Skipulagsnefnd

17. fundur 30. maí 2012

Fundargerð

17. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, miðvikudaginn 30. maí 2012 kl. 17:00.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal formaður, Stefán H. Björgvinsson varaformaður, Sandra Einarsdóttir ritari og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1. 1106007 - Deiliskipulag Eyrarinnar á Svalbarðseyri
Lögð fram drög að húskönnun og fyrstu drög að deiliskipulagsuppdrætti fyrir Eyrina á Svalbarðseyri. Skipulagsráðgjafarnir Ágúst Hafsteinsson og Árni Ólafsson mættu á fundinn og fóru yfir gögnin með nefndinni.
Sandra Einarsdóttir vék af fundi nefndarinnar undir þessum lið.
Ágúst fór yfir minnispunkta frá fundum með húseigendum á Svalbarðseyri þar sem farið var yfir óskir þeirra varðandi skipulag svæðisins og áform varðandi uppbyggingu. Þá var farið yfir drög að húsakönnun og þau rædd. Nefndin var í meginatriðum sammála mati ráðgjafa á gildi húsa samkvæmt henni, þó þótti nefndinni sögulegt gildi Sigtúna og Súlubraggans vanmetið.
Árni og Ágúst fóru yfir mismunandi tillögur að deiliskipulagi, þ.m.t. legu vegar og lóðamörk. Skipulagnsefnd líst best á tillögu nr. 3, þar sem gert er ráð fyrir flutningi Jakobshúss og skilgreiningu athafnalóðar þar sem Nóatún og Breiðablik standa i dag.
Árni kynnti einnig tillögu að breytingu á aðalskipulagi þar sem lega Svalbarðseyrarvegar er færð til samræmis við núverandi legu hans, afmörkun hafnarsvæðis er breytt þannig að mörk þess eru færð frá strandlínunni til vesturs og mörk athafnasvæðis við Jakobshús eru færð til suðurs. Skipulagnsefnd leggur til að notkunarskilgreiningu reitsins norðan Kjarnafæðis (ÍB1) verði breytt í blandaða byggð íbúðarbyggðar og verslunar- og þjónustusvæðis. Árna falið að uppfæra breytingarblað sem verði lagt fyrir sveitarstjórn á næsta fundi hennar til afgreiðslu.

Sandra Einarsdóttir kom aftur inn á fundinn.

2. 1202016 - Deiliskipulag byggðar norðan Valsár
Umræður um stöðu mála varðandi skipulag svæðisins norðan við Valsá og næstu skref.
Rætt var um að skoða möguleika á lóðum með heimild til byggingar hesthúsa austast á svæðinu. Árna var falið að gera tillögu að útfærslu. Rætt var um mikilvægi þess að bjóða upp á möguleika á mismunandi húsum, þ.e. einbýlishúsum á einni hæð og tveimur hæðum, raðhúsum og litlum fjölbýlishúsum. Rætt var um að kanna möguleika á að fresta útfærslu vegtengingar hverfisins vestast í skipulagsvæðinu meðfram fjörunni.
Sveitarstjóra var falið að gera drög að verkefnislýsingu fyrir deiliskipulagsverkefnið til afgreiðslu á næsta fundi nefndarinnar.

Ágúst og Árni yfirgáfu fundinn.

3. 1107010 - Þróunaráætlun Kotabyggðar
Í bréfi dagsettu þann 5. júlí 2011 óskaði Haukur Halldórsson, fyrir hönd Veigastaða ehf, eftir umsögn skipulagsnefndar um hugmyndir um áfangaskiptingu í deiliskipulagi Kotabyggðar. Síðan þá hefur verið farið yfir vafaatriði varðandi skyldur sveitarfélagsins varðandi grunngerð, kostnað við uppbyggingu og möguleika varðandi skiptingu kostnaðar.
Skipulagsnefnd leggur til að Veigastöðum ehf. verði heimilað að hefja vinnu við deiliskipulag á grundvelli tillögu félagsins að áfangaskiptingu. Þó leggur skipulagsnefnd til að rætt verði við lóðarhafa lóða 1 og 1b um að þær verði hafðar með í fyrsta áfanga. Skipulagsnefnd leggur til að skipulagsskilmálar miðist við að félagið standi sjálft straum af kostnaði við uppbyggingu á lágmarksgrunngerð með hliðsjón af fyrirliggjandi drögum að þróunaráætlun og að skyldur varðandi frekari uppbyggingu og viðhald verði lagðar á félag lóðareigenda.

4. 1205015 - Ósk um afstöðu skipulagsnefndar til byggingarleyfisumsóknar í Kotabyggð
Jósavin Gunnarsson, byggingarfulltrúi Eyjafjarðarsvæðis, óskar eftir áliti nefndarinnar á því hvort heimilt sé að gefa út byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð nr. 44. Svæðið er skilgreint í gildandi deiliskipulagi sem frístundabyggð, en í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að svæðið þróist yfir í íbúðarbyggð.
Þar sem álit þeirra sérfræðinga, sem leitað hefur verið til um þá stöðu sem upp er komin stangast á, felur skipulagsnefnd sveitarstjóra að kanna hvort hægt sé að fá skorið úr um það hvort gefa megi út byggingarleyfi á viðkomndi lóð eða ekki. Afgreiðslu frestað.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 21:15.