Skipulagsnefnd

22. fundur 14. janúar 2013

Fundargerð
22. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, mánudaginn 14. janúar 2013 kl. 17:00.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal formaður, Stefán H. Björgvinsson varaformaður, Sandra Einarsdóttir ritari, Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri og Bergþóra Aradóttir 1. varamaður.

Fundargerð ritaði: Sandra Einarsdóttir, ritari skipulagsnefndar.

Bergþóra sat fundinn sem varamaður fyrir Söndru Einarsdóttur undir liðum 1 og 2 og sem áheyrnarfulltrúi í liðum 3-4. Árni Ólafsson skipulagsráðgjafi sat fundinn undir liðum 1-3.

Dagskrá:

1. 1106007 - Deiliskipulag Eyrarinnar á Svalbarðseyri
Á 21. fundi skipulagsnefndar þann 5. desember 2012 samþykkti skipulagsnefnd að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Svalbarðseyrar. Á fundi sveitarstjóra með fulltrúa Vegbúans ehf. kom fram eindregin andstaða hans við hugmyndir um flutning Jakobshúss. Jafnframt hefur borist erindi frá Kjarnafæði sem tengist skipulaginu og getur haft áhrif á niðurstöðuna varðandi skipulagið sbr. 2. lið í fundargerð.
Sandra vék af fundi undir þessum lið. Bergþóra tók sæti hennar.
Rætt um möguleg viðbrögð við ofangreindu. Skipulagsnefnd leggur til að auglýsingu verði frestað og tillagan tekin til nánari yfirferðar. Í því ferli verði teknar upp viðræður við hagsmunaaðila.

2. 1301007 - Umsókn um lóðarstækkun og framkvæmdaleyfi fyrir ramp
Í bréfi frá 7. janúar óskar Þröstur Sigurðsson, fyrir hönd Kjarnafæðis, eftir stækkun lóðar fyrirtækisins á Svalbarðseyri til norðurs og framkvæmdaleyfi fyrir byggingu niðurgrafins vöruramps.
Sandra vék af fundi undir þessum lið. Bergþóra tók sæti hennar.
Afgreiðslu frestað sbr. umfjöllun um lið 1 í fundargerð.

3. 1209003 - Breyting á Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 vegna Kotabyggðar
Áður á dagskrá á 21. fundi skipulagsnefndar þann 5. desember 2012.
Í ljósi niðurstöðu í áliti lögmannsstofunnar Landslaga frá 2. júlí 2012, um að heimild til byggingar nýrra frístundahúsa í Kotabyggð sé ekki fyrir hendi í gildandi aðalskipulagi er lögð fram tillaga að breytingu á texta í kafla 4.4.2 Íbúðarbyggð í sveitinni. Tillagan felur í sér að heimilt verði að skilgreina hluta svæðisins sem frístundabyggð, þrátt fyrir markmið aðalskipulagsins um þróun yfir í íbúðarbyggð og að ný frístundahús byggð á grundvelli hennar skuli uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til íbúðarhúsa í byggingarreglugerð eða hönnuð með það í huga að auðvelt sé að breyta þeim þannig að þau uppfylli kröfurnar, t.d. með viðbyggingu.
Helstu rök fyrir breytingunni eru þau að gert er ráð fyrir að þróunin yfir í íbúðarbyggð muni eiga sér stað í áföngum og því sé nauðsynlegt að leyfa áframhaldandi þróun frístundabyggðar á svæðum sem ekki verður breytt í íbúðarbyggð í fyrsta áfanga.
Tillagan rædd og samþykkt með minniháttar breytingum. Sjá fylgiskjal fundargerðar.

4. 1107010 - Þróunaráætlun Kotabyggðar
Áður á dagskrá á 21. fundi skipulagsnefndar 5. desember 2012.
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi Kotabyggðar. Tillagan hefur verið uppfærð miðað við bókun nefndarinnar frá þeim fundi.
Þar sem skipulagsgögn bárust svo skömmu fyrir fund getur skipulagsnefnd ekki afgreitt skipulagið endanlega að svo stöddu.
Skipulagsnefnd fór þó yfir ákvæði varðandi húseigendafélag sem bókað var um á síðasta fundi. Skipulagsnefnd vill sjá skýr ákvæði í deiliskipulaginu um ábyrgð eigenda varðandi sameiginleg svæði og leggur til að svæði utan lóðarmarka verði skilgreind sem óskipt sameign lóðareigenda. Þannig verði skýrt hverjir eru eigendur á landi utan lóðarmarka og hver sé ábyrgðaraðili þess. Telur nefndin þeim hagsmunum best varið í félagi lóðareiganda sem skoða verður hvernig hægt sé að tryggja hlutdeild lóðareigenda að, vert væri að skoða möguleika á að þinglýsa kvöð á lóðirnar. Landeigandi ætti hlut í þessu sameiginlega svæði þar til allar lóðir eru seldar.

5. 1212021 - Framkvæmdir við alifuglahús í Sveinbjarnargerði
Sveitarstjóri kynnti stöðu mála.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 21:15.