Sveitarstjórn

58. fundur 10. desember 2013

Fundargerð
58. fundur sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, þriðjudaginn 10. desember 2013 kl. 13:30.

Fundinn sátu: Guðmundur Bjarnason oddviti, Helga Kvam varaoddviti, Anna Fr. Blöndal ritari, Eiríkur H. Hauksson aðalmaður, Sandra Einarsdóttir aðalmaður, Stefán H. Björgvinsson aðalmaður, Sigurður Halldórsson 1. varamaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Anna Fr. Blöndal, ritari sveitarstjórnar.

Vegna tæknilegra örðugleika var ekki hægt að ljúka fundinum 10. desember. Fundi var því frestað kl. 16:30 til 11. desember kl. 20. Stefán Hlynur sat fundinn þann 10. desember en Sigurður Halldórsson sat fundinn í hans stað þann 11. desember.

Dagskrá:

1. 1304006 - Framkvæmdir og fjárfestingar 2013
Vinna við hönnunar- og útboðsgögn vegna breytingar á skólastjóraíbúð í skrifstofur og bókasafn eru á lokastigi. Óskað er eftir afstöðu sveitarstjórnar til eftirfarandi þátta:
1. Á að kaupa tilbúið fundarborð eða láta sérsmíða það?
2. Á að kaupa tjald og skjávarpa eða stórt sjónvarp í fundarherbergið?
3. Á að kaupa staðlaðar eða sérsmíðaðar hurðir með gluggum sbr. teikningar?
4. Á að láta breyta gluggaopum í öllum gluggum á vesturhlið til að gæta samræmis?
5. Á að gera ráð fyrir frágangi á stétt að inngangi og snjóbræðslukerfi í útboðinu?
6. Á að fella breytingarnar á gluggum í leikskólanum og verkmenntastofum inn í útboðið?
1. Sveitarstjórn samþykkir að skoða hvort fáanlegt er tilbúið borð sem fellur vel að rýminu en útilokar ekki að láta sérsmíða borðið.
2. Samþykkt að kaupa skjávarpa og tjald en láta leggja lagnir að sjónvarpi til hugsanlegra nota síðar.
3. Sveitarstjórn samþykkir að hurðir verði samkvæmt tillögum hönnuðar.
4. Sveitarstjórn telur rétt að breyta öllum gluggum á vesturhlið til að gæta samræmis og einnig að fella breytingar á gluggum í leikskóla og verkmenntastofum inn í útboðið.
5. Sveitarstjórn vill að gert verði ráð fyrir stétt að inngangi og snjóbræðslukerfi í útboðinu.

2. 1311010 - Gjaldskrár Svalbarðsstrandarhrepps 2014
Áður á dagskrá 57. fundar sveitarstjórnar þann 12. nóvember 2013. Ákvörðun var þá frestað til næsta fundar.
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps vill leggja sitt af mörkum til að vinna gegn verðbólgu og stuðla að auknum stöðugleika í hagkerfinu. Sveitarstjórn hefur því ákveðið að hækka ekki aðrar gjaldskrár en gjaldskrá fyrir rotþróahreinsun og þær gjaldskrár sem taka vísitöluhækkunum skv. samþykktum.Sveitarstjórn samþykkir þó að frístundastyrkur, styrkur til elli- og örorkulífeyrisþega vegna kostnaðar við mokstur heimreiða og sambærilegir liðir hækki um 4%.

3. 1311008 - Ákvörðun útsvars 2014
Áður á dagskrá 57. fundar sveitarstjórnar þann 12. nóvember 2013.
Innanríkisráðuneytið hefur sent tilkynningu til sveitarfélaga þar sem athygli er vakin á því að í undirbúningi eru breytingar á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Nái breytingarnar fram að ganga mun leyfilegt hámarksútsvar á árinu 2014 hækka úr 14,48% í 14,52% vegna samkomulags um yfirtöku sveitarfélaganna á málefnum fatlaðra. Hækkunin rennur til Jöfnunarsjóðs Sveitarfélaga. Sérstök athygli er vakin á því að ef af breytingunni verður og sveitarstjórn kýs að hækka ekki útsvarið um 0,04% munu útsvarstekjur þess samt sem áður skerðast sem nemur fyrrgreindri hækkun á hlutdeild Jöfnunarsjóðs í innheimtum útsvarstekjum.
Í breytingunum fælist einnig að frestur sveitarstjórna til að ákveða útsvarshlutfall ársins 2014 verður framlengdur til 30. desember 2013.
Sveitarstjórn samþykkir að nýta heimild til hækkunar á hámarksútsvari úr 14,48% í 14,52% verði frumvarp um breytingu á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga samþykkt. Hækkun útsvarsins hefur ekki áhrif á skattgreiðendur þar sem tekjuskattshlutfall lækkar á móti útsvarsprósentu.

4. 1311011 - Fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps 2014
Önnur umræða um fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps 2014-2017.
"Farið var yfir drög að fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps 2014-2017 og gerðar lítilsháttar breytingar. Fjárhagsáætlun var því næst samþykkt.
Samkvæmt henni verður 17,2 mkr. afgangur af rekstri samstæðunnar. Tekjur A-hluta árið 2014 eru áætlaðar um 256,4 mkr. Þar af eru útsvarstekjur 147,7 mkr., tekjur af fasteignaskatti 22,8 mkr. og framlög Jöfnunarsjóðs 65,8 mkr. Samanlagðar tekjur A- og B-hluta (samstæðu) eru áætlaðar 261,4 mkr., rekstrargjöld A- og B-hluta 236,3 mkr. og afskriftir á árinu verða um 15,2 mkr. Fjármagnsliðir eru áætlaðir jákvæðir um 7,3 mkr. Fyrirhuguð fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er 65 mkr. og fyrirhuguð fjárfesting í eignarhlutum í félögum er 881 þkr. Handbært fé í árslok 2014 er áætlað 180,7 mkr. og langtímaskuldir sveitarfélagins í árslok verða um 13 mkr.
Árin 2015-2017 er reiknað með hækkun tekna af útsvari og fasteignskatti og framlaga Jöfnunarsjóðs um 2,5% á ári, en að aðrar tekjur og rekstrarkostnaður standi í stað. Fjárfestingarhreyfingar árið 2015 eru áætlaðar 15,5 mkr. árið 2015 og 20,5 mkr. árin 2016-2017.

5. 1106002 - Útboð í úrgangsmálum
Lögð fram drög að útboðsgögnum vegna útboðs í úrgangsmálum sveitarfélagsins. Sveitarstjóri óskar eftir heimild til að auglýsa útboðið.
Farið yfir framlögð útboðsgögn. Sveitarstjórn telur að auka þurfi tíðni tæminga á gámum á gámasvæðum í útboðsgögnum.
Einnig þarf að bæta inn ákvæðum um viðbrögð þjónustuaðila við því þegar veður og ófærð hamla sorphirðu.
Sveitarstjóra falið að láta uppfæra gögnin og auglýsa útboð.

6. 1304017 - Ráðning sameiginlegs skipulagsfulltrúa sveitarfélaga við Eyjafjörð
Sveitarstjóri hefur, í samstarfi við sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps og Hörgársveitar unnið að drögum að samþykkt um byggðarsamlag um skipulags- og byggingarfulltrúaembætti sveitarfélaganna fjögurra. Gert hefur verið ráð fyrir að stofnað verði formlegt byggðarsamlag um reksturinn.
Fyrir liggur ákvörðun Sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um að taka ekki þátt í stofnun byggðasamlags um rekstur sameiginlegs skipulags- og byggingarfulltrúaembættis á komandi ári. Sveitarstjórn leggur áherslu á að áfram verði unnið að ráðningu skipulagsfulltrúa.

7. 1312011 - Leiga á Laugartúni 6b
Lögð fram drög að auglýsingu um leigu á Laugartúni 6b.
Jón Hrói Finnsson vék af fundi undir þessum lið.
Farið var yfir orðalag auglýsingar og gerðar á henni nokkrar breytingar. Eftirfarandi orðalag samþykkt:

Íbúð til leigu
Svalbarðsstrandarhreppur auglýsir þriggja herbergja 89 fm íbúð í þriggja íbúða raðhúsi til leigu frá 1. janúar 2014.
Íbúðin sem um ræðir er leiguíbúð í eigu Svalbarðsstrandarhrepps. Húsaleiga er 88.000,- á mánuði við upphaf leigutíma og tekur breytingum miðað við vísitölu neysluverðs.
Umsóknum skal skilað á skrifstofu Svalbarðsstrandarhrepps eða í tölvupósti á magnus@svalbardsstrond.is fyrir 18. desember 2013.
Sveitarstjóra falið að auglýsa íbúðina í Akureyri Vikublaði.

8. 1311026 - Ályktun 48. sambandsþings UMFÍ
Í bréfi frá 15. nóvember 2013 tilkynnir Sæmundur Runólfsson, fyrir hönd Ungmennafélags Íslands, um ályktun 48. sambandsþings félagins. Í ályktuninni eru ungmenna-, íþrótta- og sveitarfélög hvött til að hvetja iðkendur, foreldra og forráðamenn til að ganga, hjóla eða taka strætó til og frá skipulögðu íþróttastarfi.
Lagt fram til kynningar.

9. 1310010 - Áherslur Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga varðandi endurskoðun
Afrit af bréfi Þóris Ólafssonar og Eiríks Benónýssonar, fyrir hönd Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, til endurskoðenda, frá 25. nóvember 2013, lagt fram til kynningar.

10. 1311028 - Jólaaðstoð Mæðrastyrksnefndar ofl.
Í bréfi frá 25. október óskar Sigurveig S. Bergsteinsdóttir, fyrir hönd Mæðrastyrksnefndar Akureyrar, Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins á Akureyri og Rauða krossins við Eyjafjörð, eftir stuðningi Svalbarðsstrandarhrepps við samstarf félaganna um jólaaðstoð við þurfandi fjölskyldur á svæðinu.
Sveitarstjórn samþykkir að veita styrk að fjárhæð kr. 50.000,-.

11. 1311027 - Tilkynning um fyrirhugaða niðurfellingu Meðalheimsvegar af vegaskrá
Borist hefur afrit af bréfi Magnúsar Björnssonar, fyrir hönd Vegagerðarinnar, til Guðmundar Bjarnasonar, eiganda Meðalheims, frá 4. nóvember 2013. Í því er upplýst um áform Vegagerðarinnar um að fella Meðalheimsveg nr. 8538-01 af vegaskrá með vísan til 6. gr. reglugerðar um héraðsvegi nr. 774/2010 og c. liðar 2. mgr. 8. gr. Vegalaga nr. 80/2007.
Guðmundur Bjarnason vék af fundi undir þessum lið.
Sveitarstjórn bendir á að búið hefur verið í Meðalheimi þótt ekki hafi þar verið skráð lögheimili upp á síðkastið. Jafnframt bendir sveitarstjórn á að Meðalheimur hefur nýlega verið seldur og að miklar líkur eru á að þar verði föst búseta hér eftir sem hingað til. Sveitarstjórn telur ekki tímabært að fella Meðalheimsveg af vegaskrá og leggst því alfarið gegn því að það verði gert.

12. 1312008 - Afgreiðsla tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030
Í bréfi frá 2. desember, upplýsir Haraldur Sigurðsson, fyrir hönd Reykjavíkurborgar, um afgreiðslu á athugasemd sveitarstjórnar við auglýsta tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og afgreiðslu skipulagsins. Í bréfinu er vísað í skjal á vef Reykjavíkurborgar þar sem athugasemdum er svarað. Fram kemur að athugasemdir hafi gefið m.a. tilefni til breytinga varðandi tímasetningu landnotkunar í Vatnsmýri.
Lagt fram til kynningar.

13. 1312007 - Hlutabréf í Tækifæri hf
Í bréfi frá 3. desember upplýsir Jón Steindór Árnason, fyrir hönd Tækifæris hf. um fyrirhuguð viðskipti með hlutabréf í félaginu. Fram kemur að stjórn Tækifæris hefur fallið frá forkaupsrétti og að hluthafar í félaginu hafi frest til 1. febrúar til að neyta forkaupsréttar í hlutfalli við hlutafjáreign sína skv. gr. 2.01 í samþykktum þess.
Sveitarstjórn fellur frá forkaupsrétti að umræddum hlutabréfum.

14. 1312004 - Aðalfundur Minjasafnsins 2013
Í bréfi frá 28. nóvember boðar Haraldur Egilsson safnstjóri, fyrir hönd stjórnar Minjasafnsins, til aðalfundar þann 19. desember kl. 16. Meðal efnis fundarins eru tillögur stjórnar að breytingum á stofnskrá.
Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra umboð sitt á aðalfundi Minjasafnsins.

15. 1302021 - Endurnýjun fjallsgirðingar 2013
Farið yfir stöðu mála varðandi fjallsgirðingarmál. Lagðar fram fyrirspurnir sem sendar voru Ólafi Dýrmundssyni hjá Bændasamtökum Íslands og svör samtakanna.
Oddviti gerði grein fyrir stöðu mála.

16. 1308017 - Uppfærsla vefumsjónarkerfis
Settur hefur verið upp nýr vefur fyrir sveitarfélagið á þróunarsvæði á netinu. Umræður um útlit og uppbyggingu vefjarins.
Farið yfir tillögur sem lágu fyrir um breytingu á vefumsjónarkerfinu. Sveitarstjóra falið að halda áfram með málið.

17. 1311003F - Skipulagsnefnd - 34
Fundargerð 34. fundar Skipulagsnefndar þann 5. desember 2013 var tekin fyrir á 58. fundi sveitarstjórnar þann 10.-11. desember 2013, sjá afgreiðslur einstakra liða í fundargerðinni.

17.1. 1311001 - Ósk um endurskoðun/breytingu á deiliskipulagi jarðarinnar Sunnuhlíðar
Afgreiðsla skipulagnefndar á 34. fundi hennar þann 5. desember 2013 var staðfest á 58. fundi sveitarstjórnar þann 10.-11. desember 2013.

17.2. 1310004 - Ósk um afstöðu til umsóknar um byggingu frístundahúss í landi Austurhlíðar
Afgreiðsla skipulagnefndar á 34. fundi hennar þann 5. desember 2013 var staðfest á 58. fundi sveitarstjórnar þann 10.-11. desember 2013.

17.3. 1107010 - Deiliskipulag Kotabyggðar
Eiríkur H. Hauksson vék af fundi undir þessum lið. Afgreiðsla skipulagnefndar á 34. fundi hennar þann 5. desember 2013 var staðfest á 58. fundi sveitarstjórnar þann 10.-11. desember 2013. Farið yfir drög að samningi milli Veigastaða ehf og Svalbarðsstrandarhrepps varðandi Kotabyggðina. Sveitarstjórn samþykkir að deiliskipulagið verði auglýst skv. 42. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010.

17.4. 1312001 - Ósk um afstöðu til skipulagsskyldu
Afgreiðsla skipulagnefndar á 34. fundi hennar þann 5. desember 2013 var staðfest á 58. fundi sveitarstjórnar þann 10.-11. desember 2013.

18. 1312002F - Skólanefnd - 28
Fundargerð 28. fundar skólanefndar þann 9. desember 2013 var tekin fyrir á 58. fundi sveitarstjórnar þann 10.-11. desember 2013. Sjá afgreiðslu einstakra liða í fundargerð.

18.1. 1311011 - Fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps 2014 - skólamál
Afgreiðsla skólanefndar á 28. fundi hennar þann 9. desember 2013 var staðfest á 58. fundi sveitarstjórnar þann 10.-11. desember 2013 og höfð til hliðsjónar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2014.

18.2. 1312010 - Hugmyndir um skólastarf í Valsárskóla 2014-2015
Afgreiðsla skólanefndar á 28. fundi hennar þann 9. desember 2013 var staðfest á 58. fundi sveitarstjórnar þann 10.-11. desember 2013.

19. 1312013 - Skipan fulltrúa í fulltrúaráð Eyþings
Í bréfi frá 4. nóvember óskar Pétur Þór Jónasson, fyrir hönd stjórnar Eyþings, eftir að Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps skipi fulltrúa sinn í fulltrúaráði Eyþings, sbr. ákvörðun aðalfundar Eyþings 27. og 28. september 2013. Jafnframt er þess óskað að skipaður verði varamaður fyrir viðkomandi.
Tekið á dagskrá með samþykki allra fundarmanna. Sveitarstjórn skipar Eirík H. Hauksson sem fulltrúa sinn í fulltrúaráði Eyþings og Helgu Kvam til vara.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11. desember 2013 kl. 23:50.