Göngu- og hjólreiðarstígur í Vaðlareit

Á síðasta fundi sveitarstjórnar sem haldinn var mánudaginn 20. september samþykkti sveitarstjórn framkvæmdaleyfi vegna fellingar trjáa, lagningar lagna og lagningar göngu- og hjólastígs í gegnum Vaðlareit, frá Vaðlaheiðargöngum og að Skógarböðum. Á sama fundi samþykkti sveitarstjórn samninga sem gerðir hafa verið við landeigendur Halllands, Veigastaða og Ytri Varðgjár auk samnings við Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Undirbúningur að lagningu göngu- og hjólastígs um sveitarfélagið hefur verið í undirbúningi undanfarin ár en skriður komst á þegar landeigendur Ytri Varðgjár ákváðu að byggja upp Skógarböð, baðstað í landi Ytri Varðgjár sem nýtir heita vatnið sem rennur óbeislað í Eyjafjörðinn. Verkefnið er metnaðarfullt og Norðurorka tilbúin til þess að hefja lagningu á leiðslum og flutningi vatns frá Vaðlaheiðargöngum og að baðstaðnum. Jafnframt verða lagðar lagnir sem koma til með að flytja kalt vatn frá Vaðlaheiðargöngum til Akureyrar.

Við gerð vaðlaheiðargangna kom í ljós óbeislað kalt vatn í miklu magni varð það mikið happ fyrir íbúa svæðisins.

Vatnstökustaðurinn í Vaðlaheiði er í heppilegri hæð, halli er frá vatnstökustaðnum að helsta þéttbýliskjarnanum á svæðinu. Litið er á kalda vatnið í Vaðlaheiðargöngum sem framtíðar neysluvatn fyrir íbúa svæðisins. Auk þess nýtist vatnið til kælingar á rafmagnsbúnaði í göngunum og er leitt í brunahana í útskotum.

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps hafði áður ákveðið að hefja vinnu við hönnun stígs milli Vaðlaheiðarganga og Svalbarðseyrar sem og Svalbarðseyrar og Víkurskarðs. Þessu verkefni var slegið á frest og áhersla lögð á að nýta það tækifæri sem skapast með lagningu lagna fyrir heitt og kalt vatn og tryggja að þessar framkvæmdir verði hluti af göngu- og hjólastíg. Stýrihópur var stofnaður og sátu fulltrúar Svalbarðsstrandarhrepps, Eyjafjarðarsveitar, Akureyrarbæjar, Norðurorku og Vegagerðar í hópnum auk starfsmanna VERKÍS og Landslags sem sjá um hönnun og áætlanagerð fyrir þessa stóru framkvæmd. Á meðfylgjandi mynd má sjá legu stígsins í gegnum Vaðlareitinn.

Sótt verður um styrk til Vegagerðar vegna kostnaðar við lagningu stígsins og gert ráð fyrir að hann sé um 3 metra breiður með öryggissvæði beggja vegna.

Framkvæmdir hefjast í viku 40. Skógræktarfélag Eyfirðinga mun þá hefja grisjun skógar og er gert ráð fyrir að sú vinna taki á fjórðu viku. Næstkomandi fimmtudag, 30. september kl. 11:00 rennur út tilboðsfrestur sem verktakar hafa til að skila inn tilboðum í vinnuna sem framundan er. Gert er ráð fyrir að Skógarböð opni með viðhöfn í byrjun febrúar 2022 þal verður allt kapp lagt á að klára lagningu lagna fyrir þann tíma. Gert er ráð fyrir að gengið verði frá yfirborði stígsins haustið 2022.

 

Næstu vikur setjum við á heimasíðu hreppsins myndir frá framkvæmdum og fréttir af gangi mála.

 

Með kveðju

Björg Erlingsdóttir

Sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps