Skipulagsnefnd

34. fundur 05. desember 2013

Fundargerð
34. fundur skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, fimmtudaginn 5. desember 2013 kl. 07:00.

Fundinn sátu: Anna Fr. Blöndal formaður, Stefán H. Björgvinsson varaformaður, Sigurður Halldórsson 1. varamaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.
Fundargerð ritaði: Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1. 1311001 - Ósk um endurskoðun/breytingu á deiliskipulagi jarðarinnar Sunnuhlíð
Í bréfi frá 1. nóvember óskar Valtýr Hreiðarsson eftir breytingu á deiliskipulagi Sunnuhlíðar vegna áforma um uppbyggingu á ferðaþjónustu á jörðinni.
Skipulagsnefnd veitir umsækjanda umbeðna heimild til að láta vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Sunnuhlíðar með tilvísan til 39. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsnefnd bendir á að breyta þarf skilgreiningu svæðisins í Viðskipta og þjónustusvæði í aðalskipulagi sbr. gr. 4.3.2 - Landbúnaðarsvæði L1 í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020, þar sem ekki er búskapur á jörðinni og að taka þarf umrætt land úr landbúnaðarnotum áður en gerðar eru breytingar á skipulagi sbr. 7. grein Jarðalaga nr. 81/2004.

2. 1310004 - Ósk um afstöðu til umsóknar um byggingu frístundahúss í landi Austurhlíðar
Áður á dagskrá 33. fundar skipulagsnefndar þann 3. október 2013.
Í bókun nefndarinnar frá 33. fundi er vísað til reglu um fjarlægð frá sveitarfélagamörkum varðandi lagningu vegar að umræddri lóð. Engin slík regla er í gildi.
Skipulagnefnd harmar þá ónákvæmni sem gætti í bókun nefndarinnar á 33. fundi. Nefndin telur þó óheppilegt að vegur verði lagður að umræddri lóð jafn nærri landamerkjum, og þ.a.l. mörkum landnotkunarreita, og sýnt er á teikningunni sem fylgdi erindinu. Slík vegarlagning getur haft neikvæð áhrif á nýtingarmöguleika aðliggjandi svæðis. Nefndin ítrekar þá afstöðu sína að ekki sé hægt að fallast á aðkomu að umræddri lóð að norðan nema fyrir liggi samþykki eiganda Vaðlaborga B. Jafnframt þyrfti að leita eftir samningum við landeigendur og félag lóðarhafa í Kotabyggð, þar sem aðkoman væri óhjækvæmilega um vegi á því svæði einnig.

3. 1107010 - Deiliskipulag Kotabyggðar
Í bréfi frá 25. nóvember 2013 tilkynna Steinunn Fjóla Sigurðardóttir og Íris Bjargmundsdóttir, fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytis, um að fallist hafi verið á ósk Svalbarðsstrandarhrepps um undanþágu frá ákvæðum d-liðar gr. 5.3.2.5 í Skipulagsreglugerð, um fjarlægð húsa frá þjóðvegum og almennum vegum. Óskað var eftir undanþágunni í kjölfar ábendinga frá Skipulagsstofnun þegar deiliskipulag Kotabyggðar var sent henni til umsagnar skv. 1. mgr. 42. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010.
Lögð voru fram drög að samningi við Veigastaði ehf. um svæði utan lóðamarka sbr. ákvæði deiliskipulagsins.
Skipulagsnefnd mælist til að fyrri afgreiðsla deiliskipulags Kotabyggðar verði staðfest. Sveitarstjóra er falið að leita eftir áliti Skipulagsstofnunar á því hvort senda þurfi stofnuninni skipulagið til umsagnar að nýju skv. 1. mgr. 42. gr. Skipulagslaga, áður en gildistaka þess er auglýst.
Rætt um drög að samningi við Veigastaði ehf. Sveitarstjóra falið að leita eftir afstöðu viðsemjanda.

4. 1312001 - Ósk um afstöðu til skipulagsskyldu
Í bréfi frá 2. desember 2013 óskar Máni Guðmundsson eftir afstöðu skipulagsnefndar til þess hvort túnvegur, skv. meðfylgjandi teikningu er skipulags- og eða framkvæmdaleyfisskyldur.
Skipulagnsefnd telur að framkvæmdin sé það umfangsmikil og varanleg að hún sé framkvæmdaleyfisskyld og þurfi sem slík að byggja á skipulagi, sbr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
Skipulagsnefnd telur veginn æskilegan til að færa umferð landbúnaðartækja af þjóðvegum en bendir jafnframt á að æskilegt er að hugað sé að skipulagi íbúðarsvæðis ÍB15 sem vegurinn mun liggja um.
Sveitarstjóra er falið að gera umsækjanda grein fyrir afstöðu nefndarinnar og möguleikum varðandi skipulag og framkvæmdaleyfi.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:00.