Sveitarstjórn

1. fundur 16. júní 2014

 

 

Fundargerð
1. fundur sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, haldinn í ráðhúsinu Svalbarðseyri, mánudaginn 16. júní 2014 kl. 14:00.
 
Fundinn sátu: Eiríkur H. Hauksson oddviti, Guðfinna Steingrímsdóttir varaoddviti, Ólafur Rúnar Ólafsson aðalmaður, Valtýr Þór Hreiðarsson aðalmaður, Anna Karen Úlfarsdóttir 1. varamaður, Sigurður Halldórsson 2. varamaður og Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri.
 
Fundargerð ritaði: Jón Hrói Finnsson, sveitarstjóri.
 
Dagskrá:
 
1. 1406009 - Kosning oddvita, varaoddvita og ritara sveitarstjórnar
Samkvæmt 13. grein Sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 skal sveitarstjórn kjósa oddvita og varaoddvita á 1. fundi sínum. Í Svalbarðsstrandarhreppi hefur einnig verið kosinn ritari sveitarstjórnar skv. 23. gr. eldri Sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 sem nú hafa verið felld úr gildi. Engin ákvæði eru um fundarritara í nýjum Sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011.
Eiríkur H. Hauksson var kjörinn oddviti og Guðfinna Steingrímsdóttir varaoddviti. Sveitarstjórn mun fela starfsmanni sveitarfélagsins að rita fundargerð. Kosningin var einróma.
 
2. 1406011 - Skipun nefnda fyrir kjörtímabilið 2014-2018
Rætt um skipun nefnda og fulltrúa í nefndir á vegum sveitarstjórnar.
Ólafur upplýsti um að viðbrögð hefðu borist frá fjórum íbúum varðandi nefndarsetu. Valtýr lagði til að nefndarskipulag sveitarfélagsins verði endurskoðað. Rætt um útfærslur og Eiríki falið að vinna tillögur. Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
 
3. 1406010 - Þóknun sveitarstjórnar og nefndarfulltrúa kjörtímabilið 2014-2018
Samkvæmt 32. og 51. grein Sveitarstjórnarlaga ber sveitarstjórn að ákveða hæfilega þóknun fyrir störf fulltrúa í sveitarstjórn og nefndum á hennar vegum.
Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
 
4. 1404005 - Siðareglur sveitarstjórnar
Siðareglur sveitarstjórnar voru samþykktar á 64. fundi Sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014 að afloknum tveimur umræðum. Rétt þykir að bera siðareglurnar undir nýkjörna sveitarstjórn áður en þær eru sendar innanríkisráðherra til staðfestingar.
Sveitarstjórn lýsir sig samþykka siðareglunum og samþykkir að þær verði sendar innanríkisráðuneyti til staðfestingar.
 
5. 1406003 - Mönnun í Valsárskóla veturinn 2014-15
Skólastjóri Valsárskóla hefur lagt til að fyrirkomulagi húsvörslu og þrifa verði breytt í tengslum við brotthvarf tveggja þeirra starfsmanna sem sinna þessum hlutverkum. Fyrri sveitarstjórn tók jákvætt í erindið á 66. fundi sínum þann 10. júní 2014 en vísaði því til nýrrar sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn óskar eftir nánari útlistun á áhrifum á stöðugildafjölda og um það hvernig verkefni skiptast á milli starfsmanna samkvæmt hugmyndum skólastjóra. Sveitarstjórn óskar eftir að skólastjóri mæti á næsta fund sveitarstjórnar. Sveitarstjórn telur æskilegt að skoða málið í víðara samhengi.
 
6. 1406008 - Beiðni um umsögn um umsókn um rekstrarleyfi í gististaðaflokki V, Hótel.
Í tölvupósti frá 11. júní óskar Sigurður Einarsson, fyrir hönd Sýslumannsins á Akureyri, eftir umsögn sveitarstjórnar um umsókn Bjarneyjar Bjarnadóttur, fyrir hönd Bjarnargerðis ehf. um rekstrareyfi fyrir hóteli (gististaðaflokkur V), samkvæmt 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Um er að ræða Hótel að Sveinbjarnargerði IIc og IId undir nafninu Hótel Bjarnargrði.
Eiríkur vék af fundi undir umræðum og afgreiðslu liðarins. Sigurður tók sæti hans og Guðfinna tók við fundarstjórn.
Sveitarstjórn telur að umræddur rekstur sé í samræmi við ákvæði gildandi aðalskipulags og samþykkta notkun fasteigna. Ekki hefur verið unnið deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við að rekstrarleyfi sé veitt en bendir á að líklega þurfi að sækja um undanþágu frá 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um 500 metra fjarlægðarmörk milli mannabústaða og alífuglabúa. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisfulltrúa hyggst umsækjandi óska eftir slíkri undanþágu.
 
7. 1401004 - Framkvæmdir og fjárfestingar 2014
Sveitarstjóri fór yfir stöðu framkvæmda á vegum sveitarfélagsins.
 
8. 1311001 - Ósk um endurskoðun/breytingu á deiliskipulagi jarðarinnar Sunnuhlíð
Á 66. fundi Sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps 2010-2014, þann 10. júní s.l. var samþykkt að óska eftir því við Skipulagsstofnun að hún veitti meðmæli sín með útgáfu byggingarleyfis fyrir byggingu tveggja smáhýsa í landi Sunnuhlíðar skv. 1. tl. ákvæða til bráðabirgða í Skipulagslögum. Erindið var sent Skipulagsstofnun þann 13. júní.
Þegar ákvörðunin var tekin var sveitarstjórn ekki kunnugt um lög nr. 59/2014 um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 (bótaákvæði o.fl.)sem samþykkt voru á alþingi 16. maí 2014 og tóku gildi við auglýsingu þeirra í Stjórnartíðindum þann 3. júní 2014. Á vef Skipulagsstofnunar er sett fram eftirfarandi túlkun á 24. grein laganna: "Gerðar eru breytingar á 1. tölulið bráðabirgðaákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 í þá veru að eingöngu á við að leita meðmæla Skipulagsstofnunar með leyfisveitingum eða deiliskipulagstillögum þar sem ekki liggur fyrir aðalskipulag. Um aðrar leyfisveitingar fer nú samkvæmt almennum ákvæðum laganna, þ.e. að vinna þarf deiliskipulag eða grenndarkynna leyfisumsókn þar sem það á við". Þar sem aðalskipulag er í gildi fyrir viðkomandi svæði hefur þessi túlkun Skipulagsstofnunar í för með sér að ólíklegt er að erindi Svalbarðsstrandarhrepps fái jákvæða meðferð. Sveitarstjóri leggur því til að breyting á deiliskipulagi því sem auglýst var 10. mars 2011 og breytt þann 8. júní sama ár verði sett í grenndarkynningu. Breytingin er í samræmi við óverulega breytingu á Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 sem hlaut staðfestingu Skipulagsstofnunar þann 30. maí 2014 og bíður auglýsingar í Stjórnartíðindum.
Tekið á dagskrá með samþykki allra fundarmanna. Valtýr Hreiðarsson vék af fundi undir umræðum um þennan lið. Sigurður Halldórsson tók sæti hans.
Sveitarstjórn telur breytinguna það óverulega að hún falli undir ákvæði 2. mgr. 43. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkir því, með fyrirvara um auglýsingu á óverulegri breytingu á aðalskipulagi skv. ofansögðu, að grenndarkynna breytingu á deiliskipulagi Sunnuhlíðar samkvæmt framlögðum uppdrætti með greinargerð.
Tillagan skal kynnt eigendum Háuhlíðar (fnr. 231-5710), Háamels (fnr. 232-4455), Tungu (fnr. 216-0418), Ásgarðs (fnr. 216-0123), Neðri-Dálksstaða (fnr. 216-0334) og Brautarhóls (fnr. 216-0131).
Sveitarstjórn mælist til að skipulagið verði auglýst án frekari aðkomu hennar ef ekki berast athugasemdir, sé það í samræmi við Skipulagslög.
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:40.