Afgreiðsla athugasemda við auglýsta tillögu að deiliskipulagi Kotabyggðar í Svalbarðsstrandarhreppi.

Á 30. fundi Skipulagsnefndar Svalbarðsstrandarhrepps þann 19. ágúst 2013 var fjallað um athugasemdir þær sem bárust við tillögu að deiliskipulagi Kotabyggðar sem auglýst var með athugasemdafresti til 19. júní 2013.

Bókun skipulagsnefndar var svohljóðandi:

1107010 Deiliskipulag Kotabyggðar
Tekið fyrir að nýju. Tillaga að deiliskipulagi Kotabyggðar, íbúða- og frístundabyggðar, var auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með athugasemdafresti til 19. júní 2013. Fjórar athugasemdir bárust; frá JP lögmönnum, Félagi lóðarhafa í Kotabyggð, Guðrúnu H. Þorkelsdóttur og Köllu Malmquist.
Nokkur atriði athugasemdanna gáfu tilefni til minni háttar leiðréttinga og breytinga á skipulagsuppdrætti og greinargerð. Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á greinargerð eftir auglýsingu á deiliskipulagstillögu:

 1. Bætt er við umfjöllun um opin svæði á kafla 4.13 er hann hér eftir nefndur Opin svæði og leiksvæði.
 2. Í lok kafla 2 Forsendur er bætt við eftirfarandi texta: "Þau hús sem eru fyrir á skipulagssvæðinu þegar deiliskipulagið er samþykkt, halda stöðu sinni sem frístundahús. Deiliskipulagi fylgir ekki framkvæmdaskylda. Kjósi lóðarhafi að breyta frístundahúsi sínu í íbúðarhús, skal það uppfylla allar kröfur sem um íbúðarhús gilda. Óheimilt er skrá lögheimili í frístundahúsi."
 3. Í kafla 2 Forsendur, er í 4. tölulið upptalningar á breytingum á deiliskipulagi sem samþykkt var í sveitarstjórn 10.01.2006, færð inn leiðrétting á lóðarnúmeri úr 53 í 48.
 4. Í kafla 2 Forsendur er sett inn málsgrein um skiptingu svæðisins í annars vegar íbúðabyggð og hins vegar frístundarbyggð.
 5. Bætt er við eftirfarandi texta um hæðarsetningu vega aftast í kafla 4.11: "Við hæðasetningu vega skal tekið tillit til hæðamismunar og aðkomu að þegar byggðum húsum eftir því sem kostur er.
 6. Bætt er við eftirfarandi texta um akfæran göngustíg aftast í kafla 4.12: "Leiðin meðfram lóðum 6 og 12 að sunnanverðu er skilgreind sem akfær göngustígur. Gert er ráð fyrir að stígurinn sé lokaður fyrir umferð vélknúinna ökutækja nema sérstakar aðstæður krefjist þess að ekið sé um hann, s.s. vegna neyðarflutninga eða ef aðrar leiðir eru ófærar".
 7. Auk þess eru í greinargerðinni gerðar orðalagsbreytingar og aukið við texta til þess að skýra og rökstyðja ákvæði nánar. Bætt er við umfjöllun um skráðan minjastað í kafla 2.3 Fornminjar.

Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á uppdrætti eftir auglýsingu á deiliskipulagstillögu:

 1. Leiksvæði litað grænt, þ.e.a.s. með sama lit og opin svæði.
 2. Snjóruðningssvæði austan við lóð nr. 5 er minnkað til austurs til þess að koma í veg fyrir að snjó sé rutt ofaní læk við svæðið.
 3. Lóðarmörk lóðar nr. 6 eru leiðrétt þannig að áfram sé heimilaður útafakstur frá Veigastaðavegi nr. 828 að lóðum nr. 6 og 10. Skilgreind eru almenn bílastæði á opnu svæði á milli lóðanna.
 4. Skilgreiningu á vegi sem liggur á milli lóða nr; 1, 5, 6, 7 og 12 er breytt þannig að sá hluti hans sem liggur vestan við lóðarmörk lóða nr. 5 og 6 er skilgreindur sem akfær göngustígur.
 5. Á suðvestur horni lóðar nr. 7 er gert ráð fyrir þremur almennum bílastæðum.

Auk þess er bætt inná uppdrátt einni skráningu Fornleifastofnunar Íslands frá 2005 um örnefni.
Breytingarnir eiga ekki við meginatriði skipulagstillögunnar og stangast hvorki á við stefnu sveitarfélagsins né ákvæði aðalskipulags. Ekki er þörf á að auglýsa tillögun að nýju sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr 123/2010. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan svo breytt verði samþykkt sbr. 41. gr. skipulagslaga og send Skipulagsstofnun til yfirferðar sbr. 42. gr. laganna. Niðurstaða sveitarstjórnar verði auglýst. Jafnframt verði þeim sem athugasemdir gerðu send umsögn og afgreiðsla þeirra.

Eftirfarandi er afgreiðsla Skipulagsnefndar á athugasemdum þeim sem bárust. Númer athugasemda vísa til númera í fylgiskjali með fundargerð Skipulagsnefndar:

1. JP Lögmenn, Óskar Sigurðsson hrl. fyrir hönd BB bygginga ehf.

1.1 Lýst er undrun á að málsmeðferð hafi tekið mið af hagsmunum landeigenda án tillits til hagsmuna lóðarhafa en skipulagsvinnan hafi verið á ábyrgð og kostnað sveitarfélagsins. Með því hafi almenn jafnræðisákvæði verið brotin.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Frumkvæði að gerð deiliskipulagsins kom frá stjórn félags leigutaka í Kotabyggð – Kotungafélaginu, sem litið hefur verið á sem fulltrúa lóðarhafa í undirbúningi skipulagsins. Vísað er til bókunar stjórnar Kotungafélagsins frá 17. júní 2011, sem send var landeigendum og Svalbarðsstrandarhreppi. Deiliskipulagið var unnið á kostnað landeigenda, að fengnu samþykki sveitarstjórnar og í samvinnu við skipulagsnefnd sveitarfélagsins, sem ber skv. lögum ábyrgð á gerð og framlagningu þess, samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins um skipulagningu lands í einkaeigu.
Á kynningarfundi um vinnu við skipulagið í apríl 2012, þar sem deiliskipulagstillagan lá fyrir í öllum megin dráttum, var sérstaklega óskað eftir að lóðarhafar kæmu óskum sínum og athugasemdum á framfæri við sveitarstjórn. Skipulagsnefnd og sveitarstjórn hafa lagt sig fram um að gæta hagsmuna núverandi og framtíðar lóðarhafa.

1.2 Athygli er vakin á því að skipting milli frístundabyggðar og íbúðarhúsabyggðar er ekki í samræmi við texta og uppdrætti skipulagstillögunnar. Vísað er til „meginreglu um íbúðarbyggð neðan Vaðlaheiðarvegar og Veigastaðavegar og neðan 140 m hæðarlínu en frístundahúsabyggð ofar í hlíðinni þannig að slíkar byggingar blandist ekki.“ Í skipulaginu sé hins vegar gert ráð fyrir frístundasvæði neðan 100 m hæðarlínu en íbúðarsvæði ofar. Gætir þar verulegs ósamræmis.
Á bls. 5 er sagt að frístundabyggð verði ofar í hlíðinni en íbúðarbyggð neðar. Á uppdrætti er það öfugt.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Við ákvörðun um skilgreiningu lóða sem frístundalóðir eða íbúðarhúsalóðir í tillögum að deiliskipulagi Kotabyggðar var haft að leiðarljósi að íbúðarhúsalóðir myndu verða eftir því sem kostur væri í samræmi við önnur skipulögð íbúðarsvæði í grennd skipulagssvæðis, þ.e. Íb 10 og Íb 19 (merking í aðalskipulagi). Einnig að þegar byggð frístundahús, sem eru á tiltölulega litlum lóðum, mynduðu samfellda heild. Frekari þróun yfir í íbúðabyggð verður gerð með formlegum breytingum á deiliskipulagi svæðisins. Bætt verður inn í greinargerð deiliskipulagsins ítarlegri rökstuðningi um skiptingu svæðisins í annars vegar íbúðabyggð og hins vegar frístundabyggð samkv. heimild í aðalskipulagi.
Í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 er gerð grein fyrir umbreytingu Kotabyggðar í íbúðarbyggð á skýran og auðskiljanlegan hátt. Þar er tekið fram að „Skilgreining Kotabyggðar sem íbúðarbyggð er stefna sveitarstjórnar, sem unnið verður að á löngum tíma. Í deiliskipulagi verður heimilt að gera ráð fyrir frístundabyggð á einstaka lóðum eða svæðum innan landnotkunarreitsins þótt stefnt sé að því að í fyllingu tímans verði íbúðarbyggð meginlandnotkun á reitnum. Þar sem um er að ræða aðlögun á eldra skipulagi gera verið frávik frá almennum viðmiðum um stærð lóða og þéttleika byggðar“. Í þessu felst stefna sveitarfélagsins um svæðið til langs tíma, þ.e. að meginlandnotkun í Kotabyggð verði íbúðarbyggð. Innan landnotkunarreitsins getur rúmast önnur starfsemi, t.d. frístundahús, ef meginlandnotkun verður í samræmi við stefnu sveitarfélagsins. Því er ekki um að ræða ósamræmi milli deiliskipulags og aðalskipulags þótt gert sé ráð fyrir frístundalóðum á skipulagssvæðinu. Skilgreining einstakra lóða er viðfangsefni deiliskipulags en ekki aðalskipulags. Í athugasemdinni er blandað saman meginmarkmiði sveitarstjórnar til framtíðar um byggðir ofan og neðan Veigastaðavegar og Vaðlaheiðarvegar annars vegar og deiliskipulagi Kotabyggðar hins vegar, sem mótast óhjákvæmilega af þeirri byggð sem fyrir er. Breyting hverfisins úr frístundabyggð í íbúðarbyggð í áföngum er liður í að raungera þá meginstefnu sem vísað er til í athugasemdinni. Áfangaskipting innan hverfisins ræðst af öðrum þáttum en hæð í landi, s.s. hvort byggt hefur verið á viðkomandi lóð og óskum lóðarhafa þegar byggðra lóða. Í aðalskipulagi er gerð grein fyrir möguleika á frávikum í Kotabyggð frá meginreglu um skil milli íbúðarbyggðar og frístundabyggðar.

