Álfaborg - Leikskólalóð

Á næstu dögum verður hafist handa við að koma upp nýjum kastala en fyrri kastali var tekinn niður sumarið 2020 eftir 25 ára þjónustu við nemendur leikskólans.

Nýi kastalinn er engin smá smíði eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og Garðvík Verktakar munu sjá um uppsetningu kastalans. Undirverktaki er Ísrefur. Fyrirtækið Skútaberg ehf. styður við framkvæmdina með efni og sendum við þeim okkar bestu þakkir fyrir hjálpina.

Garðvík er staðsett á Húsavík en vinnur víða á Norðurlandi og hefur tilskilin leyfi til að setja upp leiktæki eins og kastalann. Gert er ráð fyrir verklokum í lok ágúst. Meistari verksins er Birgir Axelsson skrúðgarðyrkjumeistari og ábyrgðarmaður Guðmundur Vilhjálmsson byggingastjóri. Vel er hugað að öllum öryggisatriðum og fallvörnum við uppsetningu leiktækisins.

Nýr kastali kemur til með að standa í austur hluta leikskólalóðar. Skólalóðin á eftir að fá nýtt yfirbragð og nýtast vonandi enn betur með nýrri staðsetningu kastalans. Sleðabrekka verður bætt, ný girðing sett við vestasta hluta skólalóðar eldri nemenda, settur verður upp torfsetkantur við útikastalann auk þess sem bekkir verða settir upp milli kastala og leikskóla sem nýtast bæði sem tröppur og áheyrendapallar. Anna Margrét Sigurðardóttir, hjá Landslag hannaði svæðið og vann hönnunina í samstarfi við starfsmenn Álfaborgar. Við búum svo vel að sonur Önnu Margrétar er nemandi á leikskólanum og gott að hafa foreldri með okkur í þessari vinnu.

Sumarið 2020 var ungbarnasvæðið endurnýjað eftir hönnun Önju Möller og gert er ráð fyrir að síðasti hluti útisvæðis leikskólans verði lagfært sumarið 2022 en þá er það hjólabraut sem liggur meðfram og fyrir ofan sandkassa sem þarf að endurnýja.

Miklar endurbætur hafa verið unnar bæði innan- og utandyra á Álfaborg síðustu misseri og vonandi gefst nemendum og starfsmönnum tækifæri til að taka á móti íbúum og sýna þeim þær breytingar sem orðið hafa á aðstöðunni. Við fáum vonandi heimboð frá nemendum og starfmönnum um leið og COVID leyfir.

 

 

Með kveðju
Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps