Skólanefnd

13. fundur 01. desember 2011

Fundargerð
13. fundur skólanefndar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í leikskólanum Álfaborg, fimmtudaginn 1. desember 2011 kl. 17:00.

Fundinn sátu: Eiríkur H. Hauksson, Þóra Hjaltadóttir, Elísabet Ásgrímsdóttir, Ragna Erlingsdóttir, Helga Stefanía Þórsdóttir, Linda Stefánsdóttir og Jón Hrói Finnsson.

Fundargerð ritaði: Þóra Hjaltadóttir, ritari skólanefndar.

Dagskrá:

1. 1112001 - Inntaka barna og mönnun í Álfaborg
Þrjú börn fædd í ágúst og september 2010 bíða eftir að fá úthlutað leikskóladvöl. Barngildi eru þegar yfir viðmiðum um barngildi.
Ragna sagði ekki farið bókstaflega eftir útreikningi á barngildum en ljóst að miðað við mönnun væri þetta erfitt þar sem miðað við þessa fjölgun á svo ungum börnum yrði að þrískipta skólanum, annars myndi þetta bitna á eldri börnum skólans.
Miðað við markmið skólans eiga börn rétt á að komast að í skólanum við 18 mánaða aldur en umsækjendurnir uppfylla þann aldur í febrúar og mars, en þegar þar að kemur, vantar einn starfsmann.
Rætt um kosti og galla þess að taka inn í skólann yngri börn.

2. 1112002 - Auglýsing á stöðum leikskólakennara
Samkvæmt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87 12. júní 2008 skulu Að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla teljast til stöðugilda leikskólakennara. Jafnframt er skylt að ráða leikskólakennara í þessi stöðugildi, nema engir slíkir fáist til starfsins. Farið var yfir núverandi mönnun, með tilliti til skyldu til að auglýsa eftir leikskólakennurum.
Samþykkt að auglýsa eftir leikskólakennara í 100% starf frá og með 1.febrúar.

3. 1112003 - Skólastefna Svalbarðsstrandarhrepps
Rætt um þörf fyrir mótun stefnu í skólamálum í tengslum við gerð nýrrar aðalnámsskrár og nýrra skólanámsskráa í leikskólum og grunnskólum.
Jóni Hróa falið að gera tillögur að vinnulagi við mótun stefnu í samráði við skólastjórnendur.

4. 1112004 - Heilsueflandi heilsuskólar í Svalbarðsstrandarhreppi
Leikskólastjóri kynnti hugmyndir um heilsueflandi starf í leik- og grunnskólum.

5. 1111028 - Fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps 2012
Fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps fyrir árið 2012 er í vinnslu hjá stjórnendum og sveitarstjórn. Jón Hrói fór yfir þann hluta sem snýr að málefnum Álfaborgar.
Skólanefnd bendir á að gera þarf ráð fyrir hækkuðum launakostnaði vegna fjölgunar starfsmanna sbr. lið 2 í fundargerðinni. Að öðru leiti er fjárhagsáætlun á svipuðu róli og árið 2011. Skólanefnd mælir með að gjaldskrár verði ekki hækkaðar úr hófi.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 21:00.