1.3 Gerð er athugasemd við að tillaga á útfærslu á kvöðum um réttindi og skyldur lóðarhafa hafi ekki verið kynntar lóðarhöfum og uppfylli auglýsingin því ekki skilyrði laga nr. 123/2010 um málsmeðferð í heild sinni og sé í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélaginu beri að kynna útfærslu að kvöðum um réttindi og skyldur lóðarhafa samhliða tillögum að breyttu skipulagi og tryggja að hver og einn lóðarhafi sé upplýstur um réttarstöðu sína.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Í kafla 4.1 í greinargerð er kveðið á um rekstrarfélag og aðild að því. Skilmálar sölu- og leigusamninga og reglur rekstrarfélags eru ekki hluti deiliskipulagsins. Í lóðarleigusamningi er kveðið á um skylduaðild lóðarleiguhafa að félagi leigutaka á svæðinu. Gert er ráð fyrir sambærilegum kvöðum í framtíðar leigusamningum og sölusamningum lóða.
Um kynningu og auglýsingu skipulagstillagna og skipulags gilda ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvæði stjórnsýslulaga eiga ekki við. Auglýsingar samkvæmt skipulagslögum eru almennar. Einstökum hagsmunaaðilum eru ekki sendar tilkynningar um auglýstar tillögur sérstaklega.

1.4 Ekki liggur fyrir uppdráttur meðfylgjandi breytingum sem samþykktar voru í júlí 2007. Erfitt er því að átta sig á breytingunum.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Uppdráttur og greinargerð skipulagsbreytingar sem gerð var í júlí 2007 eru aðgengilegur á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar. Þar sem um heildarendurskoðun skipulagsins er að ræða er eldra deiliskipulag fellt úr gildi samhliða gildistöku þess. Almennar reglur um framsetningu skipulagsbreytinga eiga því ekki við. Engu að síður er í auglýstu deiliskipulagi ítarlega gerð grein fyrir breytingum frá gildandi deiliskipulagi í inngangi en gildandi deiliskipulagsuppdráttur ekki birtur.

1.5 Með tilkomu sorpgeymslusvæðis og leiksvæðis skerðast verðmæti lóða nr. 44 og 49. Bréfritari telur það vera ólögmætar breytingar.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Aðgengilegt sorpgeymslusvæði skiptir máli fyrir alla byggðina. Setja verður almannahagsmuni framar hagsmunum einstakra aðila í slíkum tilvikum. Gera verður ráð fyrir að sú hugsanlega verðmætarýrnun sem vísað er til í athugasemdinni vegist upp af þeirri verðmætaaukningu sem felst í skilgreiningu umræddra lóða sem íbúðarhúsalóða. Að auki má líta svo á að lóð 44 verði verðmætari vegna nálægðar við leiksvæði.
Að öllum líkindum verða lóðaréttindi BB bygginga almennt séð mun verðmeiri miðað við ákvæði nýs deiliskipulags en þau eru nú.

1.6 Í tillögunni hefur lóð nr. 53 verið felld út. Kaupsamningur um forkaupsrétt á lóðum 49-53 liggur fyrir, fullgreiddur, og er því verðminni nú með brottfalli lóðar.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Lóð nr. 53 hefur aldrei verið til í skipulagsáætlunum sveitarfélagsins og hefur því ekki verið felld út. Hið sama gildir um lóðir 49-52 sem verða til í nýju skipulagi. Ákvæði í sölusamningum, sem byggjast á væntingum og hugsanlegum skipulagsbreytingum, eru ekki forsendur deiliskipulagsgerðar.

1.7 Ákvæði um að byggingar skuli uppfylla skilmála íbúðarhúsa hefur í för með sér alvarlegar vanefndir á samningi um byggingarréttindi á viðkomandi lóðum. Með samningnum fylgja samþykktar teikningar að frístundahúsi áþekku því sem reist hefur verið á lóð nr. 46. Sjá einnig 1.6.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Einungis liggja fyrir samþykktar teikningar af húsi á lóð nr. 46. Engar aðalteikningar hafa verið samþykktar á lóðum nr. 44, 45, 47 og 48 og því geta samþykktar teikningar ekki hafa legið fyrir þegar umræddur samningur var gerður. Núverandi lóðarhafi hefur lagt fram aðrar teikningar en þær sem fylgdu samningi hans við fyrri eiganda með umsókn um byggingarleyfi.
Áréttað skal að samningar á milli landeigenda og lóðarhafa binda hvorki hendur sveitarfélagsins við gerð skipulags né hafa í för með sér skyldu til að laga skipulag að ákvæðum viðkomandi samninga. Sjá einnig svar í lið 1.8.

1.8 Bent er á að BB byggingar hafi ekki fengið útgefið byggingarleyfi í samræmi við samþykkt deiliskipulag árum saman.

Mótmælt er íþyngjandi kvöðum sem felast í breytingu frá því skipulagi, sem í gildi var þegar lóðarhafi keypti umrædd lóðarréttindi. Efast er um lögmæti breytingarinnar. Krafist er að sveitarfélagið láti af löglausum athöfnum, að deiliskipulagið verði fært til fyrra horfs jafnframt því sem aðalskipulagi svæðisins verði breytt til samræmis við það deiliskipulag. Ella verði óhjákvæmilegt að lóðarhafi leiti réttar síns á formi skaðabóta. Fullyrt er að skaði BB bygginga grundvallist á því að enginn markaður sé fyrir íbúðarhúsalóðir á svæðinu.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Í apríl 2008 óskuðu lóðarhafar umræddra lóða (nú lóðir BB bygginga) eftir breytingu á deiliskipulagi á þann veg að á svæðinu yrðu íbúðarhús í stað frístundahúsa. Erindið var ítrekað af landeiganda í júlí 2009. Í samræmi við stefnu sveitarfélagsins, sem sett var fram í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 og að ósk lóðarhafa og landeigenda var hafin vinna við þróunaráætlun Kotabyggðar.
Drög að þróunaráætlun, sem skipulagsnefnd lét vinna, voru kynnt á almennum fundi 2. desember 2009 þar sem fram komu helstu viðfangsefni þeirrar skipulagsvinnu, sem framundan var. Greint var frá skipulagskostum og ólíkar lausnir ræddar. Þróunaráætlunin var ekki unnin frekar þar sem vilji kom fram um að vinna deiliskipulag svæðisins í heild í einum áfanga.
Í júni 2011 barst erindi frá Kotungafélaginu um að unnið verði áfram að breytingum á deiliskipulagi í samræmi við fyrirliggjandi hugmyndir sem lagðar voru fram í drögum að þróunaráætlun þ.e. að svæðið myndi breytast í íbúðabyggð í áföngum. Af þessu má sjá að tekið hefur verið mið af vilja og áherslum hagsmunaaðila í öllu ferlinu.
Landeigendur létu í framhaldi af því vinna á sinn kostnað tillögu að deiliskipulagi í samvinnu við skipulagsnefnd. Drög að deiliskipulagi voru kynnt á almennum fundi í apríl 2012 þar sem allar meginlínur tillögunnar lágu fyrir og voru ræddar.
Umbjóðandi bréfritara staðfesti á kynningarfundi sem hann sat um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar þann 30. apríl 2012 , að honum hafi verið gert ljóst við yfirtöku leigusamnings, að breytingar væru áformaðar á deiliskipulagi svæðisins og hvers eðlis þær væru. Fundurinn var boðaður með bréfi sem sent var til allra hagsmunaaðila og dreifibréfi til íbúa sveitarfélagsins.
Í maí 2012 sendu BB-byggingar inn fyrirspurn um byggingu frístundahúss ásamt ljósriti (A3) af grunnmynd húss. Formleg umsókn um byggingarleyfi var fyrst lögð inn hjá byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsvæðis þann 1. febrúar 2013. BB-byggingar hafa því ekki beðið árum saman eftir útgáfu byggingarleyfis.
Vandséð er á hverju fullyrðing JP-lögmanna fyrir hönd BB-Bygginga byggist um að enginn markaður sé fyrir íbúðarhúsabyggingar á svæðinu þar sem einungis ein íbúðarhúsalóð á svæðinu er óseld og tuttugu íbúðarhús hafa verið byggð í þessum hluta sveitarfélagsins á síðustu árum, sem er nokkuð mikið í sveitarfélagi sem telur um fjögurhundruð íbúa.
Í auglýsingu skipulagstillögu samkvæmt Skipulagslögum felst samráð við alla hagsmunaaðila, sem þá geta gert athugasemdir og gætt hagsmuna sinna. Auglýsingin er almenn, þ.e. einstökum hagsmunaaðilum er ekki send sérstök boð um framlagða tillögu. Umbjóðanda lögmannsstofunnar var kunnugt um um eðli málsins, stefnu sveitarstjórnar, ákvæði aðalskipulags og fyrirhugaðar skipulagsbreytingar auk þess sem hann hefur setið almennan kynningarfund um skipulagið og tekið þátt í umræðum. Á þeim fundi kom fram og er bókað í fundargerð að BB-byggingum var kunnugt um fyrirhugaðar breytingar.
Engar aðalteikningar höfðu verið samþykktar á lóðum hans og meint niðurfelling lóðar, sem hann telur sig hafa forkaupsrétt á, á við lóð sem aldrei hefur verið í samþykktu skipulagi. Umbreyting svæðisins í íbúðarsvæði ætti að hafa í för með sér aukið verðmæti óbyggðra lóða og verður ekki annað séð en nýtt og breytt skipulag sé umbjóðanda bréfritara í hag.

2. Guðrún H. Þorkelsdóttir.

2.1 Vegna legu bústaðar míns Kotabyggðar 2 get ég ekki fallist á meiri hækkun á veginum en 30 cm. Óska ég jafnframt eftir því að við gerð götunnar verði hugað að því að setja upp hraðahindranir til að draga úr hraðakstri um hverfið.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Texti greinargerðar verður uppfærður og þar bætt við að tekið skuli tillit til hæðamismunar og aðkomu að þegar byggðum húsum eftir því sem kostur er við hæðasetningu vega.
Hámarkshraði á svæðinu verður 30 km/klst. Vegir eru mjóir, brattir og bugðóttir og því ekki metin þörf fyrir sérstakar hraðahindranir. Félag lóðarhafa getur, að fenginni heimild sveitarstjórnar, sett upp hraðahindranir, reynist umferðarhraði mikill þvert á væntingar sveitarstjórnar.

3. Kalla Malmquist

3.1 Farið er fram á stuðning við að fá leyfi fyrir bílastæði norðan við veg [frá Veigastaðavegi] að húsi á lóð nr. 6 þar sem lóð nr. 10 hefur ekki aðgang að aðalvegi og snjóþungt er á svæðinu.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Lóðarmörk lóðar nr. 6 eru leiðrétt á uppdrætti deiliskipulagsins þannig að áfram er heimilaður útafakstur frá Veigastaðavegi nr. 828 að lóðum nr. 6 og 10. Skilgreind eru almenn bílastæði á opnu svæði á milli lóðanna.

4. Kjartan Kolbeinsson fyrir hönd Félags lóðarhafa í Kotabyggð.

4.1 Óskað er eftir því að sveitarfélagið skýri frá því hvar sá fjórðungur lands sé sem nýta skal „fyrir opin svæði til almennrar útivistar í þágu byggðarinnar á viðkomandi svæði“ og hvert eignarhald sé á því.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Þrjú svæði eru skilgreind sem opin svæði innan skipulagsins, leiksvæði norðan lóðar nr. 40 og tvö útivistarsvæði á vesturjaðri svæðisins. Flatarmál þeirra er 1,3 ha eða um 12% af heildarflatarmáli skipulagssvæðisins. Alls nýtast um 17% skipulagssvæðisins til almennra nota.
Nálægð við Vaðlareit, sem er opið skógræktar- og útivistarsvæði og gott aðgengi að honum er talið vega upp lægra hlutfall opinna svæða í byggðinni en meginregla kveður á um.
Fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulag Kotabyggðar felur í sér aðlögun á þegar byggðu svæði. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að slík aðlögun geti haft í för með sér frávik frá almennum viðmiðum um þéttleika byggðar og lóðarstærðir.
Kafla 4.13 í greinargerð deiliskipulagstillögu verður breytt í samræmi við ofangreint.

4.2 Vísað er í yfirlýsingu sveitarstjóra á fjölmennum fundi með Kotungum um að enginn verði þvingaður til að breyta húsi sínu í íbúðarhús. Óskað er eftir skráningu ummælanna.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Athugasemdin gefur tilefni til að bæta í texta í inngangi greinargerðar þannig að þar komi fram að deiliskipulagið feli ekki í sér framkvæmdaskyldu. Núverandi hús geta haldið samþykktri stöðu sinni uns eigendur kjósa að nýta sér þá breytingamöguleika, sem í skipulaginu felast. Umbreyting í íbúðarbyggð er ekki tímasett og er gert ráð fyrir að hún geti orðið á löngum tíma.

4.3 Snjóruðningssvæði við lóð nr. 5 nær yfir lækinn. Svæðið verði minnkað til að koma í veg fyrir flóð.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Svæði undir snjóruðninga verður minnkað skv. ábendingu.

4.4 Spurt er um ástæðu þess að á lóðum nr. 37-53 megi byggja 140 m² hús en aðeins 110 m² á öðrum lóðum. Bréfriturum finnst eðlilegast að allar lóðir hafi sama byggingarrétt.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Skilgreining lóða er ýmist frístundalóð eða íbúðarhúsalóð. Sér skilmálar gilda um byggingarmagn á frístundalóðum og aðrir skilmálar um íbúðarhúsalóðir. Allar frístundalóðir hafa skv. 4.6 heimild fyrir 150 m² húsum en íbúðarhúsalóðir allt að 300 m². Innsláttarvilla var í auglýstri greinargerð. Hæsta húsnúmer svæðisins er nr. 52. Verði frístundalóðum breytt í íbúðarhúsalóðir, sem gert er ráð fyrir með tímanum, breytast skilmálar því samhliða.

4.5 Í tillögunni er gert ráð fyrir hringakstri um byggðina en íbúasamtök Kotabyggðar hafa ályktar um að bratta veginum milli lóð 12 og 17 skuli lokað fyrir annarri umferð en gangandi. Göngustígurinn gæti verið akfær í neyðartilfellum.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Fallist er á athugasemdina. Leiðin milli lóða 6 og 7 annars vegar og 12 hins vegar verður akfær göngustígur upp að beygju efst í brekkunni. Akvegur verður að lóð nr. 5. Gert er ráð fyrir að akstur um stíginn verði óheimill nema við sérstakar aðstæður.

4.6 Ekki er sýnd aðkoma að lóð nr. 6

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Aðkoma er að lóð nr. 6 frá Veigastaðavegi. Hún verður færð inn á skipulagsuppdrátt og lóðamörk leiðrétt.

4.7 Óskað er eftir hnitum allra lóða.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Hnitaskrá verður gerð fyrir lóðir á svæðinu og hún samræmd innmældum hnitum. Hnitaskrá er ekki hluti deiliskipulagsins.

4.8 Lóðamörk lóðar nr. 13 eru ekki í samræmi við leigusamning.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var svohljóðandi:

Uppdráttur verður uppfærður til samræmis við gildandi lóðarsamning.

Ofangreind afgreiðsla skipulagsnefndar á athugasemdum var staðfest á 53. fundi Sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps þann 20. ágúst 2013. Sveitarstjórn samþykkti jafnframt Deiliskipulag Kotabyggðar með áorðnum breytingum með tilvísan til 41. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010 og að það verði sent Skipulagsstofnun til yfirferðar sbr. 42. gr. sömu laga.