Skipulagsnefnd

23. fundur 06. febrúar 2013

Fundargerð
23. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, miðvikudaginn 6. febrúar 2013 kl. 17:30.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal formaður, Stefán H. Björgvinsson varaformaður, Sandra Einarsdóttir ritari, Bergþóra Aradóttir 1. varamaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Sandra Einarsdóttir, ritari skipulagsnefndar.

Árni Ólafsson, skipulagsráðgjafi, sat fundinn. Bergþóra Aradóttir, 1. varamaður tók sæti aðalmanna í málum nr. 1 og 4 á fundinum.

Dagskrá:

1. 1301007 - Umsókn um lóðarstækkun og framkvæmdaleyfi fyrir ramp
Áður á dagskrá 22. fundar skipulagsnefndar þann 14. janúar 2013.
Sandra Einarsdóttir vék af fundi undir þessum lið. Bergþóra tók sæti hennar. Jón Hrói ritaði fundarbókun.
Sveitarstjóri fór yfir niðurstöður fundar með umsækjanda þann 5. febrúar 2013.
Farið var yfir upplýsingar um uppbyggingaráætlanir Kjarnafæðis sem koma fram í bréfi Þrastar Sigurðssonar frá 6. febrúar 2013. Í bréfinu kemur fram að umsækjanda þykir óheppilegt að breyta legu og staðsetningu vöruramps, sbr. bókun nefndarinnar frá 21. fundi, bæði vegna aðkomu flutningabíla og vegna möguleika á uppbyggingu í framtíðinni. Skipulagsnefnd mælist til að drögum að deiliskipulagi sem eru í vinnslu verði breytt og tillit tekið til óska Kjarnafæðis um stækkun lóðar. Leyfi til framkvæmda verði þó ekki veitt fyrr en samþykkt deiliskipulag liggur fyrir.

2. 1209003 - Breyting á Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 vegna Kotabyggðar
Í bréfi dagsettu 1. febrúar 2013 tilkynnir Birna Björk Árnadóttir um ákvörðun Skipulagsstofnunar um að hafna ósk Svalbarðsstrandarhrepps um að farið verði með breytingu á Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 varðandi Kotabyggð sem óverulega breytingu á aðalskipulagi.
Skipulagsnefnd felur skipulagsráðgjafa að uppfæra breytingar á aðalskipulagi í samræmi við ábendingar frá Skipulagsstofnun. Aðalskipulagsbreyting og nýtt deiliskipulag svæðisins skulu unnar og kynntar samhliða.

3. 1107010 - Þróunaráætlun Kotabyggðar
Áður á dagskrá 22. fundar skipulagsnefndar þann 14. janúar 2013.
Lögð fram uppfærð skipulagsgögn til umræðu.
Lagt var fram minnisblað með 4 tillögum varðandi eignarhald sameiginlegra svæða skipulagssvæðisins. Skipulagsnefnd leggur til að tillaga nr. 1 sem felur í sér óskipta sameign lóðareigenda verði færð inn í skipulagsgögn:
”Sameiginleg svæði utan skilgreindra lóðarmarka, s.s. svæði fyrir almenna útivist, vegarstæði, svæði fyrir sameiginlega rotþró o.þ.h., skulu vera sameign eigenda lóða. Eigendur lóða skulu hafa með sér félag um fyrirsvar og rekstur sameiginlegra svæða. Um stofnun félagsins, samþykktir og önnur atriði fer eftir gildandi lögum á hverjum tíma. Kveðið skal á um eignarhlut hvers lóðareiganda í sameiginlegum svæðum og skyldu til félagsaðildar í sölusamningi eða sambærilegu skjali sem þinglýst er á viðkomandi lóð“
Gerð var grein fyrir fundi með fulltrúa landeiganda þar sem fram kom að tillaga nr. 3 hugnaðist honum best. Skipulagsnefnd telur þá leið fela í sér of mikið frávik frá stefnu sveitarstjórnar fram að þessu.
Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er varðandi breytingu á aðalskipulagi sbr. lið 2 í fundargerð er ljóst að athugasemdir Skipulagsstofnunar munu hafa áhrif á gerð deiliskipulagsins og getur skipulagsnefnd þar af leiðandi ekki afgreitt málið að svo stöddu.

4. 1212021 - Erindi varðandi Aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020
Lagt fram bréf dagsett 4. febrúar 2013 frá Sunnu Axelsdóttur, lögfræðingi Jónasar Jónassonar, Jónasar Halldórssonar og Sveitahótelsins ehf. um starfsemi alifuglabús í Sveinbjarnargerði. Með bréfinu fylgir svar Skipulagsstofnunar við fyrirspurn Umhverfis- og auðlindaráðuneytis um afstöðu stofnunarinnar til þess hvort starfsemin samræmist Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020.
Anna Fr. Blöndal vék af fundi undir þessum lið. Bergþóra tók sæti hennar.
Í bréfinu er þess krafist að framkvæmdaaðilum alifuglabúsins í Sveinbjarnargerði verði gerð grein fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Þess er einnig krafist að starfsemi alifuglabúsins verði stöðvuð á grundvelli 34. gr. reglugerðar nr. 785/1999, sbr. 26. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 sbr. 73. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002. Að lokum er þess krafist að sveitarfélagið hlutist til um gerð deiliskipulags fyrir Sveinbjarnargerði.
Niðurstaða Skipulagsstofnunar hefur þegar verið kynnt eigendum Bjarnargerðis ehf. og Græneggs ehf. Skipulagsnefnd vill fara vel yfir málið að öðru leiti áður en afstaða er tekin, m.a. þau gögn sem bárust skömmu fyrir fund. Sveitarstóra falið að afla gagna frá Umhverfisráðuneyti. Afgreiðslu annarra liða er því frestað.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 21:00.