Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í skólum Svalbarðsstrandarhrepps í blíðskaparveðri.

Í ár er vakin athygli á þeim breytingum sem eru að verða og hafa orðið á íslenskunni vegna enskra áhrifa. Skoðað er hvernig þær breytingar birtast okkur vítt og breitt í samfélaginu, á samfélagsmiðlum og jafnvel í opinberri umræðu.

Börn og kennarar í Álfaborg komu saman í söngsal og sungu nokkur íslensk lög, þar var einnig sungið fyrir Lubba sem átti 2. ára afmæli þennan dag. (Lubbi finnur málbein)

Í Valsárskóla var haldið upp á daginn með því að gleðjast og fagna sögu íslenskrar tungu. Nánar má lesa um hátíðarhöldin á heimasíðu skólans.

Saga dagsins.

Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því fór mennta- og menningarmálaráðuneytið að beita sér árlega fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur sinnt því hlutverki frá árinu 2021.

Með þessu átaki beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu. Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Menningar- og viðskiptaráðherra afhendir verðlaunin nú árlega á degi íslenskrar tungu.

Í ár hlaut Áslaug Agnarsdóttir þýðandi verðlaun fyrir þýðingar sínar úr rússnesku og úkraínsku. Sérstaka viðurkenningu hlaut verkefnið Menningin gefur sem Elsa G. Björnsdóttir, túlkur, leikkona og ljóðskáld og Anna Valdís Kro táknmálsfræðingur eru í forsvari fyrir. Nánar má lesa um rökstuðning nefndarinnar á heimasíðu Stjórnarráðs Íslands.

Á heimasíðu Stjórnarráðsins má auk þess finna fleiri áhugaverðar upplýsingar um daginn.