Framkvæmdir við varnargarð á Svalbarðseyri.

Eins og íbúar Svalbarðsstrandarhrepps og aðrir sem lagt hafa leið sína á Svalbarðseyri hafa tekið eftir standa yfir miklar framkvæmdir við lagfæringu sjóvarnargarðs. Framkvæmdir hafa dregist en vonandi næst að klára verkið á næstu vikum. Gert var ráð fyrir að verkinu myndi ljúka í lok mars en frestaðist vegna slyss sem varð í grjótnámu þaðan sem efni í varnargarðinn var sótt. Þegar seinkun verður á afhendingu efnis eins og gerðist í þessu tilfelli fer af stað keðjuverkun þar sem verktakar geta ekki unnið á meðan efni skortir. Verktaki er með önnur verkefni skipulögð í framhaldi af þessu verki og því bæði tækjum og mönnum ráðstafað fram í tímann. Í lok apríl var loks tilbúið efni úr annarri námu og mannskapur og vélar losuð til þess að klára verkið á Svalbarðseyri. Á sama tíma hefur svæðið liðið fyrir að framkvæmdum er ekki lokið og eðlilega hafa íbúar haft áhyggjur af gangi mála. Nú sér fyrir endann á þessari framkvæmd, varnargarðurinn hefur verið lengdur til suðurs og er ástæða lengingar flóðahætta og hætta á landbroti af ágangi sjávar. Áfram verður tryggt aðgengi að fjörunni fyrir framan Jaskó og skarð var gert í varnargarðinn fyrir framan bátaskýlið við Borgartún og aðgengi að fjörunni þar bætt.

 

Í óveðri sem skall á í nóvember 2019 og aftur eftir áramótin 2020 fór varnargarðurinn illa, sérstaklega í næsta nágrenni Vitans auk þess sem skemmdir urðu á varnargarðinum bæði við Vitann og Tungutjörn. Í byrjun mars var sagt frá framkvæmdum við varnargarð á Svalbarðseyri á heimasíðu hreppsins og gert var ráð fyrir að framkvæmdum myndi ljúka í viku 11, 7.-11. mars en miklar breytingar hafa orðið þar á eins og farið var yfir hér að framan.

Sjóvarnargarðurinn lét undan í veðurhamnum í nóvember og bregðast þurfti snöggt við þegar garðurinn við Tungutjörn rofnaði. Mikið mæddi á varnargarðinum alla leið frá Tungutjörn og að höfninni og ljóst að veðrið veikti varnargarðinn verulega eins og farið var yfir hér að framan. Fulltrúar Vegagerðarinnar fóru yfir skemmdir og staðkunnugur heimamaður var þeim innan handar þegar ummerki voru skoðuð eftir hamfaraveðrið.

 

Svona framkvæmdir reyna á þolinmæði manna en vonandi sýna íbúar því skilning að laga þurfti varnargarðinn eftir miklar skemmdir og að garðurinn sé lengdur til þess að verjast flóðahættu og landbroti og þá er horft til lengri tíma. Framkvæmdir byggja á spám um þróun landhæðar og stöðu sjávar og lagfæringar á varnargarði ná niður í undirstöður varnargarðsins og ekki eingöngu yfirborðs.

 

Þegar framkvæmdum við hleðslu varnargarðsins verður lokið verður efni borið í veginn meðfram tjörninni við Vitann, svæði fyrir vestan Vitann hellulagt og bekkir settir upp. Öllum lagfæringum í umhverfi Vitans var frestað þar til viðgerðum varnargarðsins er lokið enda mikið rask sem verður við þessa framkvæmd. Vitinn og gönguleiðin meðfram tjörninni verður aftur aðgengileg íbúum og gestum þegar framkvæmdum lýkur en á meðan á framkvæmdum stendur eru íbúar og gestir beðnir um að sýna því skilning að um vinnusvæði er að ræða.

 

Samkvæmt hafnarlögum nr. 61/2003 og lögum um sjóvarnir nr. 28/1997 vinnur Vegagerðin tillögu að áætlun um hafnarframkvæmdir og sjóvarnir með kostnaðarþátttöku ríkissjóðs. Vegagerðin skoðar allar ábendingar og óskir sem berast frá sveitarfélögum um mannvirkið eða önnur verðmæti sem eru í hættu af völdum sjávarflóða og landbrots, leggur mat á framkvæmdir og kostnað og forgangsraðar verkefnum.

 

Framkvæmdir við sjóvarnir eru á ábyrgð Vegagerðarinnar en sveitarfélagið tekur þátt í kostnaði og er þátttaka hreppsins í kostnaði 1/8. Vegagerðin vann útboðið og auglýsti eftir tilboðum í styrkingu og lengingu á sjóvörnum á Svalbarðsströnd í júní 2021. Venjulega tekur þetta ferli nokkur ár, umsókn til Vegagerðarinnar, að framkvæmd sé sett á samgönguáætlun, útboð sé unnið og samningar við verktaka kláraðir. Það er til marks um alvöru máls og þær skemmdir/veikingu sem urðu á varnargarðinum, hversu hratt Vegagerðin vann alla undirbúningsvinnu og lauk samningum við verktaka, Nesbræður á haustmánuðum 2021.

 

Vegagerðin miðar framkvæmdina við upplýsingar um sjárvarhæð og innbyrðis afstöðu lands og sjávar. Þessar upplýsingar eru notaðar til þess að setja viðmiðunarreglur til ákvörðunar á lágmarkslandhæð á byggðum svæðum upp við ströndina. Nýjar upplýsingar, mælingar og úrvinnsla eru sífellt að koma fram og veðurhamurinn sem gekk yfir Eyjafjarðarsvæðið í nóvember 2019 og aftur í febrúar 2020 þegar ein versta óveðurslægð síðustu ára gekk yfir landið er veðurofsi sem varnargarður þarf að standast. Framkvæmdir við lagfæringar varnargarðsins sem fram fara þessa dagana miða við þennan útgangspunkt enda ljóst að þó garðurinn hafi haldið veiktist hann til muna og þarf að standast áhlaup veðurs í framtíðinni.

 

Varnargarðurinn fyrir framan Kjarnafæði hefur einnig látið á sjá og sigið og verður hann lagfærður þegar vinnu við hleðslu garðsins við Vitann lýkur.

 

Með kveðju

Björg Erlingsdóttir

Sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps