Framkvæmdir í vaðlareit

Um leið og íbúum og gestum sem eiga leið um Vaðlareit er þökkuð þolinmæði á meðan á framkvæmdum stendur er rétt að deila framgangi verksins með lesendum.

Nú er lokið við að grafa vegkassa og á næstu dögum verður lokið við að grafa lagnaskurðinn alla stíg-leiðina. Búið er að losa þann jarðveg sem keyra þarf úr skóginum að Sigluvík. Bifreiðareigendur geta þá vonandi glaðst yfir að minna verður um óhreinindi á veginum. Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur lokið við grisjun trjáa og nú þegar hafa kaldavatnslagnir verið lagðar um 1.000 metra inn í skóginn.

Á næstu dögum mun Veigastaðavegur verða þveraður. Á meðan á þeirri framkvæmd stendur verður veginum lokað og vegfarendur nýta sér syðri leiðina út úr hverfinu. Við biðjum íbúa og gesti um að sýna framkvæmdinni skilning og þolinmæði og gerum ráð fyrir að lokun vegar standi í þrjá – fjóra daga.

Verktaki er með 10 -15 menn í vinnu á verkstað auk þriggja starfsmanna SET ehf. sem sjá um suðu vatnsröra. Verkinu hefur miðað vel áfram enda tíð verið okkur hagstæð og vonandi verður svo áfram. Gert er ráð fyrir að lagnir verði komnar á sinn stað í lok árs.

Hér má sjá nokkrar myndir

Með kærri kveðju
Björg Erlingsdóttir
Sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps