Byggjum á góðum grunni til framtíðar

Nýtt ár er gengið í garð og vil ég byrja á að óska öllum íbúum Svalbarðsstrandarhrepps gleðilegs árs með þökk fyrir árið sem er liðið.

Undirrituð tók við starfi sveitarstjóra á haustdögum 2022, og þakka ég góðar móttökur og ánægjuleg samskipti á liðnu ári.

Ný sveitarstjórn tók við að loknum kosningum síðast liðið vor, það hefur verið ánægjulegt að vinna með því öfluga fólki sem situr í sveitarstjórn og í nefndum sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn hefur samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2024 til 2026.

Rekstur er góður, afkoma samstæðu sveitarfélagsins jákvæð á árinu 2022. Áætlun næsta árs gerir ráð fyrir tekjuafgangi upp á 17,6 m.kr. af rekstri A-hluta og af samstæðu sveitarfélagsins (A+B) er áætlaður tekjuafgangur upp á 11,1 m.kr. Efnahagur er áfram sterkur.

Á árinu 2022 var lokið við byggingu á tveimur parhúsum á vegum sveitarfélagsins, íbúðirnar seldust allar og voru afhentar á vordögum. Eftirspurn er eftir íbúðum sem er ánægjulegt og er það mín sannfæring að hér verði áframhaldandi uppbygging næstu árin. Lokið var við malbikun á Borgar-, Tjarnar- og Bakkatúni sem gerir ásýnd gatnanna ekki aðeins fallegri og snyrtilegri heldur bætir lífsgæði íbúa og annarra sem um göturnar fara. Búið er að koma fyrir ljósastaurum við göturnar og er stefna sveitarfélagsins að innleiða Led lýsingu í ljóskúpla til framtíðar.

Göngu- og hjólastígur í Vaðlareit er tilbúinn fyrir malbikun. Í desember keypti sveitarfélagið rúmlega helmings hlut í Svalbarðseyrarvegi 6, er áætlað að nýta húsnæðið sem áhaldahús sveitarfélagsins.

Helstu framkvæmdir sem áætlaðar eru á árinu 2023 er áframhaldandi hönnun og uppbygging gatna í Valsárhverfi, malbikun á göngu- og hjólastíg í Vaðlareit auk vinnu við áningarstaði og lýsingu á stígnum og ljúka framkvæmdum á leikskólalóð.

Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri og þjónustu sveitarfélagsins á árinu 2023. Gjaldskrárhækkanir eru aðeins mismunandi miðað við verðlagshækkanir. Frístundastyrkur til barna- og ungmenna var hækkaður og verður 55.000,- og frístundastyrkur til eldri borgara verður 15.000,- Gjalddagar vegna fasteignagjalda verða tíu í stað átta.

Bjartsýni er lykill að velgengni og það er það sem ég finn hjá sveitarstjórn og íbúum sveitarfélagsins, við viljum laða nýja íbúa til okkar og halda áfram að byggja upp gott samfélag.

Bestu kveðjur

Þórunn Sif Harðardóttir

sveitarstjóri