Nýárspistill sveitarstjóra

Nýárspistill sveitarstjóra

Hér fylgir síðbúin nýárskveðja sveitarstjóra með upptalningu á þeim fjölmörgu verkefnum sem unnið hefur verið að á skrifstofu Svalbarðsstrandarhrepps síðustu tvö árin. Gárungar hafa verið að benda mér á að réttast væri að kalla þetta Þorrapistil en við höldum okkur við það sem í upphafi var farið af stað með.

Vonandi gefur þessi pistill ykkur góða mynd af þeim verkefnum sem við höfum verið að vinna að og erum að vinna að, daglegt líf á skrifstofunni einkennist af fundahöldum og stjórnsýslu og ég legg það nú ekki á lesendur að telja upp allt það sem þar gengur á í þeim málum en hér fáið þið yfirsýn yfir framkvæmdir og stærri verkefni.

Starf sveitarstjóra er mjög fjölbreytt og verkefnin áhugaverð eins og sést á upptalningunni sem fylgir. Næstu misseri bíða fjölmörg verkefni, haldið verður áfram uppbyggingu Valsárhverfis, umhverfi skóla lagfært og svo bíður okkar vorið með nýjum starfsmönnum Vinnuskóla og vonandi góðu sumri.

COVID hefur sett mikinn svip á síðustu misseri en nú styttist vonandi í að bólusetningar nái til okkar og lífið komist vonandi í samt lag aftur. Við höfum þurft að loka hreppsskrifstofunni þegar reglur hafa verið hvað strangastar en þess á milli er opið og íbúar duglegir að kíkja við, hvort sem sótt er í kaffisopann eða aðstoð og þjónustu. Vonandi getum við farið að hittast í stærri hópum og bæði kvenfélagið og ungmennafélagið eru byrjuð að huga að hátíðarhöldum sumarsins.

Fyrir rétt um ári síðan vorum við að heyra í fyrsta skipti orðið COVID, við eignuðumst þríeykið og erum að verða sérfræðingar í samkomutakmörkunum og smitvörnum, fundum í gegnum net og tölvu og erum ekkert að fara að óþörfu – og alls ekki erlendis. Að ári verðum við vonandi komin á betri stað, getum ferðast eins og hugurinn leyfir, hist og notið samvista með vinum og vandamönnum og gert allt það sem okkur þótti eðlilegt að gera áður en þessi veira tók yfir líf okkar.

Í næstu viku er öskudagurinn og foreldrar og börn á Svalbarðsströnd sýna í verki hversu úrræðagóð við getum verið á tímum takmarkana. Börn fara um sveitir í stað þess að fara í búðir á Akureyri, íbúar í þéttbýlinu undirbúa sig fyrir að taka á móti syngjandi glöðum krökkum og bíða heima með fangið fullt af sælgæti og svo verður slegið upp balli í lok dags. Það er með öskudaginn eins og annað – þetta reddast ef við vinnum vel saman og lögum okkur að breyttum aðstæðum.