Svalbarðsstrandarhreppur fékk nú í desember afhent iðnaðarhús í Borgartúni. Kaupin eru hluti af heildstæðri framtíðarsýn um betri nýtingu húsnæðis og markvissa uppbyggingu þjónustu sveitarfélagsins.
Áætlað er að áhaldahús sveitarfélagsins flytji í húsið á árinu 2026 og að starfsemi vinnuskólans verði þar til húsa. Á næstu misserum verður unnið að hönnun og skipulagi húsnæðisins með það að markmiði að þar verði jafnframt rými fyrir skrifstofur sveitarfélagsins til framtíðar.
Með þessum flutningum skapast ný og dýrmæt tækifæri til að endurskipuleggja annað húsnæði sveitarfélagsins. Sérstaklega mun þetta hafa jákvæð áhrif á leik- og grunnskóla Svalbarðsstrandarhrepps, þar sem nú er unnið að stækkun og breytingum á húsnæði þeirra. Með því að færa aðra starfsemi til verður mögulegt að rýma og endurskipuleggja húsnæði skólanna í tengslum við þessar framkvæmdir.
Í kjölfar flutnings áhaldahússins er stefnt að því að selja húsnæði að Svalbarðseyrarvegi 6 á nýju ári. Með því skapast tækifæri til frekari hagræðingar og markvissrar nýtingar eigna sveitarfélagsins.
Heildarniðurstaðan er aukinn sveigjanleiki í húsnæðismálum, betri nýting fjármuna og sterkari innviðir sem munu nýtast íbúum Svalbarðsstrandarhrepps vel til framtíðar.

Rakel og Hulda Þorgilsdætur afhenda Þórunni Sif Harðardóttur sveitarstjóra lykilana.

Svalbarðsstrandarhreppur - Ráðhúsinu Svalbarðseyri, 606 Akureyri
Kennitala: 640269-2279 - Bankareikn.: 0162-26-075801