Sveitarstjórn

25. fundur 10. janúar 2012

Fundargerð
25. fundur sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, þriðjudaginn 10. janúar 2012 kl. 13:30.

Fundinn sátu: Guðmundur Bjarnason, Helga Kvam, Anna Fr. Blöndal, Eiríkur H. Hauksson, Sandra Einarsdóttir og Jón Hrói Finnsson.

Fundargerð ritaði: Anna Fr. Blöndal, ritari sveitarstjórnar.

Dagskrá:

1. 1101014 - Gjaldskrá sorphirðu 2012
Lögð fram tillaga að auglýsingu nýrrar gjaldskrár fyrir sorphirðu og förgun úrgangs í Svalbarðsstrandarhreppi fyrir árið 2012. Gjaldskráin tekur mið af ákvörðun sveitarstjórnar um almenna hækkun gjalda um 5%. Að auki er lagt til að orðasambandið "...þar sem þeir eiga lögheimili." bætist aftan við setninguna "Heimilt er sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps að veita 50% afslátt til elli- og örorkulífeyrisþega frá gjaldskrá fyrir íbúðir" í 3. grein.
Rætt um breytinguna ásamt fleiru sem varðar sorpmálin. Breyting á orðalagi samþykkt. Þessi gjaldskrá miðar við tilhögun sorphirðu eins og hún er núna. Gjaldskráin verður síðan endurskoðuð þegar útboð á sorphirðu hefur farið fram.

2. 1201012 - Sorpgjöld fyrirtækja 2012
Fjögur fyrirtæki/eigendur atvinnuhúsnæðis hafa gefið til kynna að þau óski eftir að halda áfram að nýta sér sorpgáma sveitarfélagsins, Gerði ehf., Sveitahótelið Sveinbjarnargerði, Hótel Natur og Björn Ingason. Meta þarf hversu hátt gjald þarf að leggja á þessa aðila til að það standi undir kostnaði.
Rætt var um flokkun fyrirtækja eftir sorpmagni. Sveitarstjórn samþykkir að gjald fyrir sorp allt að einu tonni verði kr.18.900,- og kr.37.800 að tveim tonnum, kr.56.700,- að þrem tonnum, kr.75.600 að fjórum tonnum, kr.94.500,- að fimm tonnum. Samið verður sérstaklega um úrgang í meira magni en fimm tonn. Sveitarstjóra falið að gera samninga við þau fyrirtæki sem óska eftir að nota gáma á vegum sveitarfélagsins.

3. 1201013 - Gjöld fyrir hljóðfæraleigu í Tónlistarskóla Svalbarðsstrandar.
Skólastjóri Tónlistarskóla Svalbarðsstrandar hefur lagt fram tillögu að leigugjöldum fyrir leigu á hljóðfærum í eigu skólans. Lagt er til að gjald fyrir leigu á blásturshljóðfærum verði 7.500 eða 8.000 krónur og að gjald fyrir leigu á gíturum verði helmingur þess.
Gjaldskrá rædd og samþykkt að hljóðfæraleigan verði kr.7.500 fyrir blásturshljóðfæri og kr.3.750,- f. önnur hljóðfæri yfir skólaárið.

4. 1201014 - Gjaldskrá útleigu í húsnæði Valsárskóla
Gjaldskrá fyrir útleigu í Valsárskóla hefur ekki verið endurskoðuð síðan árið 2007. Gjaldskráin lögð fram til umræðu og endurskoðunar.
Ræddar nýjar forsendur fyrir gjaldskrá. Sveitarstjóra falið að vinna drög að gjaldskrá fyrir sveitarstjórnarfund í febrúar í samræmi við áherslupunkta.

5. 1112025 - Samningur um almannavarnarnefnd Eyjafjarðar
Samningur um sameiginlega almannavarnarnefnd sveitarfélaga við Eyjafjörð er tilbúinn til undirritunar. Samstarfið nær nú til allra sveitarfélaga við Eyjafjörð, eftir að almannavarnanefnd Fjallabyggðar var sameinuð Almannavarnanefnd Eyjafjarðar.
Sveitarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.

6. 1201011 - Samkomulag um framkvæmd gr. 8.2.5 í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Einingar-Iðju.
Eining-Iðja hefur gert tillögu að framkvæmd á grein 8.2.5 um fatakostnað í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir árið 2011. Tillagan byggir á samkomulagi sem þegar hefur verið gert við Akureyrarkaupstað. Sveitarstjóri leggur til að samkomulag verði gert fyrir allan gildistíma samningsins á þeim nótum sem meðfylgjandi drög bera með sér.
Sveitarstjórn samþykkir að sveitarstjóri leiti eftir samkomulagi um gildistímann í heild samkv. fyrirliggjandi drögum.

7. 1201004 - Ósk um samning um gistingu í skólahúsnæði fyrir hópa
Í bréfi dagsettu 3. janúar 2012 óskar Sæmundur Runólfsson, fyrir hönd UMFÍ, eftir samningi við sveitarfélagið um gistingu á afsláttarkjörum fyrir hópa í keppnisferðum og viðlíka á vegum ungmennafélaga.
Svalbarðsstrandarhreppur hefur ekki gjaldskrá fyrir þjónustu af þessu tagi. Hver umsókn er afgreidd sérstaklega og bendir sveitarstjórn UMFÍ á að hafa sambandi við sveitarstjóra ef óska á eftir gistingu í Valsárskóla vegna keppnisferða.

8. 1201008 - Ósk UMSE um rekstrarstyrk fyrir árið 2012
Í bréfi dagsettu 16. desember 2011 óskar Þorsteinn Marinósson, fyrir hönd UMSE, eftir rekstrarstyrk vegna ársins 2012. Í fjárhagsáætlun 2012 er gert ráð fyrir framlagi að fjárhæð kr. 240.000.
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir áframhaldandi stuðningi við UMSE að sömu fjárhæð og árið 2011.

9. 1201002 - Gjaldskrá Moltu ehf. 2012
Gjaldskrá Moltu ehf. fyrir móttöku á lífrænum úrgangi lögð fram til kynningar.
Lagt fram til kynningar.

10. 1201007 - Niðurfelling Halllandsnesvegar af Vegaskrá
Borist hefur afrit af bréfi Vegagerðarinnar til Úlfars Gunnarssonar þar sem tilkynnt er um niðurfellingu Halllandsnessvegar úr vegaskrá frá og með nýliðnum áramótum. Fram kemur að Úlfar hafi ekki gert athugasemdir við niðurfellinguna.
Lagt fram til kynningar.

11. 1201006 - Tjónabætur vegna slyss á skólalóð Valsárskóla
Gerð hefur verið krafa um tjónabætur vegna slyss sem varð á lóð Valsárskóla í febrúar 2009. Tryggingarfélag sveitarfélagsins hefur metið kröfuna og fallist á að greiða tjónabætur á þeirri forsendu að sannað sé að ekki hafi verið staðið nægilega vel að hálkuvörnum við útgang þann sem slysið varð við.
Lagt fram til kynningar.

12. 1201009 - Erindi um hrossasmölun og eftirlit með heimtum
Í bréfi frá 10. janúar 2011 kemur fram að Ólafur Jónsson, hérðasdýralæknir telur að sveitarstjórn beri að endurskoða ákvörðun um að ekki skuli fara fram hrossasmölun á afréttar- og heimalöndum í sveitarfélaginu. Tilefni erindisins er að tvö trippi í eigu aðila í Svalbarðsstrandarhreppi fundust nýlega í ógöngum á Gæsadal
Núverandi sveitarstjórn hefur ekki fjallað um hrossasmölun í ógirtum heimalöndum, en mun taka málið til athugunar.

13. 1201010 - Erindi frá foreldrum barna í Álfaborg varðandi hámarksvistunartíma
Í bréfi frá 9. janúar fara Elín Svava Ingvarsdóttir og Haraldur Bergur Ævarsson þess á leit að sveitarstjórn endurskoði ákvörðun um að frmfylgja ákvæðum dvalarsamninga við foreldra leikskólabarna um hámarksdvalartíma barnanna. Hámarksdvöl skv. vistunarsamningum er 8,5 klst, en nokkur börn hafa því dvalið í leikskólanum allan opnunartíma hans, þ.e. frá 7.30 til 16.15. Í bréfinu leggja þau til að dvalartími verði rýmkaður og rukkað fyrir. Erindið kemur í kjölfar bréfs til foreldra þar sem tilkynnt var um hækkun gjalda og að til stæði að framfylgja ákvæðinu um 8,5 klst. hámarksdvöl.
Sveitarstjórn bendir á að engin breyting hefur orðið á ákvæðum dvalarsamninga hins vegar hefur þróunin orðið sú að hálf klst. umfram átta tímana hefur teygst í 45 mín. Sveitarstjórn áréttar ákvæði gildandi vistunarsamninga. Átta og hálf klst. er sú þjónusta sem sveitarfélagið veitir, með þeim sveigjanleika að foreldrar gera samning við leikskólann um hvernig þessi átta og hálfi tími er nýttur frá klukkan 7.30 á morgnana til kl. 16.15 síðdegis.

14. 1201015 - Gátlisti nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins
Umræða um gátlista nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins.
Nokkrar umræður urðu um gátlistann. Fulltrúar í sveitarstjórn mun vinna áfram með hann og senda hlutaðeigandi fyrir svör fyrir 15.janúar.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.30.