014

Fundargerð

40. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, þriðjudaginn 10. júní 2014 kl. 07:00.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal formaður, Bergþóra Aradóttir ritari, Sigurður Halldórsson 1. varamaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Bergþóra Aradóttir, ritari skipulagsnefndar.

Dagskrá:

1. 1311001 - Ósk um endurskoðun/breytingu á deiliskipulagi jarðarinnar Sunnuhlíð
Í ljósi þess að áhöld eru um það hvort það deiliskipulag sem samþykkt var fyrir Sunnuhlíð árið 2011 hafi öðlast gildi leggur sveitarstjóri til að óskað verði eftir því við skipulagsstofnun að farið verði með útgáfu byggingarleyfis fyrir tvö smáhýsi á lóð þeirri sem skipt hefur verið út úr jörðinni Sunnhlíð undir viðskipta- og þjónustustarfsemi skv. 1. tl. bráðabirgðaákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og að deiliskipulagið verði í kjölfarið unnið og auglýst að nýju til að taka af vafa um gildi þess.
Skipulagsnefnd beinir því til sveitarstjórnar að óska eftir meðmælum Skipulagsstofnunar vegna leyfis til byggingar tveggja smáhýsa í landi Sunnuhlíðar í Svalbarðsstrandarhreppi í samræmi við 1.tl ákvæða til bráðabirgða í Skipulagslögum nr.123/2010. En þar segir: Ákvæði til bráðabirgða.
"Sveitarstjórn getur án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar leyft einstakar framkvæmdir sem um kann að verða sótt".
Þar sem Skipulagsstofun telur að deiliskipulag sem auglýst var af Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps 10. mars 2011 hafi ekki öðlast gildi vegna þess að tímafrestur frá samþykkt sveitarstjórnar til auglýsingar gildistökunnar hafi runnið út áður en hún var auglýst. Óveruleg breytingin sem auglýst var 8. júní 2011 með grenndarkynningu hafði því ekki heldur öðlast gildi. Skipulagsnefnd leggur því til við nýja Sveitarstjórn Svalbarðsstrandsarhrepps og nýja skipulagsnefnd að taka þetta mál upp, láta færa fyrri breytingar inn á nýja deiliskipulagið og auglýsa að nýju. Skipulagsnefnd leggur einnig til að þessi vinna við deiliskipulagið verði unnin á kostnað sveitarfélagsins.

2. 1403014 - Efnislosun og afmörkun frístundasvæðis
Athugasemdir hafa borist frá þeim hagsmunaaðilum sem boðið var að taka þátt í grenndarkynningu vegna fyrirhugaðrar efnislosunar í landi Halllands norðan afleggjarans að Halllandsnesi og vestan afleggjarans að Strönd.
Yfirferð svara við grenndarkynningu á haugsetningu efnis í landi Halllands. Tveim aðilum var kynnt fyrirhuguð framkvæmd og athugasemdir bárust frá báðum aðilum. Hvorugur aðilinn setti sig upp á móti framkvæmdinni. . Eftirfarandi svör bárust:
1 Strönd sumarhús, Þórunn Ragnarsdóttir og Snorri Egilsson; Athugasemdin varðar tímalengd leyfisins og óska eftir ef hægt er að stytta tímann í 1-3 ár í stað 3.-5. ára.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd beinir því til framkvæmdaaðila að stytta vinnslutímann eins og hægt er með tilliti til nágrennisins.
2 Eigendur Halllandsness Vilborg Jóhannsdóttir og Úlfar Gunnarsson f.h. Bravo ehf; Óska eftir að skilyrt verði í framkvæmdaleyfi að framkvæmdaaðili skuli sjá um að ryðja snjó af vegi niður í Halllandsnes meðan haugurinn er til staðar og einnig að skilyrt sé í framkvæmdaleyfinu að framkvæmdaaðili skuli hækka veginn eins og þurfa þykir og visa þar til fundar með framkvæmdaaðila.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Samkomulag það sem vísað er til hefur ekki komið inná borð skipulagsnefndar og verður að líta svo á að um sé að ræða samning milli framkvæmdaaðila og eigenda Halllandsness og verður því ekki sett sem skilyrði í framkvæmdaleyfi. Skilyrði varðandi snjómokstur vegna snjósöfnunar af völdum framkvæmdarinnar kemur fram í grenndarkynningargögnum og mun það verða sett sem inn í skilyrði í framkvæmdaleyfi.

3. 1406004 - Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna haugsetningar í landi Meðalheims
Í bréfi frá 6. júní 2014 óskar Kristinn Magnússon, verkfræðingur á Eflu Norðurlandi, fyrir hönd Svalbarðsstrandarhrepps, eftir framkvæmdaleyfi vegna haugsetningar á allt að 5000 m3 af malarefni á túninu norðan Svalbarðseyrarvegar skv. meðfylgjandi teikningu.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að setja framkvæmdaleyfið í grenndarkynningu meðal íbúa sveitarinnar með dreifibréfi í sveitarfélaginu og auglýsingu í Dagskránni. Þetta er gert þar sem framkvæmdin er vel sýnileg íbúum sveitarfélagsins þegar farið er um það.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 08:45.